Umhverfisráðherra. Eru þetta efndir við hreyfihamlaða náttúruunnendur?

Bergur Þorri Benjamínsson málefnafulltrúi skrifar:

Allt frá því ég lamaðist fyrir nær 14 árum og bróðir minn fyrir nær 6 árum hef ég og síðan við báðir reynt að berjast fyrir því að geta notið þeirra lífsgæða sem þeir sem heilbrigðir eru taka sem sjálfsögðum hlut. Dæmi um þetta er að geta ferðast um óbyggð svæði, veitt fisk á söng svo dæmi sé tekið. Til að fá undanþágu svo komast mætti á svæði sem nú er óheimilt að fara um á vélknúnum ökutækjum lá því beinast við að leita til hæstvirts umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur.

31. mars 2011 var eftirfarandi fyrirspurn, beint til umhverfisráðherra frá Kristjáni Þór Júlíussyni alþingismanni: „Hvað líður undirbúningi lagafrumvarps sem heimili ferðir hreyfihamlaðra á vélknúnum ökutækjum utan vega á leiðum sem aðeins er leyft að fara um fótgangandi, svo þeim sé gert kleift að njóta útivistar sem er þeim annars illmöguleg, t.d. stangveiða eða ferða um þjóðgarða og önnur vernduð svæði?“

Svohljóðandi svar barst: „Umhverfisráðuneytið hefur hug á því að gera breytingar á reglugerð nr. 528/2005 og hefur í því skyni óskað eftir tillögum Umhverfisstofnunar varðandi mögulegar undanþágur frá 17. gr. náttúruverndarlaga vegna utanvegaaksturs fatlaðra einstaklinga, með hliðsjón af ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. … Tillögur stofnunarinnar um breytingar á reglugerðinni hafa nú þegar borist … og væntanlega afgreidd í framhaldinu.“

Til að gera langa sögu stutta þá hefur enginn undanþága fengist. Aftur var ráðherrann spurð nú 25. janúar 2012 hvers vegna fyrri leið gengi ekki og er skýring hennar eftirfarandi: „Hins vegar höfum við skoðað mjög ítarlega bæði laga- og reglugerðarumhverfið og þetta er ögn flóknara en fyrir lá. … Ég hef sett í gang samráðshóp milli Umhverfisstofnunar og Öryrkjabandalagsins. … Ég vonast til þess að það geti verið í tæka tíð fyrir næsta sumar[tillögur umrædds starfshóps], en þessi skoðun er í gangi …“

Starfshópur þessi skilaði síðasta haust og lagði m.a til að veittar yrðu ákveðnar undanþágur til þeirra sem ekki geta gengið, svo þeir geti notið náttúrunnar t.d með því að nota fjór-/sexhjól til að ferðast um óbyggð og vegalaus svæði, auk annarra tillagna til að uppfylla samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Vart þarf að taka það fram, að jafnframt var í umræddum tillögum minnst á ábyrgð þess sem fer um óbyggðir á vélknúnum ökutæki og þeirri staðreynd að skemmi menn landið varði það m.a fé sektum. Slíkar tillögur lúta að eðli málsins og undir þær tek ég heilshugar.

Nú ber svo við að í frumvarpi til nýrra náttúruverndarlaga sem lagt var fram 21 nóvember 2012 kemur fram að þau eigi að: “auðvelda umgengni og kynni almennings af náttúru landsins og menningarminjum sem henni tengjast og efla þekkingu og fræðslu um náttúruna.“

Í umræddu frumvarpi segir einnig að: „Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé umsýsluáætlun fyrir friðlýst svæði. … þar sem m.a. er kveðið nánar á um umfang verkefnisins og greiðslur … Í umsýsluáætlun skal m.a. fjallað um landnýtingu, landvörslu, … og aðgengi ferðamanna,þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks.“

Fatlaðir hafa hins vegar ekkert á umræddum umsýsluáætlunum að græða, þegar greinargerð með umræddri lagagrein er skoðuð, enda ekki hægt að skilja lagagreinina og skýringar með henni öðruvísi, en að náttúran eigi að njóta vafans, en ekki að hinn fatlaði eigi að njóta náttúrunnar eða a.m.k. að eiga möguleika á því, til dæmis með notkun fjór-/sexhjóla.

Því er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu, en ekkert sé komið til móts við sjónarmið fatlaðs fólks og þeim ákvæðum í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ráðherrann hafði þó áður borið fyrir brjósti.