Ályktanir Landsfundar Sjálfsbjargar 2022

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. var haldinn á Grand Hótel þann 30. apríl 2022

Ályktun um hjálpartæki

Landsfundur Sjálfsbjargar Landsamband hreyfihamlaða haldinn 30. april 2022 skorar á ríkisvaldið og stjórnendur Sjúkratrygginga Íslands að tryggja hreyfihömluðum viðeigandi hjálpartæki til allra frístunda og íþrótta sem þeir vilja stunda.

Núverandi lög og reglur um hjálpartæki eru allt of takmörkuð varðandi úthlutun á hjálpartækjum sem er hreyfihömluðum nauðsynleg til að stunda frístundir og íþróttir. Einnig bera þau mikinn aukakostnað sjálf við kaup á búnaði.

Ályktun um aðgengi að húsnæði

Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 30.apríl 2022 skorar á ríki og sveitarfélög að þau tryggi að hreyfihamlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað, hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Til þess að svo megi verða skal tryggja að enginn verði þvingaður í búsetuform eða úrræði gegn hans vilja eða þörfum. Einnig er mikilvægt að tryggja að hreyfihamlað fólk sem býr í eigin húsnæði geti aðlagað húsnæðið eftir sínum þörfum hverju sinni án þess að þurfa að skuldsetja sig umfram aðra.

Ályktun um aðgengi að námi

Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 30.apríl 2022 skorar á ríki og sveitarfélög að þau tryggi að hreyfihamlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér framhaldsnám með því að tryggja aðgengilegt, öruggt og eflandi námsumhverfi og stuðla að þátttöku nemenda og virkni í námi. Koma þarf til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda með sértækum úrræðum, til að tryggja þátttöku þeirra í námi, ma. gera þeim kleift að stunda sveigjanlegt nám og eiga möguleika á fjarnámi þegar það á við.

Ályktun um kjaramál

Landsfundur Sjálfsbjargar Landssambands hreyfihamlaðra sem haldinn var 30. apríl 2022, skorar á ríkisvaldið að tryggja fötluðu og langveiku fólki viðunandi, raunhæfa og skerðingarlausa framfærslu með það að markmiði að gera þeim kleyft að framfleyta sér og fjölskyldu sinni og lifa sjálfstæðu lífi til jafns við aðra.

Í skýrslu Kolbeins H. Stefánssonar og Helga E. Eyjólfssonar um brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum sem unnin var fyrir Velferðarvaktina og gefin út í janúar 2022, kemur fram að örorka foreldra þ.e. félagsleg og efnahagsleg staða þeirra sem hafa örorkulífeyri að framfærslu, jók gríðarlega líkur á brotthvarfi barna þeirra úr námi enda er stærsti einstaki hópurinn innan þeirra sem búa við fátækt á Íslandi örorkulífeyrisþegar og þá sérstaklega einstæðir foreldrar á örorkulífeyri. Þessar niðurstöður eru studdar af niðurstöðum fjölda innlendra og erlendra rannsókna.

Af þessum rannsóknum er því ljóst að ekki aðeins standa öryrkjar verr að vígi félagslega og efnahagslega í íslensku samfélagi vegna fátæktar sinnar heldur hefur staðan gríðarleg áhrif til hins verra á framtíðarmöguleika barna þeirra.
Börn fatlaðra og langveikra eiga allt að helmingi minni möguleika á að mennta sig úr fátæktinni og fá því aldrei svipuð tækifæri eða eiga jafna möguleika á við jafnaldra sína.

Við gerum kröfu um hækkun að lágmarki 50.000.- kr þann fyrsta júní 2022 og minnum á 69. gr. almannatryggingalaga en hún hljóðar svo:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs“

Þessi ójöfnuður stangast á við allt sem við teljum okkur standa fyrir í velferðarríki og er engan veginn ásættanlegt.

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra skorar á stjórnvöld að breyta þessu strax.