Sjálfsbjörg í Árnessýslu / á Suðurlandi

Sjálfsbjörg, félag fatlaðra í Árnessýslu var stofnað þann 15. nóvember 1958 í Selfossbíói. Fyrsti formaður félagsins var Steingrímur Ólafsson og var hann formaður fyrstu tvö árin en þá tók Valgerður Hauksdóttir við formennsku. Til að byrja með var starfssvæði félagsins aðallega listamannabærinn Hveragerði, Selfoss og nágrenni en síðar víkkaði starfssvæðið til Árnessýslu og loks til suðurlands alls. Félagið er eitt hinna fimm elstu. Þórður Jóhannsson varð formaður um miðjan sjöunda áratuginn og um svipað leyti fluttist Pálína Snorradóttir frá Ísafirði til Hveragerðis og unnu þau náið saman, en þau voru samkennarar. Til þess var tekið hve nemendur þeirra voru ötulir við merkjasölu fyrir Sjálfsbjörg. Er Þórður lést tók Pálína við formennsku. Hún beitti sér fyrir því að hver formaður í félaginu sæti aðeins sex ár í senn og taldi það góðan sið.

Merkjasalan og sala Sjálfsbjargarblaðsins var jafnan aðalverkefni félagsins auk ferlimálanna. Félagið hélt, líkt og önnur félög, landsþing Sjálfsbjargar (árið 1967) og tók einnig á móti liðlega eitt hundrað Norðmönnum sem sóttu Ísland heim árið 1979 og gistu víðs vegar um Hveragerðisbæ. Félagið hélt seinast landsþing Sjálfsbjargar að Flúðum árið 2004.

Sunnudaginn 19. september 2004 voru stígar Haukadalsskógar gerðir aðgengilegir í fyrsta sinn. Svanur Ingvarsson sem þá var formaður Sjálfsbjargar á Suðurlandi og Hreinn Óskarsson skógarvörður opnuðu stíginn með þeim táknræna hætti að saga sundur trjágrein, sem tákn um að hindrun hefði verið rutt úr vegi. Aðdragandi þessa framtaks var dálítið rómantískur. Svanur og Hreinn, sem var mikill áhugamaður um aðgengismál, bjuggu í sömu götu í Hveragerði og einhverju sinni lýsti Svanur því fyrir honum að hann hefði alltaf langað að komast á hjólastól út í skóg. ,,Það varð neistinn sem kveikti það bál sem logaði allt þar til þetta mál var í höfn,” segir Pálína Snorradóttir sem tók aftur við formennsku félagsins í Árnessýslu af Svani og gegndi því á 50 ára afmælisári Sjálfsbjargar lsf. Pokasjóður styrkti framtakið í Haukadalsskógum myndarlega. Hreinn er nú orðinn forstöðumaður Hekluskóga og er þegar farinn að huga að því að nýta þá miklu þekkingu sem hann aflaði sér á gerð stíganna í Haukadalsskógi. Það var ekki einfalt mál að finna rétta efnið í stígana, efni sem þjappaðist hæfilega, byggja brýr þar sem á þurfti að halda og tengja stíga, en í þennan sjóð mun verða gengið í framhaldi á hliðstæðum verkefnum.

Í Hveragerði hefur Sjálfsbjörg komið því til leiðar að við endurskipulagningu á nefndum bæjarins fengu fulltrúar fatlaðra aðgang að þeirri nefnd sem fór með skipulags-, bygginga- og brunamál og höfðu málfrelsi og tillögurétt í nefndinni.