Ályktanir Landsfundar Sjálfsbjargar 2019.

 

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. haldinn í Reykjavík 4. maí 2019 

 

  1. Ályktun um kjaramál

Landsfundur Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra, haldinn 4. maí 2019 skorar á Alþingi Íslendinga allra að afnema nú þegar krónu á móti krónu skerðinguna og fara að eigin lögum með tilvísan til 69. gr almannatryggingalaga, en að þessu sinni afturvirkt eins og á við um kjör alþingismanna sjálfra.

Nýsamþykktur lífskjarasamingur gildi fyrir alla, þar með talið öryrkja.

 69. gr. 
 Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Að miða skulið við launaþróun en vísitölu sé hún hagstæðari.

Samtökin minna þó á að það er enn ein niðurlægingin í garð öryrkja af hendi stjórnvalda að þurfa ítrekað að bíða eftir sínum kjarabótum, marga mánuði eftir að laun og vísitala hafa hækkað tekjur hjá öðrum hópum samfélagsins auk þess sem að það er viss kjaraskerðing í sjálfu sér.

Landsfundur Sjálfsbjargar hefur áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er, þar sem stjórnvöld setja það sem skilyrði að Öryrkjabandalag Íslands samþykki starfsgetumat til að nýtt fyrirkomulag á örorku- og tengdum greiðslum komist á. Öryrkjabandalag Íslands hefur nú þegar hafnað upptöku starfsgetu mats.

Til að örorkulífeyrisþegar geti bæði bætt sín kjör og eftir atvikum fótað sig aftur á vinnumarkaði, er afnám núverandi framfærslu uppbótar og þar með krónu á móti krónu skerðingu, er lykilatriði í því sambandi.

 

  1. Ályktun um ólögmætar búsetuskerðingar

Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 4. maí 2019 átelur þann óheyrilega tíma sem það tekur að fá botn í ólögmætar búsetuskerðingar á lífeyri. Tryggingastofnun og Velferðarráðuneytið verða setja kraft í það mál og klára undir eins en ekki á mánuðum eða árum eins og gefið hefur verið til kynna.

 

  1. Ályktun um ferðaþjónustu fatlaðra.

Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 4. maí 2019 æskir þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vandi sig þegar kemur að nýju útboði á ferðaþjónustu fatlaðra, bæði þau sem munu standa að sameiginlegu útboði á þjónustu, og ef fleiri sveitarfélög en Hafnarfjöður ætla að kljúfa sig út og reka þjónustuna á eigin vegum.

 

  1. Ályktun um algilda hönnun.

Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 4. maí 2019  telur að búið sé að gefa of mikið eftir í algildri hönnun. Megin inntak algildrar hönnunar var að við hönnun allra mannvirkja sé tekið tillit til þess að hreyfihamlað fólk geti búið þar eða komið þangað sem gestir. Fjölmörg dæmi eru um að svo sé ekki, heldur þarf að ráðast í miklar breytingar á nýjum mannvirkjum og manngerðu umhverfi svo að þær nýtist  hreyfihömluðum.

 

 

Upplýsingar gefur Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar í síma 8628892