BUSL í hellaskoðun

Leifur Leifsson BUSLARI sendi okkur frétt af hellaferð félagsins á dögunum sem tókst með afbrigðum vel:

BUSL-ið (besta unglingastarf Sjálfsbjargar landsambands fatlaðra) brá undir sig betri fætinum, sumir betra hjólinu laugardaginn 25. september  og skellti sér í hellaferð. Með okkur í þessari svaðilför voru nokkrir vel valdir aðilar úr Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Skyndihjálparhópur Rauðakross Íslands ásamt velvöldum hóp sjálfboðaliða. Ferðin hófst  við Hafnarfjarðardeild Rauða Kross Íslands  á Strandgötu klukkan 13:20. Þar hittust Buslarar og sjálfboðaliðar og farið var yfir öll öryggisatriði ferðarinnar. Þaðan var lagt af stað um klukkan 14:00 á miklum bílaflota. Ferðinni var heitið í ónefndan helli rétt fyrir ofan hesthúsin í Hafnarfirði. Hópurinn var sammála um að kalla þennan helli einfaldlega Biggahelli í höfuðið á aðal hellafrömuði hópsins Birgi Frey Birgissyni. Ferðin gekk ótrúlega vel og allir komust heilir uppúr hellinum. Við heimkomuna í Hafnafjörðinn voru  grillaðar pylsur ofan í svanga Buslara og sjálfboðaliða. Þetta var erfið en sigursæl dagsferð og áskorun jafnt fyrir Buslara sem og sjálfboðaliða.  Allt tókst þó vonum framar þar sem allir hjálpuðust að við að láta hlutina ganga upp.

Aðalbjörg Gunnarsdóttir festi reisuna á mynd sem fylgir með.