Starfsemin

Ný norræn upplýsingasíða um notendastýrða persónulega aðstoð

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, opnaði miðvikudaginn 25. ágúst norræna upplýsingasíðu um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fólk með fötlun. Allar Norðurlandaþjóðirnar stóðu saman að verkefninu undir stjórn Íslendinga og er síðan vistuð á vef félags- og tryggingamálaráðuneytisins: http:/ordisk.felagsmalaraduneyti.is. Notendastýrð persónuleg aðstoð felst í því að fólk með sértækar þjónustuþarfir vegna skertrar færni, til dæmis alvarlegrar hreyfihömlunar, stjórnar því sjálft hvers konar stoðþjónustu það nýtur, hvar og hvernig hún er veitt, að hve miklu leyti og af hálfu hvers. Notendastýrð aðstoð getur jafnt farið fram á heimili notanda, vinnustað, sem annars staðar, til dæmis við frístundaiðju eða sem aðstoð við að sækja aðra þjónustu í samfélaginu. Almennt er miðað við að notandinn sé fær um að stjórna þjónustunni sjálfur en þess eru einnig dæmi að aðstandendur eða sérstakir ábyrgðarmenn komi til skjalanna. Hverjum og einum er úthlutað fjármagni til að ráða sér aðstoðarfólk, ýmist á eigin vegum eða með aðstoð opinberra þjónustuaðila eða samtaka fatlaðs fólks. Aðstoðin er háð tilteknum fjárhags- eða tímaramma sem veltur á sameiginlegu mati notanda og þjónustuaðila á þörf fyrir stuðning.