Skattaafsláttur fyrir einstaklinga og fyrirtæki vegna stuðnings við almannaheillastarfsemi

Sjálfsbjörg vekur athygli á því að þeir einstaklingar eða fyrirtæki sem styrkja almennaheillastarfsemi eins og Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra, að lágmarki um tíu þúsund krónur á ári, geta fengið hluta fjárhæðarinnar til baka gegnum endurgreiðslu skatta. Þessi breyting varð með nýjum lögum um skattalega hvata til almannaheillastarfsemi sem samþykkt voru 1. nóvember á síðasta ári.

Lögin fela í sér nýja heimild fyrir einstaklinga til að draga allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum vegna framlaga til Sjálfsbjargar eða annarrar almannaheillastarfsemi. Fyrir hjón er sú upphæð 700.000 krónur.
Auk þess er kveðið á um tvöföldun á hlutfalli sem atvinnurekstraraðilar mega draga frá skattskyldum tekjum vegna slíkra framlaga og fer það úr 0,75% í 1,5%. Þetta gefur fyrirtækjum tækifæri á að taka þátt í starfi Sjálfsbjargar og njóta skattaafsláttar á sama tíma.

Nú er einstakt tækifæri til að styrkja okkar góða starf og láta gott af sér leiða. Við hvetjum sem flesta til þess að skrá sig sem Hollvini eða styrkja með einstöku framlagi með því að smella hér og byrja að nýta sér skattaafsláttinn til góðra verka. Sjálfsbjörg sendir Skattinum í kjölfarið nauðsynlegar upplýsingar um gjafir og/eða framlög á hverju almanaksári.

Frekari upplýsingar um almannaheillaskrá og önnur hagnýt atriði er að finna á vef Skattsins.