Sjálfstætt líf – Frelsi fyrir fatlað fólk

Samtök um sjálfstætt líf, SSL, (e. Independent Living movement) voru stofnuð hér á landi á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2009 af hópi fatlaðs fólks, en Sjálfsbjörg, ÖBÍ og Þroskahjálp hafa stutt við framtakið ásamt starfsfólki í fötlunarfræðinni við Háskóla Íslands. Stofnfundurinn var haldinn á Hótel Borg við Austurvöll þar sem samþykkt voru lög félagsins og kosin stjórn. Að stofnfundi loknum var heilsað upp á afmælisbarnið Jón Sigurðsson; styttuna á Austurvelli.

 

Markmið félagsins er að valdefla og styðja fatlaða einstaklinga samkvæmt hugmyndafræði um sjálfstætt líf, efla lífsgæði fatlaðs fólks, vinna að rétt einstaklingsins til að hafa stjórn á eigin lífi er aðrir samfélagsþegnar taka sem gefnu. Félagið á að gæta rétt einstaklingsins til fullrar þátttöku og jafnræðis í samfélaginu, að hafa stjórn á eigin aðstoð og þar með sínu lífi. Félagið er hluti af hinni alþjóðlegu Independent Living hreyfingu, alþjóðlegri borgarahreyfingu fólks með fötlun.

 

Upphafið má rekja til réttindabaráttu fatlaðs fólks í Kaliforníu háskóla í Berkeley í Bandaríkjunum, sem á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar barðist fyrir því að lifa sjálfstæðu lífi og fá þá þjónustu/aðstoð sem til þess þyrfti. Gagnrýnin beindist að því hversu mikil völd heilbrigðisstarfsfólk hafði yfir daglegu lífi fatlaðs fólks. Það mótmælti þessu með þeim rökum að fatlað fólk væri ekki sjúkt og þyrfti ekki á umönnun heilbrigðisstarfsfólks að halda. Baráttan hafði áhrif, og ákveðið var að setja upp nýtt fyrirkomulag á aðstoð við fatlaða stúdenta á háskólasvæðinu sem fólst í því að nemendurnir skilgreindu sjálfir þarfir sínar, hversu mikla og hvers konar aðstoð þeir þyrftu á að halda og hvenær og hverjir veittu aðstoðina. Þátttaka þeirra í háskólalífinu jókst og frammistaða þeirra í námi var mun betri.

 

Hugmyndafræði um Sjálfstætt líf fór að breiðast út til annarra landa og hafa samskonar samtök verið stofnuð víða um heim. Í Svíþjóð var haldið upp á 25 ára afmæli samtaka um sjálfstætt líf í nóvember á síðasta ári. Hægt er að nálgast upplýsingar á ensku á www.independentliving.org. Það var orðið löngu tímabært að fatlaðir Íslendingar tækju málin í sínar hendur og vinni að raunverulegu sjálfstæði og fullveldi yfir sínu eigin lífi. Loksins erum við að komast á kortið! Í tilefni af stofnun SSL var félags- og tryggingamálaráðherra, Árna Páli Árnasyni, færð gjöf (torf á silfurbakka) ásamt bréfi þann 19. júní sl. til þess að vekja athygli ráðuneytisins á: AÐ HLUSTA Á GRASRÓTINA!

 

 

 

 

Frelsisaksturinn 2009 – Kröfur

 

Þann 16. september 2009 hittust yfir 400 frelsisökumenn frá meira en 20 löndum og fóru að húsi Evrópuþingsins í Strassborg í Frakklandi. Þangað komu þeir ýmist gangandi, akandi, leiddir af aðstoðarmönnum eða hjálparhundum. Þó að fólk glími við mismunandi fötlun á það sér sameiginlegt markmið: Sjálfstætt líf.

 

Hópurinn afhenti forseta Evrópuþingsins eftirfarandi kröfur:

 

1. Við skorum á Evrópusamfélagið að tryggja að sjálfstætt líf verði þungamiðjan í stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks hjá Evrópusambandinu, eins og tjáð er í áætlun ESB fyrir fólk með fötlun, aðgerðaáætlun fyrir fólk með fötlun og í 19.

 

grein sáttmála S.Þ. um réttindi fólks með fötlun.

 

2. Við hvetjum Evrópusamfélagið til að halda áfram að aðstoða við þróun á samfélagslegri þjónustu til að ná að afstofnanavæða alla Evrópu.

 

3. Við köllum eftir því að það verði litið á það sem okkar mannréttindi að fá persónulega aðstoð, til að tryggja að við njótum okkar sjálfstæða lífs til fulls.

 

4. Við köllum eftir tækifæri til þess að njóta til jafns við aðra frelsis til að fara um með aðstoð persónulegrar aðstoðar.

 

5. Við köllum eftir því að ESB eyrnamerki 5% af þróunaraðstoð sinni til stuðnings við áætlanir til sjálfstæðs lífs í þróunarlöndum.

 

6. Við skorum á Evrópusamfélagið að fullgilda með öllu sáttmála S.Þ. um réttindi fólks með fötlun, að skrifa undir og fullgilda viðauka við þann sáttmála og að greinar hans verði samtvinnaðar lögum og stefnumótun ESB. Samhliða þessu viljum við að aðildarríki verði beitt þrýsingi af stofnunum og fulltrúum ESB til að fullgilda sáttmálan í lög í hverju landi fyrir sig, eins fljótt og auðið er.

 

7. Við köllum eftir sérstakri tilskipun til að viðhalda og verja réttindi fatlaðs fólks um alla Evrópu.

 

8. Fatlað fólk og samtök okkar þurfa að koma að allri stefnumótunarvinnu á öllum stigum mála, hvort sem um er að ræða hugmyndafræði, undirbúning eða framkvæmd.

 

Ekkert um okkur, án okkar