Ályktanir Sambandsstjórnarfundar 15. október 2011

Sambandsstjórn Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra ályktaði eftirfarandi á fundi sínum er haldinn var 15. október 2011:

Mannsæmandi lífeyrislaun

Í fjárlagafrumvarpi 2012 ber fjármálaráðherra sér á brjóst og talar um að bætur almannatrygginga hækki mjög mikið á árinu 2011, þrátt fyrir þá einföldu staðreynd að hækkun „bótanna“ er einungis í samræmi við hækkun launa í kjarasamningum frá því fyrr á árinu.  Fljótt á litið virðast örorkulaun eiga að hækka í samræmi við hækkun samkvæmt kjarasamningum á næsta ári.  Þegar betur er að gáð er þó gert ráð fyrir að spara 200 milljónir króna „með því að breyta forsendum fyrir útreikningi á aldurstengdri örorkuuppbót“ eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Sjálfsbjörg hefur bent á, síðast í ályktun frá því í apríl sl. að gera þurfi stórátak í hækkun örorkulauna.  Var þar ma. vísað í yfirlýsingar velferðarráðherra um að „algerlega óhjákvæmilegt væri að hækka bæturnar“.   Vísað er í mat Öryrkjabandalags Íslands um að ástandið sé skelfilegt hjá alltof stórum hópi öryrkja.  Sjálfsbjörg leggur áherslu á að ekki einungis sé mikilvægt að hækka örorkulaunin heldur að full viðurkenning fáist á þeim aukakostnaði sem fólk með hreyfihömlun og öryrkjar almennt verða fyrir, svo sem hjálpartækja- og lyfjakostnaði.

Velferðarráðherra gaf út skýrslu um neysluviðmið fyrir íslensk heimili í febrúar 2011.  Yfirlýsing ráðherra þar kallar nú á aðgerðir af hans hálfu en þar segir ráðherra  að sú skylda hvíli á okkur að nálgast eðlileg grunnviðmið, viðmið sem tryggja fólki sómasamlega framfærslu.

Aldraðir og öryrkjar voru látnir taka á sig miklar byrðar eftir hrunið 2008.  Það er skýlaus krafa Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra að nú þegar landið fer að rísa þá verði öldruðum og öryrkjum þessa lands greidd mannsæmandi lífeyrislaun.

 Ályktun

um Landspítala við Hringbraut

Sambandsstjórn Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra ályktaði eftirfarandi á fundi sínum er haldinn var 15. október 2011:

Á fundinum var fjallað um fyrirhugaða nýbyggingu Landspítala við Hringbraut.

Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra tekur heils hugar undir athugasemdir og ábendingar Hollvina Grensásdeildar, annars vegar er lúta að því að sjúkrahús eru til þess að sinna sjúklingum og hins vegar að mikilvægt sé að skoða alla möguleika vandlega er varða uppbyggingu spítalans þannig að fyllstu hagkvæmni verði gætt.

Gott aðgengi skiptir sjúklinga spítalans,aðstandendur og starfsmenn afar miklu máli. Ekki fæst séð að hönnun bygginganna taki mið af þessum sjónarmiðum.  Um er að ræða margar byggingar dreifðar yfir stórt svæði.  Fullyrða má að bygging sem reist yrði meira á hæðina mundi henta mun betur í þessu tilliti.

Þjóðarbúið býr við mikinn fjárhagsvanda.  Mikill niðurskurður hefur orðið í heilbrigðisþjónustu um land allt og ekki sér fyrir endann þar á.  Við undirbúning nýs spítala er spurt hvort marghæða bygginga/-ar hafi verið einn af valkostunum.   Er nauðsyn áður en lengra er haldið að fram komi hver kostnaðurinn við slíkan valkost er.  Gera má ráð fyrir að hann sé örugglega mun lægri en sú upphæð sem nú á að leggja í áætlaðar framkvæmdir.  Mismuninn mætti nýta til að draga úr frekari niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og mæta brýnustu þörfum þess í dag og á næstu árum.