Gott aðgengi í ferðaþjónustu - málstofa

Gott aðgengi í ferðaþjónustu er samvinnuverkefni Sjálfsbjargar, ÖBÍ, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Ferðamálastofu.

Fimmtudaginn 27. október 2023 héldu Ferðamálastofa, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ÖBÍ og Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra málstofu um nýtt samvinnuverkefni þeirra Gott aðgengi í ferðaþjónustu. Verkefnið er ætlað að hvetja til betra aðgengis á ferðamannastöðum og auka upplýsingagjöf um aðgengi. Málstofan var send út í beinu streymi.

Þá ávarpaði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, málstofuna. Jóhann Viðar Ívarsson, greinandi hjá Ferðamálastofu fjallaði um aðgengismál sem viðskiptatækifæri. Fatlað fólk og eldra fólk er stór hópur sem hefur mikinn áhuga á að ferðast meira, því eru mikil efnahagsleg tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki fólgin í að bæta aðgengi. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, hvatti ferðaþjónustufyrirtæki til að bæta aðgengi. Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar, talaði um mikilvægi þess að upplýsingar um aðgengi væru aðgengilegar, skýrar og réttar.

20221027_154654rett

Harpa Cilia Ingólfsdóttir, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Áslaug Briem, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu, kynntu svo verkefnið Gott aðgengi í ferðaþjónustu. Gististaðir, veitingastaðir, bað- og sundstaðir, ráðstefnusalir og söfn geta tekið þátt með sjálfsmati. Þeir sem uppfylla kröfurnar geta auðkennt sig með merki verkefnisins sem og merktir sem aðgengilegir í gagnagrunni Ferðamálastofu. Loks kynnti Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, smáforritið TravAble og Römpum upp Ísland.

20221027_161629rett

Allar nánari upplýsingar um verkefnið Gott aðgengi í ferðaþjónustu má finna á heimasíðu Ferðamálastofu hér.