Nafni Sjálfsbjargar breytt

Á fjölmennum landsfundi Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra var einróma samþykkt að breyta nafni samtakanna í Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra. Er landsambandið var stofnað 1959 var hugtakið fatlaður nánast einvörðungu notað fyrir fólk með sýnilega fötlun sem þá var nær alfarið hreyfihömlun. Með árunum breyttist notkun þess að varð með tímanum samheiti fyrir alla fötlun. Sjálfsbjörg  hefur þó alla tíð verið fyrst og fremst verið málefna- og baráttusamtök hreyfihamlaðs fólks, þó aðildarfélög samtakanna hafi ekki takmarkað félagsaðildina endilega bara við hreyfihamlað fólk. Þessu til áréttingar hefur lengi verið í lögum samtakanna að í stjórn landssamtakanna geti einvörðungu setið hreyfihamlað fólk en flest aðildarfélögin eru ekki með þessa takmörkun í sínum félögum. Nú fannst Sjálfsbjargarfélögum kominn tími til að skerpa á því fyrir hverja samtökin starfa og því varð úr að tillaga um breytingu á nafninu var loksins samþykkt á landsfundinum en umræða um þetta mál hefur verið í mörg ár.

Nýja heitið segir greinilega fyrir hverja samtökin starfa fyrir og málefna- og baráttuvinnan ætti þar með að verða hnitmiðaðri. Fyrst og fremst mun þetta verða barátta fyrir auknu aðgengi hreyfihamlaðra á öllum sviðum, þ.e. byggingarlega, landlega, menntunarlega, atvinnulega og réttindalega. Sjálfsbjörg eru síðan virk samtök innan Öryrkjabandalags Íslands, sem eru regnhlífasamtök hinna ýmsu félagasamtaka fatlaðs fólk. Sjálfsbjargarfélagar fóru af landsfundi bjartsýn á að nafnabreytingin muni hjálpa samtökunum við málefna- og baráttustarfið fyrir auknum réttindum félaga þeirra.