Nýr framkvæmdastjóri kominn til starfa.

Ósk Sigurðardóttir hefur tekið til starfa sem nýr framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar Landssambands.

Ósk hefur m.a. starfað sem verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra Landspítala, sem formaður iðjuþjálfafélags Íslands og starfað við verkefnastjórnun í hugbúnaðarþróun.

Ósk er menntaður iðjuþjálfi frá Danmörku, er með MPM meistaragráðu í verkefnastjórnun og framhaldsnám í straumlínustjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur einnig lokið Postgraduate gráðu í nýsköpun og stefnumótun frá Oxford Háskóla og leggur nú lokahönd á MBA gráðu.

Ósk kennir nýsköpun við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og er samfélagslegur frumkvöðull, eigandi og stofnandi TravAble sem veitir fólki með hreyfihömlun upplýsingar um aðgengi að byggingum og þjónustu.

„Það er afar ánægjulegt að fá Ósk til starfa. Hún hefur víðtæka reynslu sem ég er sannfærður um að muni nýtast samtökunum til að takast á við breytta tíma og nýjar áskoranir. Ég vil bjóða Ósk innilega velkomna til liðs við Sjálfsbjörg landssamband,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar.

„Jafnframt vil ég nota tækifærið til að þakka Þórdísi Rún Þórisdóttur fyrir hennar störf sem verið hefur framkvæmdastjóri tímabundið jafnframt því að hafa verið framkvæmdastjóri Sjálfsbjargarheimilisins”

Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra samanstendur af 12 Sjálfsbjargarfélögum sem eru dreifð um landið. Hlutverk Sjálfsbjargar er að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðs fólks á Íslandi og eftir atvikum annarra fatlaðra og gæta réttinda og hagsmuna þess.

Sérstaklega skal unnið að því að tryggja hreyfihömluðum félagsmönnum sem öðrum aðgengi að mannvirkjum, umhverfi, menntun, atvinnu og upplýsingum. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós í vinnu Sjálfsbjargar. Sjálfsbjörg á og rekur húsnæði landssambandsins í Hátúni 12, þar er rekstur Sjálfsbjargarheimilisins, sem annast hjúkrun og endurhæfingu fyrir hreyfihamlaða.