Sjálfsbjörg í Reykjavík/á höfuðborgarsvæðinu - Sagan

Sjálfsbjörg, félag fatlaðra í Reykjavík var stofnað þann 27. júní 1958 í Skátaheimilinu sem þá var við Snorrabraut. Aðalhvatamenn að stofnun félagsins voru Sigursveinn D. Kristinsson og Gunnar Jóhannsson frá Varmalæk. Framhaldsstofnfundur var haldinn skömmu síðar, þann 10. júlí í Sjómannaskólanum. Stofnfélagar voru um eitt hundrað talsins, en þeir töldust stofnfélagar sem skráðu sig í félagið fyrir áramót. Fyrsti formaður félagsins var Sigursveinn D. Kristinsson, en Helgi Eggertsson tók við af honum. Þá var Sigurður Guðmundsson formaður um árabil. Um markmið félagsins segir meðal annars í samþykkt fyrsta fundarins:
,,Að verkefni félagsins skuli vera að vinna að samhjálp hinna fötluðu, auknum réttindum þeirra og bættri aðstöðu í þjóðfélaginu.”

Hlaðgerður Snæbjörnsdóttir rifjaði upp minningar sínar frá framhaldsstofnfundinum í Sjómannaskólanum í tilefni af 50 ára afmæli félagsins árið 2008 og segir meðal annars frá því á lifandi hátt hversu lítið var vitað um fatlað fólk á þessum tíma. Það hafði hreinlega verið í felum í samfélaginu, á sjúkrahúsum, elliheimilum, fast inni á heimilum sínum. Allt í einu gerðu þeir sér grein fyrir því að þeir voru ekki einir á báti. Ókunnugleikinn vegna fötlunar annarra var líka sláandi:
,,Maður þorðu nú ekki að fara nema að hafa einhvern með sér,“ og það gerðu fleiri. Ég man að ég leit í kringum mig og hugsaði: ,,Hvert er ég nú eiginlega komin. Mér fannst skelfilegt að sjá þetta. Á móti mér sat kona sem var með svo hræðilega kippi í andlitinu. Mér fannst ég hreinlega ekki eiga heima þarna. Ég þekkti ekki margt fatlað fólk á þessum tíma og þess vegna brá mér svo þegar ég mætti á þennan fund og sá allt þetta fólk.”

Fyrsta starfsárið voru haldnir skemmtifundir og voru þeir mjög vel sóttir, um 70-120 manns mættu á hvern fund. Upphaflega voru þeir haldnir mánaðarlega en fljótlega þurfti að fjölga fundum og voru þeir lengst af haldnir hálfsmánaðarlega. Fjáröflun tók líka drjúgan tíma frá upphafi og var helmingur ágóða af merkjasölu lagður í húsbyggingarsjóð.


Uppbyggingin fyrstu árin var hröð. Árið 1962 keypti félagið kjallaraíbúð að Marargötu 2 þar sem starfsemin fór fram um nokkurra ára skeið.
Eftir að Sjálfsbjargarhúsið í Hátúni 12 var tekið í notkun færðist starfsemi félagsins þangað, nánar tiltekið árið 1974. Nafni félagsins var síðar breytt í Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu og nær starfssvæði þess yfir Reykjavík, Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog, Seltjarnarnes og Mosfellsbæ.

Félagsstarfsemin hefur oftast verið með blóma og er enn öflug. Félagið heldur regluleg spilakvöld, baráttufundi, þorrablót og opið hús. Tímaritið Sjálfsbjargarfréttir hefur í gegnum árin komið út nær árlega. Fjölmargar nefndir hafa verið starfandi í gegnum árin svo sem Krikanefnd sem sér um sumarhús félagsins við Elliðavatn, ferðanefnd, skemmtinefnd, átakshópur, ferlinefndir á höfuðborgarsvæðinu og fjölmargar aðrar nefndir. Nefndunum hefur þó fækkað með árunum sem hafa liðið sem og þörfin fyrir hefðbundið félagsstarf.

Sumarhúsið Kriki við Elliðavatn hefur verið rekið af félaginu frá 1998. Aðdragandi þess að félagið eignaðist sumarhús var að sumarið 1994 vaknaði sú hugmynd að koma upp útivistarsvæði fyrir fatlaða í grennd við Reykjavík, þar sem hreyfihamlaðir gætu notið útiveru. Magnús Hjaltested bóndi á Vatnsenda við Elliðavatn bauð þá afnot af landi við Vatnsenda og Reykjavíkurborg gaf lítið sumarhús á lóðina. Sífellt er verið að endurbæta húsnæðið og er góð mæting þar flesta daga sumarsins.

Markmið félagsins samkvæmt lögum þess er að ,,vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra, á öllum sviðum þjóðlífsins. Að hafa áhrif á ríkis- og sveitarstjórnir. Að hafa áhrif á hagsmunasamtök og einstaklinga til dæmis með útgáfu á kynningarefni um málefni fatlaðs fólks. Að efla félagslíf fatlaðs fólks.”
Ljóst er að Sjálfsbjörg þjónar margháttuðu hlutverki í samfélaginu eins og ummæli Sjálfsbjargarfélaga bera vott um. ,,Það skiptir miklu máli að átta sig á því að maður situr ekki einn í ,,súpunni”. Í Sjálfsbjörg var fólk sem skildi mann betur” segir Guðmundur Magnússon fyrrverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), sem slasaðist árið 1976 og bætir við: ,,Sjálfsbjörg er einnig mikilvægt sem baráttutæki.” og Guðríður Ólafsdóttir fyrrverandi formaður landssambandsins segir að félagið hafi haft áhrif á starfsval hennar: ,,Sjálfsbjörg varð til þess að ég valdi mér lífsstarf á félagslega sviðinu. Félagar og félagið hefur veitt mér margar ánægjustundir í lífinu.”

Á fjörutíu ára afmæli félagsins árið 1998 var haldin mikil sýning í máli og myndum um sögu félagsins. Hún var tekin með til Siglufjarðar sem hýsti þing Sjálfsbjargar, landssambandsins, það árið og þótti fróðlegt að skoða hana.
Nánari upplýsingar um sögu Sjálfsbjargar félags hreyfihamlaðra á höfuðborgarsvæðinu má finna á heimasíðu félagsins hbs.sjalfsbjorg.is

Sjálfsbjargarfélagar í Reykjavík á tíu ára afmælinu 1968