Sjálfsbjörg til samstarfs við sveitarfélög á Suðurlandi

Mikill áhugi kom fram hjá fulltrúum sveitarfélaga á Suðurlandi á hugfarflugsfundi liðlega 80 fulltrúa vítt og breytt af svæðinu sl. föstudag um að eiga gott samstarf við hagsmunasamtökin Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra og Þroskahjálp til að gera tilflutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem bestan úr garði. Tryggja að þjónusta við fatlaða yrði  sem allra best a.m.k. ekki lakari en hún er í dag, þrátt fyrir mikinn niðurskurð  fjármuna í málaflokknum. Á fundinum voru fulltrúar starfsmanna allra sveitarfélaganna á svæðinu sem munu koma að málefnum fatlaðra í framtíðinni.

Á hugarflugsfundinum fluttu inngangserindi Svanur Ingvarsson formaður Sjálfsbjargar á Suðurlandi, Rannveig Traustadóttir prófessor í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og Sighvatur Blöndahl ráðgjafi hjá Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra. Í máli þeirra var samhljómur um að vernda hagsmuni fatlaðra við yfirfærsluna. Tóku fundarmenn allir sem einn undir þau sjónarmið.

Eftir erindin var fundarmönnum skipt í hópa þar sem málefni yfirfærslunnar voru til umræðu. Hópunum var falið að fara yfir helstu kosti og galla. Mikill samhljómur var í þeirra niðurstöðum. Allir nefndu of lítið fjármagn sem mesta ókostinn við yfirfærsluna á þessum tímapunkti. Allir sáu kosti og mikla möguleika á því að bæta þjónustuna í framtíðinni. Víðtækari og breiðari þekking myndi koma til með fleiri sjónarhornum. Boðleiðir yrðu skýrari og auðveldara yrði fyrir fólk að leita eftir þjónustu þar sem það þyrfti ekki að fara á milli fjölmargra stofnana, heldur leita til eins aðila. Ólíkt því sem er í dag.

Við munum segja nánar frá fundinum.