Sjálfsbjörg á Siglufirði

Sjálfsbjargarfélagið á Siglufirði er elsta félag Sjálfsbjargar á Íslandi. Það var stofnað 9. júní 1958 og hefur verið við lýði óslitið síðan þá.  Fjórtán manns voru mætt að Gránugötu 14 á Siglufirði þetta mánudagskvöld ,,til þess að ræða möguleika á stofnun félags lamaðra og fatlaðra í Siglufirði,“ eins og greinir frá í fyrstu fundargerð félagsins. Forgöngumaður um málið var Sigursveinn D. Kristinsson tónskáld. Fjórtánmenningarnir stofnuðu félagið þetta kvöld, enda var til þess tekið að mikill áhugi væri innan hópsins að stofna félag sem hefði svo mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta. Fyrsti formaður félagsins var Valey Jónasdóttir. Fyrsta starfsárið voru haldin spilakvöld, vinnufundir, bazar og einn dansleikur var fyrsta árið.

,,Við fundum strax mikinn velvilja og hlýhug streyma til samtakanna okkar hér, og margir gengu snemma í félagið, sem styrktarmeðlimir” segir í skýrslu stjórnarinnar til landssambandsins eftir fyrsta starfsárið.

Félagið efndi til skemmtiferðar sumarið 1959 og er það ein fyrsta af fjölmörgum ferðum Sjálfsbjargar sem fleiri en eitt félag tók þátt í, en miðja vegu hitti hópurinn, sjötíu manna hóp frá Akureyrarfélaginu. Leiðin lá um Skagafjörð og þótti sérlega vel heppnuð.