Þúsundasti rampurinn vígður!

Það var skemmtilegur viðburður þegar þúsundasta, já þúsundasta rampinum, var fagnað á heimili Haraldar Þorleifssonar sl. mánudag þann 27 nóvember. Forseti vor, Guðni Th Jóhannesson heiðraði samkomuna með nærveru sinni ásamt forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur, innviðaráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni og borgarstjóra Reykjavíkur Degi B Eggertssyni, sem öll komu og tóku þátt í gleðinni.
Hópur barna úr Hinu húsinu voru meðal gesta og sýndu gestum myndband sem þau höfðu útbúið í tilefni dagsins en þúsundasti rampurinn var einmitt settur upp hjá þeim og hélt eitt þeirra ræðu af þessu góða tilefni og sagði frá upplifun og ánægju þeirra af þessu frábæra verkefni sem "Römpum upp Ísland" sannarlega er.

Feðgarnir Þorleifur Gunnlaugsson og Haraldur Þorleifsson ásamt góðum hópi

Haraldur og Dagur undirrituðu síðan samkomulag þar sem borgin skuldbindur sig til frekari aðgengisverkefna innanhúss í eldra húsnæði borgarinnar. Þuríður Harpa, stjórnarmaður rampaverkefnisins stjórnaði samkomunni af röggsemi, gestir fluttu þakkarræður og hvöttu til áframhaldandi stuðnings verkefnisins sem ljóst er að gengur talsvert betur en nokkur átti von á en verkefnið er c.a. einu og hálfu ári á undan upprunalega settum tímaramma.

Borgarstjóri Reykjavíkur sagði einnig frá viðræðum sínum um verkefnið við aðra borgarstjóra innan Evrópu og nefndi þar m.a. París, Stokkhólm og Kiew en það er ljóst að þessi alda sem hófst fyrir örstuttu í Reykjavík hefur nú borist út í hinn stóra heim og vekur þar verðskuldaða athygli. Landssambandið á sinn fulltrúa í stjórn Römpum upp Ísland en það er formaðurinn okkar, hún Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir sem átti því miður ekki heimangengt að þessu sinni, í hennar stað mætti varaformaður sambandsins Rúnar Þór Björnsson ásamt starfsmanni sambandsins Ástu þórdísi Skjalddal og skrifstofustjóranum Sigríði Agnesi Sigurðardóttur.

Það er einlæg von okkar að samstaða verði framvegis um að aðgengismál séu ekki einkamál fatlaðs fólks eingöngu heldur sé um að ræða samfélagsmálefni sem varði alla.

Haraldur Þorleifsson, athafnamaður, og Rúnar Þór Björnsson, varaformaður Sjálfsbjargar lsh
Fríður hópur var mættur til þess að fagna opnuninni