Ályktanir

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh., haldinn í Reykjavík 21. apríl 2018 samþykkti eftirfarandi ályktanir

 1. Ályktun um ferðaþjónustu fatlaðra
  Frá því nýtt fyrirkomulag í ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu var tekið upp hefur ríkt vantraust af hálfu farþega til ferðaþjónustu fatlaðra. Fyrir lok árs 2018 þurfa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að sýna fram á leiðir til úrbóta sem beðið hefur verið eftir við skipulag og þjónustu ferðaþjónustu fatlaðra. Afar mikilvægt er að sveitarfélögin svari fötluðu fólki og samtökum þeirra þessari spurningu sem allra fyrst
  Samkvæmt áliti umboðsmanns alþingis, liggur það fyrir að öll sveitarfélög þurfa að veita sínum hreyfihömluðu íbúum ferðaþjónustu, líka í hinum dreifðari byggðum.

  Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 21. apríl 2018 skorar á þau sveitarfélög sem ekki eru að veita ferðaþjónustu nú þegar fyrir fatlað fólk að einhenda sér í veita hana, sé eftir henni óskað, enda er hún lögbundin.
 2. Ályktun um kjaramál fatlaðra.
  Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 21. apríl 2018 skorar á ríkisstjórn Íslands að tryggja fötluðu fólki í landinu full mannréttindi. Króna á móti krónu skerðing viðgengst ennþá hjá þeim sem eru á örorkulífeyri. Þá skerðingu ber að afnema nú þegar. Koma þarf í veg fyrir að örorka sé ávísun á fátækt.
  Samtökin krefjast þess að ríkisstjórnin, sveitarfélögin og atvinnulífið tryggi framboð á hlutastörfum nú þegar eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar.

  Nýtt kerfi  utanum örorkulífeyri og hugsanlegt starfsgetumat verður aldrei skiptimynt fyrir bætt kjör.
  Landsfundurinn krefst þess að farið verði í þær viðræður sem boðaðar hafa verið við forsvarsmenn öryrkja, enn hafa ekki formlega farið af stað ennþá.
 3. Ályktun um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
  Landsfundur Sjálfsbjargar harmar að ekki eigi að fullgilda Viðauka við samninginn en hann gerir ráð fyrir kvörtunarleið til Sameinuðu þjóðanna sem er nauðsynleg hreyfihömluðu fólki.  Sú skýring stjórnvalda að viðaukinn hafi ekki verið fullgiltur vegna þess að hann inniberi valdaframsal er vafasöm, m.a. í ljósi þess að ályktun Alþingis gerði ráð fyrir að viðaukann ætti að fullgilda fyrir árslok 2017.

Landsfundur Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra, haldinn í Reykjavík 6. maí 2017 samþykkti eftirfarandi ályktanir:

 1. Ályktun um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
  Landsfundur Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra haldinn í Reykjavík þann 6. maí 2017 skorar á ríkisstjórn Íslands að lögfesta nú þegar samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Alþingi hefur nú loksins fullgilt samninginn, en hann var upphaflega undirritaður af fulltrúum íslenska ríkisins þann 30. mars 2007.
  Yfir 160 ríki heims eiga nú aðild að þessum mikilvæga samningi. Fundurinn krefst lögfestingar samningsins áður en væntanlegt starfsgetumat verður sett á til að tryggja að slíkt mat vinni fyrir okkur en ekki gegn okkur.
 2. Ályktun um kjaramál fatlaðra.
  Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 6. maí 2017 skorar á ríkisstjórn Íslands að tryggja fötluðu fólki í landinu full mannréttindi. Örorkulífeyrir endurspegli raunframfærslu á hverjum tíma og persónuafsláttur uppfærist samkvæmt launavísitölu frá 1988 til dagsins í dag. Frumskógur almannatryggingakerfisins verði grisjaður, kerfið einfaldað og skerðingar lífeyris afnumdar.
  Samtökin krefjumst þess að ríkisstjórnin, sveitarfélög og atvinnulífið tryggi framboð á hlutastörfum nú þegar.
  Fátækt ætti ALDREI að fyrirfinnast í okkar samfélagi.
 3. Ályktun um Notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)
  Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 6. maí 2017 fer fram á að NPA verði lögfest STRAX.
 4. Ályktun um húsnæðismál.
  Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband hreyfihamlaðra haldinn 6. maí 2017 treystir því að ríki og sveitarfélög leysi nú þegar úr brýnum húsnæðisvanda hreyfihamlaðs fólks. Samtökin eru reiðubúin til að leggja fram reynslu sína og þekkingu við lausn þessa vanda.

Landsfundur Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra, haldið í Reykjavík 1. október 2016 samþykkti eftirfarandi ályktanir:

 1. Ályktun um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
  Landsfundur Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra haldinn í Reykjavík þann 1. október 2016 fagnar því að Alþingi Íslendinga hafi nú loksins fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en samningurinn var upphaflega undirritaður af fulltrúum íslenska ríkisins þann 30. mars 2007. Yfir 160 ríki heims eiga nú aðild að þessum mikilvæga samningi og skorar landsfundur Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra á komandi ríkisstjórn að lögfesta samninginn strax á fyrsta löggjafarþingi Alþingis eftir komandi kosningar. Þá skorar Sjálfsbjörg einnig á Alþingi að hraða fullgildingu valfrjálsa viðaukans við samninginn.
 2. Ályktun um kjaramál fatlaðra.
  Landsfundur Sjálfsbjargar landssamband fatlaðra hreyfihamlaðra haldinn 1. október 2016 skorar á komandi ríkisstjórn að tryggja fötluðu fólki í landinu full mannréttindi, að örorkulífeyrir verði aldrei lægri en framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins, að frumskógur almannatryggingarkerfisins verði grisjaður og kerfið einfaldað og dregið verði úr öllum skerðingum lífeyris. Þá skorum við á komandi ríkisstjórn að búa til hvetjandi kerfi svo fyrirtæki sjái sér hag í að bjóða uppá hlutastörf og að ríkisvaldið og sveitarstjórnir sýni strax gott fordæmi um slíkt í eigin rekstri.


37. þing Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra, haldið í Reykjavík 23.-25. maí 2014, sendi frá sér eftirfarandi ályktanir um helstu baráttumál samtakanna

 1. Ályktun frá 37. þingi Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra um aðgengi og algilda hönnun
  Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hugtakið „algild hönnun“ skýrt á eftirfarandi hátt:
  Algild hönnun merkir hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun.
  Samning sameinuðu þjóðanna staðfestu íslensk stjórnvöld með undirritun 30. mars 2007. Á árinu 2010 voru sett ný lög hér á landi um mannvirki, nr. 160/2010. Í þeim segir með skýrum hætti að eitt af markmiðum laganna sé að tryggja aðgengi fyrir alla. Í framhaldi af setningu mannvirkjalaga var sett ný byggingarreglugerð nr. 112/2012.
  Mikill þrýstingur hefur verið á stjórnvöld frá ýmsum hagsmunaaðilum byggingariðnaðarins, m.a. um að dregið verði úr aðgengiskröfum, og voru fljótlega gerðar tvær breytingar á byggingareglugerðinni og sú þriðja í mars 2014. Sjálfsbjörg lsf. hefur hafnað öllum breytingum sem taka algilda hönnun úr sambandi og þó langt hafi verið seilst til að ná sáttum í síðustu breytingu stendur algild hönnun eftir óhögguð. Opnað hefur verið á að hægt sé að byggja enn minni íbúðir en eldri reglur gerðu ráð fyrir. Ekki var þó opnað á heimilt væri að byggja einungis ákveðið hlutfall af aðgengilegum íbúðum t.d. í hverri blokk eins og hugmyndir voru uppi um á ákveðnu stigi. Varðandi umræður borgaryfirvalda og annarra aðila um bráðavanda í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu fæst ekki séð að hægt sé að kenna algildri hönnun þar um.
  37 þing Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra haldið í Reykjavík 23.-25. maí 2014 fagnar þeim árangri sem náðst hefur um algilda hönnun og aðgengi í byggingarlögum og reglugerð, eftir áralanga baráttu Sjálfsbjargar lsf. í aðgengismálum.
  Gott aðgengi skiptir alla máli en okkur öllu máli!
 2. Ályktun frá 37. þingi Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra um yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga
  37 þing Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra haldið dagana 23. til 25. maí 2014 telur nauðsynlegt að efla sveitarfélögin í landinu til að þau verði öll nægjanlega burðug til að veita fötluðum íbúum þá nærþjónustu sem þeim ber að veita samkvæmt lögum.

  1. Endurskoðuð stefnumótun ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum þarf að liggja fyrir, tímasett og kostnaðargreind.
  2. SIS mat er ekki rétta matstækið til að meta raunverulega þjónustuþörf hreyfihamlaðra þar sem það veldur skerðingu á fjárframlögum ríkis til sveitarfélaga.
  3. Fjármunir og fagleg þekking þarf að vera í samræmi við þær þarfir sem eru til staðar á hverjum tíma.
  4. Sveitarfélögin þurfa að hafa burði til að sinna verkefninu.

  Í samhengi við framangreint er nauðsynlegt að sveitarfélögin fari eftir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Til að gera hagsmunasamtökum fatlaðs fólks kleift að gera sig gildandi í störfum sínum, hvort sem það er á vettvangi nefndarstarfa á vegum hins opinbera eða annars staðar, er nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög styðji við þau með fjárframlagi.
 3. Ályktun frá 37. þingi Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra haldið dagana 23. til 25. maí 2014 um fulltrúa í samráðsnefndir sveitarfélaga um málefni fatlaðra
  37 þing Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra óskar eftir því að fá fulltrúa í samráðsnefndir sveitarfélaga um málefni fatlaðra eins og segir í 1. kafla, 1. gr. laga um málefni þeirra. Einnig krefst þingið þess að fulltrúum fatlaðra í starfshópi um endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga verði fjölgað en einungis einn fatlaður fulltrúi situr í starfshópnum. Ekkert um okkur án okkar!
 4. Ályktun frá 37. þingi Sjálfsbjargar lsf. um bifreiðamál hreyfihamlaðra

  37 þing Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra haldið dagana 23. til 25. maí 2014 telur nauðsynlegt að hraða vinnu starfshóps um endurskoðun bifreiðamála hreyfihamlaðra sem hafin er í ráðuneyti velferðarmála sem frekast er kostur.
 • Í stað þess að styrkir til bifreiðakaupa séu á höndum Tryggingarstofnunar en hjálpartækin í bílana hjá Sjúkratryggingum Íslands, leggur Sjálfsbjörg lsf. til að þessir þættir verði alfarið í höndum Sjúkratrygginga.
 • Sjálfsbjörg lsf. fer fram á að fjárframlög sem fara í uppbætur TR til reksturs bifreiðar séu aðgreind frá styrkjum til bifreiðakaupa, en allt er þetta núna undir sama lið á fjárlögum alþingis.
 • Sjálfsbjörg lsf. telur nauðsynlegt að sérútbúin bifreið eða breytt bifreið verði skilgreind sem hjálpartæki og að kostnaður við breytingar verði að fullu greiddur af Sjúkratryggingum Íslands. Má þar vísa til þess að breytingar á t.d. rafmagns­hjólastólum eru notendum að kostnaðarlausu.
 • Sjálfsbjörg lsf. fer fram á að mikið fatlaðir einstaklingar sem ekki geta ekið sjálfir geti fengið úthlutað lyftubílum sem aðstandendur og/eða aðstoðarmenn keyra.
 • Styrkir til kaupa á bifreið taki mið af aðstæðum og þörfum hvers og eins fyrir sérútbúna bifreið. Að tekið sé t.d. tillit til þess að hreyfihamlaðir eigi börn og þurfi þess vegna etv stærri bifreið.
 • Sjálfsbjörg lsf. krefst þess að uppbót vegna reksturs bifreiðar fylgi verðlagi.

  5. Ályktun frá 37. þingi Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra  um kjaramál fatlaðra
  37 þing Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra haldið dagana 23. til 25. maí mótmælir því að þær kjarabætur sem fengist hafa að undanförnu með t.d. lækkun á skerðingarmörkum og hækkun lífeyris almannatrygginga séu teknar jafnharðan til baka með hækkun annars staðar í velferðarkerfinu. Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar og hjálpartækja hefur aukist gríðarlega og má fullyrða að lífeyrishækkun nokkurra mánaða fari öll í að greiða fyrir hækkun á sjúkraþjálfun. Koma þarf á þaki á kostnað sem fatlaðir verður fyrir svo sem vegna ýmiskonar hjálpartækja og sérhæfðra véla (tæki vegna kæfisvefns, öndunarvélar, öryggishnapps o.s.frv.). Ekki nægir að koma einungis böndum á kostnað vegna lyfjakostnaðar og læknishjálpar. Skoða þarf allan kostnað sem fatlaðir verða fyrir (t.d. læknis-, lyfja-, sjúkraþjálfunar- , ferðakostnaður vegna læknisferða og hjálpartæki).
  Nauðsynlegt er að fella niður virðisaukaskatt af lyfjum, hækka skattleysismörk og miða þau við lágmarkslaun í landinu.
  Sjálfsbjörg fagnar því að loksins séu afsláttarkort fyrir heilbrigðisþjónustu orðin sjálfvirk. Er það mikið framfaraskref, sér í lagi fyrir þá sem ekki hafa getu til að halda utanum kostnað á hverju ári.

  Kjarabætur þurfa koma til strax í almannatryggingakerfinu. Forvarsmenn ríkisstjórnar Íslands hafa hins vegar sagt að engar breytingar verði fyrr en lokið verði við endurskoðun á almannatryggingakerfinu með nýju starfsgetumati. 37 þing Sjálfsbjargar lsf. telur að við það verði ekki unað.