Gisting innanlands

Þegar gisting er bókuð er nauðsynlegt að taka það fram við bókun ef einstaklingur notar hjólastól eða hefur einhverjar sérþarfir. Oft eru fá herbergi á hverjum stað sem eru aðgengileg og því betra að taka fram hverjar þarfirnar eru því skilningur fólks á aðgengi er mjög mismunandi og stundum nefnir fólk staði aðgengilega ef ekki eru tröppur við útiinngang. Jafnframt er mikilvægt að þið spyrjið ítarlega hvernig aðgengismálum sé nákvæmlega háttað þannig að staðurinn og herbergið sem er bókað fyrir ykkur henti örugglega ykkar þörfum. 

Gott ráð

Notaðu leitarvélar eins og Google til að fá reynslu annarra hreyfihamlaðra ferðalanga á þá ferðamannastaði og á þá gististaði sem þú ert að velta fyrir þér. Skoðaðu reynslu ferðalanga í hverjum kafla hér fyrir neðan
Skoðaðu umsögn um gististaði á Trip Advisor

Ýmislegt um aðgengilega ferðaþjónustu:

ENAT (European Network for Accessible Tourism)

UNTWO (World Tourism Organization) Leiðbeiningar og handbækur um aðgengismál í ferðaþjónustu 

Hótel og gistiheimili

Vesturland og Vestfirðir

Hótel Horn á Ísafirði er með tvö herbergi sem eru aðgengileg hjólastólum og samkvæmt vefsíðu þeirra er aðgengi að hótelinu gott. Það er lyfta í húsinu.

Icelandair hotel Hamar er með 4 herbergi sérstaklega aðgengileg fyrir hjólastólanotendur. Aðgengi almennt mjög gott á hótelinu.

Reynsla ferðalanga

Icelandair Hótel Hamar Borgarfirði hefur mjög fína aðstöðu  (upplýsingar frá hjólastólanotanda).

Hótel Búðir hefur gott aðgengi fyrir fólk sem notar hjólastóla.

Gamla gistihúsið á Ísafirði. Hjólastólanotandi benti á að aðgengi fyrir hjólastólanotendur væri þar gott. Þar er rúmgott herbergi og salernisaðstaða á ganginum með góðu hjólastólaaðgengi. Til að komast inn í húsið er farið upp ramp bakdyramegin.

Hótel Húsafell Hjólastólanotandi mælir með þessu hóteli, bæði gistingu og veitingastað..

Norðurland

Icelandair Hótel Akureyri er með 12 herbergi sem eru aðgengileg hjólastólanotendum. Hjólastóla aðgengi almennt mjög gott í húsnæðinu.

Reynsla ferðalanga

Icelandair Hótel Akureyri hefur góða aðstöðu.

Hótel KEA hefur herbergi fyrir fólk sem notar hjólastóla og aðgengi þokkalegt.

Austurland

Lake hótel Egilsstaðir, þar eru a.m.k. sex herbergi hönnuð með þarfir fatlaðra í huga.

Reynsla ferðalanga

Icelandair Hótel Hérað á Egilsstöðum er aðgengilegt fyrir fólk sem notar hjólastóla.

Suðurland

Lágafell - 861 Hvolsvöllur

Bakland að Lágafelli - Íbúð til leigu sem er sérhönnuð með þarfir hjólastólanotenda í huga.  Sæunn Þórarinsdóttir sími: 891-8091

Hótel Eldhestar - 810 Hveragerði

Hótel Eldhestar er með 26 tveggja manna herbergi og hluti herbergjanna eru sérhönnuð fyrir hreyfihamlaða.

Reynsla ferðalanga

Höfn Inn er nýlegt gistihús.  Gott aðgengi inn af plani. Herbergi fínt og rúmgott, gott rúm.  Sturtuaðstaða fín, hægt að fá sturtustól en hann er ekki á hjólum.

Hótel Laki við Kirkjubæjarklaustur hefur gott aðgengi fyrir fólk í hjólastólum.

Hótel Vestmannaeyjar hafa tekið í notkun nýja álmu. Frábær aðstaða fyrir alla hreyfihamlaða og fólk er notr hjólastóla, mælum með þessu hóteli. Sturtustóll er á staðnum.

Á Hótel Selfoss er gott aðgengi fyrir fólk í hjólastólum. Samkvæmt vefsíðu hótelsins voru 10 herbergi hönnuð fyrir hjólastólanotendur.

Höfuðborgarsvæðið

Reykjavík

  • Grand Hótel Reykjavík er fjögurra stjörnu glæsihótel. Lögð er áhersla á gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða á öllum hæðum. 15 herbergi voru sérhönnuð með gott aðgengi í huga.
  • Hilton Reykjavík Nordica er með 5 herbergi sérstaklega aðgengileg hjólastólum. Bílastæði er fyrir hreyfihamlaða. Blindraletur eða upphleypt tákn eru notuð á herbergjum. Gott aðgengi á milli staða á hótelinu. Hjálparbúnaður fyrir heyrnarlausa. Tekið er fram að þessi þjónusta kunni aðeins að vera í boði í sumum herbergjum eða einingum og að viðbótargjald kunni að vera tekið fyrir tiltekna þjónustu. 
  • Icelandair hótel Marina er með 10-12 herbergi sérstaklega aðgengileg fyrir hjólastólanotendur. Aðgengi almennt mjög gott á hótelinu.
  • Hótel Cabin er með herbergi og baðherbergi ásamt sturtu aðgengileg hjólastólum. Bílastæði er fyrir hreyfihamlaða og gott aðgengi á milli staða.
  • Icelandair Hótel Reykjavík Natura býður upp á 3 herbergi sem eru aðgengileg hjólastólum. Þegar herbergi er bókað þarf að taka fram að einstaklingur í hjólastól muni gista í herbergjunum.

Reynsla ferðalanga

  • Hótel Smári í Kópavogi er mjög aðgengilegt að sögn aðstandenda hjólastólanotanda
Ferðaþjónusta bænda

Á heimasíðu Ferðaþjónustu bænda eru skráðir aðilar í ferðaþjónustu bænda sem hafa aðgengi fyrir hjólastóla. Í dálknum "Sía eftir" sem er vinstra megin á síðunni má haka við leitarvél og þá koma allir möguleikar fram, einnig er hægt að velja gistingu eftir landshlutum og aðstaða fyrir fatlaða. Athugið að skráningin er á ábyrgð þeirra sem skráðir eru á þessum lista. Hafið samband við viðkomandi stað til að fá betri upplýsingar.

Sumarhús og orlofsíbúðir til útleigu

Neðangreind sumarhús eru aðgengileg fyrir fatlað fólk en þar sem þarfir fólks eru misjafnar mælum við með því að  hringt sé á staðina og athugað hvernig aðgengið er áður en sumarhús er pantað þannig að það henti örugglega. Ef þið hafið nánari upplýsingar eru þær vel þegnar.

  • Furuholt, orlofshús Sjálfsbjargar Akureyr i og nágrenni. Bústaðurinn stendur við sunnanvert Vestmannsvatn í Reykjadal. Hann er útbúinn með góðu aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Netfang: jonhardar(hja)bjarg.is; s. 462-6800
  • Umhyggja, félag langveikra barna , er með tvö orlofshús sem eru með góðu aðgengi. Húsin eru Brekkuskógur og Vaðlaborgir.
  • Á vefsíðunni Bungaló er hægt að leita að aðgengilegum sumarhúsum til leigu hvar sem er á landinu.
  • Daðahús á Flúðum er sumarhús Landssamtakanna Þroskahjálpar og er þar gott aðgengi. Hægt er að sækja um sumarhúsið og skoða myndir af því á vef Þroskahjálpar.

Tjaldsvæði

Tjalda.is er upplýsingavefur um öll tjaldsvæði á landinu. Til að sjá hvort tjaldsvæðið sé aðgengilegt velurðu þann landshluta sem þú ert að fara í, smellir á "meira", undir tjaldsvæðinu sem þú vilt skoða og smellir svo á "þjónusta". Þau svæði sem eru aðgengileg eru með hjólastólamerki. Við viljum benda á að best er að hafa samband við tjaldsvæðið áður en farið er af stað til að öruggt sé að það hafi þann aðbúnað sem þörf er á.

Útilegukortið getur hentað mörgum sem vilja ferðast um landið  á ódýran hátt og gista í tjaldi, tjaldvagni, hjólhýsi eða fellihýsi. Útilegukortið  veitir 2 fullorðnum og 4 börnum undir 16 ára aldri fría gistingu á tjaldsvæðum samstarfsaðila Útilegukortsins allt að 28 gistinætur á hverju starfsári. Öryrkjar hafa fengið afslátt og þarf að kanna það hverju sinni.

Íbúð í Borgartúni

Borgartún

Í Borgartúni í Reykjavík er til skammtímaleigu góð 2ja herbergja íbúð. Aðgengileg hjólastólanotendum og með sturtustól á hjólum. Hægt er að leigja hana í gegnum Airbnb og Booking en einnig er hægt að hafa samband á með tölvupósti til að bóka beint.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér