Aðgengilegir ferðamannastaðir

Hér erum við að safna saman uppýsingum um aðgengi að fjölda ferðamannastaða víðsvegar um landið. Þekkingarmiðstöðin tekur fagnandi öllum ábendingum um aðstöðu og aðgengilega þjónustu á fleiri ferðamannastöðum.

Vinsælir ferðamannastaðir

Bláa lónið

Búningsklefar eru sérhannaðir fyrir hjólastólanotendur en einnig er hægt að fá sérklefa ef fólk er með aðstoðarmann með sér. Aðgangur fyrir aðstoðarfólk er án endurgjalds. Lyfta er ofan í lónið og hægt er að fá lánaðan hjólastól sem hægt er að nota ofan í lóninu. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Bláa lónsins

Jarðböðin við Mývatn

Jarðböðin við Mývatn eru með skábraut frá bílastæði en hún mun vera nokkuð brött.  Einnig er hægt að komast í hjólastól niður í lónið, þ.e. það þarf ekki að fara tröppur. Sturtustóll er á svæðinu. Við mælum með að þeir sem ætla að ferðast þangað hafi samband fyrst til að fá nánari upplýsingar um aðstöðuna og aðgengi. Jarðböðin eru með vefsíðu en þar er hægt að sjá myndir og upplýsingar - líka á ensku.

Hvalaskoðunarferðir

Special tours

Special tours fer frá Reykjavík með bátnum Andreu. Aðgengið er að sögn starfsmanns ekki mjög gott en þeir geta aðstoðað og borið hjólastólanotendur ef þess er óskað.

Láki Tours

Að sögn starfsmanns Láki Tours er gerlegt á veturna (fram í miðjan apríl) að fara í hjólastól, þegar þau fara frá Grundarfirði. En á sumrin er farið frá Ólafsvík og þá er aðgengið að bátnum slæmt.

Norðursigling

Að sögn starfsmanns Norðursiglingar eru næstum því öll skip hjá þeim aðgengileg en það er best á Garðari og Náttfara. Panta þarf tímanlega og hringja svo rétt áður og biðja um að fara á eitt af stærstu skipunum (þau eru aðgengilegust). Lagt er af stað frá Húsavík.

Ábendingar

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér