Ferðalög innanlands

Hér höldum við utan um upplýsingar sem tengjast ferðalögum innanlands, allt frá ferðamáta til gististaða og aðgengilegra ferðamannastaða. Endilega látið okkur vita ef þið lumið á fleiri gagnlegum upplýsingum. Meiri upplýsingar er að finna í flipunum hér til hliðar.

Bílaleigur

Sumar bílaleigur hafa til leigu bíla sem hægt er að keyra hjólastól inn í en aðrar bílaleigur bjóða einungis uppá að akstursbúnaður fyrir hreyfihamlaða sé settur í bílinn.

Neðangreindar bílaleigur leyfa að akstursbúnaður sé settur í bílaleigubílinn eða hafa bíla sem eru nægilega stórir til að einstaklingur í hjólastól geti setið í hjólastólnum inni í bílnum. 

Bílaleiga Akureyrar - Höldur

Pósthólf 10 | 602 Akureyri | 461 6000 | holdur@holdur.is |Vefsíða Bílaleigu Akureyrar - Höldur

Akstursbúnaður fyrir hreyfihamlaða er leyfður í bílunum. Sá sem leigir bílinn þarf sjálfur að útvega sér slíkan búnað og sjá um að setja hann í bílinn.

Hertz

Flugvallarvegi | 101 Reykjavík | 522 4400 | hertz@hertz.is | Vefsíða Hertz

Í apríl 2024 var tekin í notkun bíll sem er með akstursbúnaði fyrir hreyfihamlaða sem nú gefst kostur á að leigja hjá Hertz. Um er að ræða bíl af gerðinni Hyundai Tucson sem er útbúin með akstursbúnaði.

Flug

Hafa skal í huga að þurfi einstaklingur aðstoð á flugvelli þarf að láta flugfélagið vita með 48 tíma fyrirvara. Einnig er gott að hafa samband við flugfélögin til að fá nánari upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði.

Ferjur

Herjólfur

Fært er fólki sem notar hjólastóla í Herjólf og gott aðgengi fyrir aðra hreyfihamlaða t.d. er lyfta í skipinu. 

Afgreiðslustaðir Herjólfs
Aðgengi fyrir hjólastóla er með besta móti bæði í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Á báðum stöðum eru lyftur til að komast upp að landganginum og ættu flestar tegundir hjólastóla að komast fyrir í þeim. Landgangurinn er hallandi skábraut sem er nógu breið fyrir flestar tegundir hjólastóla, hallinn á landganginum getur verið mismunandi eftir stöðu sjávar.

Á afgreiðslustað Herjólfs í Þorlákshöfn er einnig lyfta frá afgreiðslunni upp að landganginum.

Um borð í Herjólfi
Um borð í Herjólfi eru tvær lyftur ætlaðar almenningi, önnur er á bílaþilfarinu og hægt er að komast þaðan á klefaþilfar og aðalþilfar, lyfta þessi er ekki stór en minni gerðir hjólastóla komast fyrir. Önnur lyfta er frá aðalþilfarinu upp á efsta þilfar ef farþegar vilja komast út á meðan siglingu stendur.


Baldur Breiðafjarðarferja

Samkvæmt upplýsingum frá Sæferðum er nýi Baldur mjög aðgengilegur. Farið er í lyftu inn í bátinn og boðið er upp á 20% afslátt fyrir öryrkja. Nánari upplýsinigar má fá á vefsíðu Sæferða.

Sævar - Grímsey/Hrísey

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er komin lyfta í ferjuna og þar er einnig salerni sem er aðgengilegt hreyfihömluðum.

Leigubílar

Neðangreindir aðilar geta tekið farþega sem nota rafmagnshjólastóla. Best er að taka fram að um rafmagnshjólastól er að ræða. Margar leigubílastöðvar taka aukagjald fyrir stóra leigubíla og getur því verið gott að spyrja hvort greiða þurfi aukagjald.

Reykjavík

BSR S. 561-0000

Hreyfill - Bæjarleiðir S. 588-5522. Hringja þarf með góðum fyrirvara til að athuga hvort bílarnir séu lausir

Rútur

Hópferðabílar í áætlunarferðum

Á vefsíðu BSÍ er hægt að kynna sér áætlunarferðir hópferðabíla um land allt. Því miður er almennt ekki hjólastólaaðgengi í hópferðabifreiðum sem eru í áætlunarferðum hérlendis. Hægt er þó að geyma hjólastóla sem leggjast saman í farangursgeymslu. Það eru 2-3 tröppur inn í hópaferðabílana. Ef haft er samband með sólarhrings fyrirvara er hægt að gera ráðstafanir varðandi flugrútuna .

Teitur Jónasson ehf.

Dalvegi 22 | 201 Kópavogi | 515 2700 | info@teitur.is | Vefsíða Teits

Hjá Teiti er hægt að leigja út 50 sæta rútu sem er aðgengileg fyrir hjólastóla. Samkvæmt vefsíðu þeirra eru nokkrar rútur aðgengilegar fyrir hjólastóla. Gott er að hafa samband með góðum fyrirvara.

Hópferðamiðstöðin Trex

Hesthálsi 10 | 110 Reykjavík | 587 6000| info@trex.is | Vefsíða Trex

Hægt er að leigja rútu hjá Trex sem er með hjólastólalyftu og sæti sem hægt er að nota til að flytja farþega á milli sætaraða.

Strætisvagnar

Strætisvagnar Akureyrar

Hægt er að sjá allar upplýsingar um almenningssamgöngur fyrir hreyfihamlaða á vefsíðu Akureyrarbæjar.

Strætisvagnar höfuðborgarsvæðisins

Allir strætidvagnar sem aka á höfuðborgarsvæðinu eru lággólfsvagnar og eru þar að leiðandi aðgengilegir fyrir  þá sem nota hjólastóla sem aðra hreyfihamlaða.  Hægt er að ganga beint inn í vagnana en þó eru sumar leiðir sem hafa tröppur. Í öllum vögnum er hjólastólarampur sem hægt er að setja út þegar hjólastólanotendur eru á ferð. Sérstakt svæði er fyrir hjólastóla rétt framan við miðjuhurð í öllum innanbæjarvögnum. Ekki eru festingar í gólfi í vögnum en það eru tveggja punkta belti í vögnunum. 

Á vefsíðu Strætó.is eru upplýsingar og tilmæli fyrir farþega í hjólastól undir  Farþegaþjónusta  

Strætisvagnar Reykjanesbæjar

Frítt er í strætisvagna Reykjanesbæjar. Öryrkjar greiða lægra gjald en aðrir í ferðum milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur. Ekki er hjólastólaaðgengi

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér