Foreldrar og börn

Hreyfihamlaðir foreldrar

Hér eru upplýsingar fyrir hreyfihamlaða foreldra um vörur sem gætu gagnast við umönnun barnsins. Hafa ber í huga að nýjar vörur eru sífellt að koma fram og fleiri verslanir gætu verið að bjóða svipaðar vörur í einhverjum tilfelllum. Þá er unnt að finna urmull af erlendum fyrirtækjum sem eru að selja samsvarandi vörur og er alltaf að verða auðveldara að panta og fá vöruna send til landsins.  Vinsamlegast sendið okkur línu ef þið hafið upplýsingar um fleiri gagnlegar lausnir.

Baðsæti

Baðsæti fyrir yngstu börnin er sniðug lausn fyrir hreyfihamlaða foreldra. Baðsæti tryggir öryggi barnsins og auðveldar böðun.    

Barnabílstólar

Til eru barnabílstólar sem hægt er að festa á kerru og geta hentað hreyfihömluðum foreldrum sem eiga erfitt með að halda á barninu í barnabílstólnum út í bíl vegna jafnvægisleysis og/eða kraftleysis.    
Hér að neðan má sjá nokkur dæmi um barnabílstóla sem festa má á kerru (maí 2016).

Einnig eru til barnabílstólar sem hægt er að snúa á hlið til að auðvelda manni bæði við að setja barnið í stólinn og losa það úr honum. Stóllinn er af gerðinni Britax Dualfix og fæst í Ólavía og Oliver og Bílanaust.

Beisli

Hreyfihamlaðir foreldrar eiga oft ekki létt með að hlaupa á eftir barni er tekur sprettinn. Því geta einföld beisli hentað hreyfihömluðum foreldrum vel, sérstaklega þeim sem eru hræddir um að barnið hlaupi frá sér og hafa ekki getuna til að hlaupa á eftir barninu. Með beisli er hægt að tryggja öryggi barnsins þegar farið er út.

Brjóstagjafapúðar

Nauðsynlegt er að hafa góðan stuðning undir handleggi þegar barni er gefið brjóst.

Bara púði er stuðningspúði sem hægt er að nota sem brjóstagjafapúða. Púðinn hentar einnig sem stuðningur fyrir fólk sem notar hjólastól. Púðinn er hannaður af iðjuþjálfa.  Hjólastólanotendur geta sótt um styrk til kaupa á púðanum til Hjálpartækjamiðstöðvar.

Rimlarúm fyrir börn

Hægt er að fá nokkrar gerðir af rimlarúmum fyrir börn sem geta hentað vel fyrir hreyfihamlaða foreldra.

  • Rafstýrð hæðarstillanleg rimlarúm með harmonikkuhurð

Skiptiborð og dýnur

Til eru skiptiborð og skiptidýnur sem geta hentað hreyfihömluðum foreldrum svo sem borð sem festast á vegg og dýnur sem hægt er að leggja á rúm eða borð með eða án kanta.

Úlnliðsband

Úlnliðsband hentar vel fyrir hreyfihamlaða foreldra, til að tryggja öryggi barna sinna, t.d. í margmenni eða á ferðalögum eða einfaldlega þegar verið er úti í göngutúr til að koma í veg fyrir að barn geti hlaupið frá þeim.

Vagga á hjólum

Fyrir hreyfihamlaða foreldra með skert jafnvægi eða þá sem eru kraftlausir og treysta sér ekki til að halda á litlu barni um íbúðina getur verið gott að hafa vöggu á hjólum og geta keyrt vögguna á milli staða í íbúðinni.

Aðrar gagnlegar upplýsingar

Vatnsheld lök á rúm

Nokkrir innflutningsaðilar selja vatnsheld lök á rúm sem geta verið mjög hentug til að verja rúmdýnuna sé möguleiki á að líkamsvessi fari í rúmið. Hafi fólk upplýsingar um fleiri aðila sem selja vatnsheld lök á rúm en neðangreinda aðila þiggur Þekkingarmiðstöðin upplýsingarnar. Eirberg og Stoð.

Þroskaleikföng

Ýmsar verslanir sem selja leikföng selja sérstök þroskaleikföng. Þær verslanir sem gefa sig sérstaklega út fyrir að selja þroskaleikföng fyrir börn eru verslanirnar ABC leikföng , Krumma og  leikfangaland.is

Ungbarnaeftirlit

Tilgangur og markmið ung- og smábarnaverndar er að fylgjast reglulega með heilsu og framvindu á þroska barna.  Því er afar mikilvægt að farið sé eftir þeim leiðbeinigum sem fagfólkið þar gefur og passað að mæta þegar tími er gefinn.                  

Barnalífeyrir

Foreldrar sem eru öryrkjar eiga rétt á barnalífeyri. Tvöfaldur lífeyrir er greiddur ef báðir foreldrar eru öryrkjar (ef börn eru yngri en 18 ára). 

Börn með sérþarfir

Þeir foreldrar/forráðamenn sem vantar faglega og óháða ráðgjöf vegna langveiks eða fatlaðs barns geta leitað til Sjónarhóls ráðgjafamiðstöðvar.
Verslunin ABC leikföng selur ýmsar vörur sem geta nýst börnum með sérþarfir við skipulagningu daglegra athafna og vörur sem nýtast vel í sérkennslu. Verslunin Krumma selur leikföng og kennslugögn sem nýtast vel börnum með sérþarfir.
Í gegnum vefsíðuna skynorvun.is má finna vörur sem gagnast vel börnum og fullorðnum með sérþarfir.


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér