Skrifstofu Sjálfsbjargar LSF. barst þessi póstur nú rétt fyrir helgi.
“Umhverfisstefna fyrir Breiðdalsá
Aðgengi fyrir alla
Umhverfið við Breiðdalsá er fagurt og tignarlegt með mörgum veiðistöðum að fjölbreyttri gerð.
Veiðifélagið leggur áherslu á að varðveita lífríkið og náttúruna við ána, stuðla að skapandi fiskrækt með seiðasleppingum af stofni árinnar og góðri umgengni þar sem virðing er í fyrirrúmi, að fólk megi njóta lífs og samfélags við veiðar og vináttu.
Mælst er til að öllum tveggja ára laxi sé sleppt. Unnið hefur verið markvisst að fiskræktinni í samstarfi við leigutaka árinnar, Þröst Elliðason, að auka veiði og styrkja stórlaxastofn árinnar. Þetta átak hefur skilað afar góðum árangri.
Veiðifélagið vill að aðgengi fólks að veiðistöðum sé greiðfært með lagningu vegslóða sem falla að náttúrunni, forða því að ökutækjum sé beitt á ósnortið og viðkvæmt land, en fólki gert kleift að komast að veiðistöðum eftir akfærum vegi eins og aðstæður leyfa. Áhersla hefur verið lögð á gerð vegslóða og er nú akfært að flestum veiðistöðum árinnar.
Stangaveiði og náttúruskoðun eru ekki forréttindi þeirra sem hafa burði og þrek til að ganga um fjöll og gil. Hreyfihamlaðir eiga einnig rétt á að njóta veiða og samfélags um náttúruskoðun og eru ásamt öðrum velkomnir til dvalar og veiða við Breiðdalsá. Eigi að síður er mikið svigrúm til að njóta einveru kyrrðar og náttúrufegurðar í veiðinni með göngu meðfram ánni og víða leynist fiskur á ómerktum veiðistöðum.
Veiðifélagið óskar öllum velfarnaðar við veiðar í Breiðdalsá.
Veiðifélag Breiðdæla”
Það er mjög jákvætt að veiðifélög séu farin að bæta aðgengi að ánum sínum. Er ekki málið að fara að skella sér í veiði sem fyrst?