Gleðilegt aðgengi og gott nýtt hjálpartækjaár!
Kæru Sjálfsbjargarfélagar, samstarfsaðilar, hollvinir, starfsfólk og öll þið sem unnið Sjálfsbjörg lsh. og styðjið við starfið.
Við óskum ykkur gleðilegra jóla, árs og friðar og þökkum samskiptin og vináttuna á árinu sem er að líða.
Árið hefur fært okkur meðal annars; mörghundruð nýja rampa, aukið aðgengilegt húsnæði,
samtal og áform um aðgengilega vinnustaði og viðeigandi aðlögun, lagfæringar á reglugerðum hjálpartækjalöggjafarinnar og von um að hreyfihamlaðir hafi tækifæri til að stunda útivist, íþróttir og tómstundir eins og annað fólk gerir í sínu daglega lífi, ...og nýja ríkisstjórn.
Árið færði samfélaginu tækifæri til að gera betur í aðgengismálum og tækifæri til að bæta viðhorf sitt til okkar sem þurfum hjálpartæki til að komast um.
Fyrir þetta og meira til erum við þakklát.
Við horfum vongóð fram á veginn og óskum þess að nýtt ár færi okkur í auknum mæli þau sjálfsögðu réttindi að hafa aðgengi að samfélaginu og í samfélaginu.
Við sendum góðar kveðjur til nýrrar ríkisstjórnar með óskum um,
að í sáttmála hennar verði okkur sem tilheyrum málaflokki fatlaðs fólks gerð góð skil,
því okkar barátta er mannréttindabarátta.
Á nýju ári óskum við okkur þess að réttindi okkar og tilvist verði virt þannig að hindrunum verði rutt úr vegi, mannsæmandi kjör verði að veruleika og að viðhorfsbreyting til batnaðar eigi sér stað í okkar garð.
Við óskum öllum góðs aðgengis að samfélaginu, sífellt batnandi lífskjara og tækifæra til að njóta og taka þátt.