Þann 11. mars árið 1962 var stofnað Sjálfsbjargarfélag á Sauðárkróki. Þá voru félögin innan landssambandsins orðin tíu að tölu. Fyrsti formaður félagsins var Konráð Þorsteinsson. Félagið varð strax fjölmennt og styrkarfélagar svo margir að ekkert annað Sjálfsbjargarfélag komst í hálfkvisti við það, eins og segir í fyrstu skýrslu félagsins til landssambandsins. Tala félaga er hins vegar ekki tilgreind fyrir þetta fyrsta ár, en ári síðar voru þeir 62 og árið 1964 var upplýst um fjölda styrktarfélaga, en þeir voru þá um 200 talsins.
Fyrsta starfsárið voru haldnir fundir og rætt um undirbúning að stofnun hjálparsjóðs á vegum félagsins. Bæjarstjórn Sauðárkróks studdi myndarlega við bakið á félaginu og fjáröflun var einnig mjög vel heppnuð, en haldið var bögglauppboð sem skilaði drjúgum ágóða.
Árið 1963 festi félagið síðan kaup á gömlu húsi sem flutt var á grunn sem Kaupfélag Skagfirðinga gaf félaginu. Á því ári var unnið að því að stækka húsið og fullgera, en húsbygging var í bígerð hjá félaginu. Húsið skemmdist af eldi árið 1964 en viðgerð var lokið sama ár.
Formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði á 50 ára afmælisári Sjálfsbjargar lsf. 2009 var Anna Þórðardóttir. Á 60 ára afmælisári landssambandsins 2019 var formaður félagsins Magnús G. Jóhannesson.