Sjálfsbjörg á Ísafirði var stofnuð þann 29. september 1958. Tæplega fjörutíu manns sóttu stofnfundinn, þar af nokkrir styrktarfélagar og einn ævifélagi. Ári síðar voru félagarnir orðnir um áttatíu. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Trausti Sigurlaugsson. Ingibjörg Magnúsdóttir tók við formennsku árið 1961 en hún lést eftir nokkrra ára formennsku langt um aldur fram. Meðal þeirra baráttumála sem stofnfundurinn fjallað um var hækkun örorkustyrks og að skerðing hans hæfist ekki fyrr en tekjur lífeyrisþega næmu tekjum verkamanns. Áskorun þessa efnis var send alþingi. Þegar var farið í fjáröflun á vegum félagsins, meðal annars merkjasölu. Helmingur ágóðans rann beint til húsbyggingarsjóðs landssambandsins eins og hjá fleiri félögum. Mánaðarlega voru haldnir skemmtifundir og farið var að ræða um að koma á fót léttri vinnu fyrir félagana.
Um skemmtifundina segir í skýrslu Ingibjargar Magnúsdóttur ritara félagsins til landssambandsins: ,,fóru þeir þannig fram, að fyrst voru rædd áhugamál félaganna, og síðan hlýtt á skemmtiatriðin, meðan drukkið var úr kaffibollunum.”
Árið 1961 var sett á laggirnar prjónastofa á vegum félagsins þar og fékk hún aðsetur í sundlaugarkjallaranum til að byrja með. Það var fyrsta atvinnutengda starfsemin fyrir félagsmenn á svæðinu. Prjónaðar voru ,,gammósíur” í mörgum litum sem nutu gríðarlegra vinsælda. Vegna fjárhagserfiðleika var þó ekki hægt að reka vinnustofuna allan ársins hring.
Ári síðar, 1962, var ráðist í mikla fjáröflun og félagið eignaðist þá eigið húsnæði, Mjallargötu 5, ásamt ,,Berklavörn” á Ísafirði. Félagar voru þá orðnir 48, styrktarfélagar 44 og einn ævifélagi. Húsnæðið var á tveimur hæðum og eingöngu stigi á milli hæða en aðstaðan á efri hæðinni var engu að síður mikið notuð af fötluðum sem ófötluðum. Á þessu ári, 1962, var landsþing Sjálfsbjargar haldið á Ísafirði og því mikið um að vera. Í nýja húsnæðinu var stofnuð verslun og auk þess var umboð SÍBS í bænum í húsinu og tryggði talsverða umferð í húsið.
Rétt fyrir jólin árið 1966 fór hús Sjálfsbjargar og Berklavarnar illa í bruna. Endurbygging var engu að síður ákveðin en var ekki lokið fyrr en árið 1968. Þá var einkum hugað að því að endurbyggja verslunina og vinnustofuna Vinnuver. Verslunin hélt áfram en vinnustofan hafði þá verið lögð niður. Hins vegar voru vikuleg vinnukvöld haldin það ár.
Formaður Sjálfsbjargar á Ísafirði 2009, á 50 ára afmæli Sjálfsbjargar lsf. var Stefán Björgvin Guðmundsson en á 60 ára afmæliári landssambandsins 2019 var Hafsteinn Vilhjálmsson.