Eftirfarandi ferðaskrifstofur gera sérstaklega ráð fyrir fötluðum ferðamönnum - ef vitað er um fleiri ferðaskrifstofur vinsamlegast komið þeim upplýsingum til Þekkingarmiðstöðvarinnar.
Iceland unlimited skipuleggur ferðir fyrir hreyfihamlað fólk, þar sem hugað er að aðgengi t.d. á þeim stöðum sem fólk vill fara á. Hægt er að ferðast um landið, njóta náttúrunnar og sinna ákveðnum áhugamálum eins og að veiða, fara á snjósleða, á fjórhjól, fara í jeppaferðir, sjá norðurljósin o.s.frv. Upplýsingar á vefsíðu þeirra.
Ferðamálastofa sér um útgáfu leyfa í ferðamannaiðnaðinum, skráningu á starfsemi og eftirlit með að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt. Hún sér þannig um framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu, samræmingu umhverfis- og fræðslumála, miðlun upplýsinga, svæðisbundna þróun og alþjóðlegt samstarf. Nánari upplýsingar á vefsíðu þeirra.
Ferðamálastofa gaf út flokkunarviðmið, Ferðaþjónusta fyrir alla, um aðgengi að áningar- og útivistarsvæðum á Íslandi í maí 2007. Þó svo að byggingarreglugerð hafi breyst síðan, er margt hægt að nota í þessum bæklingi.
Íslandsstofa stendur fyrir almennu kynningarstarfi sem beinist að því að efla orðspor og ímynd Íslands erlendis, skapa áhuga á landinu sem áfangastað og auka eftirspurn eftir því sem íslenskt er. Íslandsstofa stendur einnig fyrir fræðslu og stuðningi við samtök, fyrirtæki og einstaklinga sem miðar að því að efla færni þeirra og árangur í alþjóðaviðskiptum.
Vakinn - gæðakerfi
Vakinn er byggður á nýsjálensku gæðakerfi fyrir ferðaþjónustu sem kallast Qualmark. Mikil vinna hefur verið lögð í að staðfæra kerfið og laga að íslenskum aðstæðum, að því hefur komið fjöldi aðila úr ferðaþjónustu og sérfræðingar á ýmsum sviðum. Gæðaviðmið Vakans fyrir hótel eru þó unnin samkvæmt gæðaviðmiðum frá evrópska Hotelstars kerfinu sem leitt er af Hotrec samtökunum en viðmið fyrir aðra gistiflokka Vakans byggja á Qualmark.
Ferðamálastofa stýrir Vakanum en verkefnið var upphaflega unnið í samvinnu við Samtök Ferðaþjónustunnar, Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálasamtök Íslands. Sjá frekar vefsíðu Vakans.
Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér