Það er að mörgu að hyggja þegar hreyfihamlaður/fatlaður einstaklingur undirbýr sig fyrir ferðalag á erlenda grund. Nú orðið er best að " googla " viðkomustaðinn, því það er orðið mikið magn af upplýsingum á netinu um ferðalög hreyfihamlaðs/fatlaðs fólks, ferðamöguleikum þess, reynslusögum fólks, og upplýsingum um aðgengismál í viðkomandi landi eða borg. Ef fara á t.d. til Róm notið leitarorðin "access for disabled in Rom" og gífurlegt magn upplýsinga koma upp. Hreyfihamlaður einstaklingur sem notast við hjólastól þarf að gæta þess að læra ferðaferlin, t.d. ferlið samfara flugi vel fyrir ferðina og alltaf er gott að ráðfæra sig við einhvern er hefur þar reynslu.
Að gefnu tilefni bendum við fólki á að kynna sér vel reglur aðila sem sjá um farþegaflutninga. Sumstaðar er góð þjónusta við fatlað fólk, en á öðrum stöðum getur fötluðu fólki hreinlega verið vísað frá. Mikill munur getur verið milli landa og á milli þjónustuaðila hvernig þjónusta við fatlaða er háttað.
Oft getur reynst mikilvægt að hafa meðferðis læknabréf þar sem greint er frá fötlun einstaklings.
Evrópska sjúkratryggingakortið tryggir sama aðgengi að heilbrigðisþjónustu og heimamanna. Það er einungis hægt að sækja um kortið í gegnum réttindagátt einstaklinga á vef Sjúkratrygginga Íslands.
Þeir sem koma til Íslands í tímabundna dvöl, svo sem í sumarleyfi, geta flutt með sér hjálpartæki frá öðrum norrænum löndum vegna Norræns samnings um almannatryggingar.
Á vef Samgöngustofu er hægt að finna hagnýtar upplýsingar fyrirfatlaða og hreyfihamlaða flugfarþega.
Frágangur hjólastóla fyrir flug
Þegar fólk sem notast við hjólastól fer í flug, er stóllinn settur í frakt. Þá getur meðferð á honum verið margvíslegur þrátt fyrir merkingar og reglur. Fólk hefur sjálft orðið vitni að miður góðri meðferð t.d. er stóllinn kemur af færibandinu úr farangursrými vélar. Því þarf hver og einn að tryggja að eins vel sé gengið frá stólnum ÁÐUR en hann lætur hann frá sér við dyr fluvélarinnar. Þannig er heppilegat að taka með sér inn í vélina allan lausan búnað (sessur, plötur, lausan mótor ef með oþh). Erfiðara er með frágang rafmagnshjólastóla og best að fá ráðleggingar hjá umboðsaðila (læika leita til annarra notenda samskonar stóla hvernig þeir ganga frá sínum stól) um hvernig best er að ganga frá stólnum í flutningi/flugi t.d. til að verja stýripinnana. Allt er þetta gert til að tryggja að þú fáir stólinn heilan á leiðarenda.
Hafa skal í huga að þurfi einstaklingur aðstoð á flugvelli þarf að láta flugfélagið vita með 48 tíma fyrirvara. Einnig er gott að hafa samband við flugfélögin til að fá nánari upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði. Samgöngustofa er með upplýsingar fyrir fatlaða og hreyfihamlaða flugfarþega.
Hægt er að ferðast með hjólastól hjá Icelandair. Hafa þarf samband við þjónustuver Icelandair í síma 5050-100 til að fá upplýsingar um hjólastólaþjónustu. Taka skal fram hvort farþegi ferðast með eigin hjólastól og hvort um er að ræða rafmagnshjólastól.
Ef bókað er á vefsíðu Icelandair þarf að taka sérstaklega fram í „Athugasemdir“ hvort viðkomandi þurfi hjólastól eða hvort hann tekur með sinn eigin stól. Nánari upplýsingar á vefsíðu Icelandair undir "Séraðstoð".
Erlend flugfélög sem fljúga til og frá Íslandi
Fjölmörg erlend flugfélög fljúga til og frá Íslandi. Best er að finna vefsíðu viðkomandi flugfélags og leita þar upplýsinga um þjónustu við hreyfihamlaða/fatlaða flugfarþega, en þjónusta þeirra getur verið eitthvað breytileg.
Nauðsynlegt er að hafa samband við flugfélagið sem flogið er með 48 klukkustundum fyrir flug ef flugfarþegar þurfa aðstoð á flugvellinum eða í flugvélinni.
Á vef Keflavíkurflugvallar má finna upplýsingar um þjónustu við fatlað fólk.
Flugvöllurinn hefur ekki leyfi til að taka beint á móti þjónustubeiðnum og eru tvær ástæður fyrir því. Annars vegar vegna þess að ef farþegi er með það umfangsmikinn búnað að hann komist ekki fyrir í flugvélinni, þá getur flugfélagið ekki flutt viðkomandi. Hins vegar er það ef farþegi er ófær um að skilja eða framkvæma öryggisþætti um borð í fluvélinni, þá getur flugfélagið óskað eftir því að viðkomandi hafi fylgdarmann með sér. Verði ekki hægt að koma því við getur flugfélagið neitað viðkomandi um flug.
Við viljum benda á að öryrkjar fá afslátt af gjaldi fyrir vegabréf, endurnýjun vegabréfa og einnig fyrir flýtimeðferð á vegabréfum. Umsækjendur vegabréfa þurfa að mæta í eigin persónu á umsóknarstað. Ekki þarf að taka með passamynd því mynd er tekin á staðnum. Hinsvegar fyrir þá sem vilja fara á ljósmyndastofu, þá getur ljósmyndarinn sent rafræna mynd á kopmyndir@syslumenn.is
Aðalafgreiðsla höfuðborgarsvæðisins fyrir umsóknir um vegabréf er hjá sýslumanninum í Kópavogi á Dalvegi 18. Einnig má sækja um vegabréf hjá öllum sýslumannsembættum utan Reykjavíkur, óháð búsetu.
Íslensk ökuskírteini, eins og þau líta út í dag, eru viðurkennd til aksturs innan EES landanna (að teknu tilliti til reglna hvers lands um lágmarksaldur og einnig þarf sérstök réttindi til aksturs í atvinnuskyni). Þetta á við hvort sem viðkomandi dvelur sem ferðamaður í viðkomandi ríki eða tekur upp fasta búsetu í því.
Utan landa Evrópska efnahagssvæðisins eru reglur um viðurkenningu mismunandi. Leiki vafi á hvort íslenskt ökuskírteini er viðurkennt til aksturs þegar viðkomandi dvelur sem ferðamaður í ríkinu er öruggast að hafa auk þess alþjóðlegt ökuskírteini. Sýslumenn og FÍB gefa út alþjóðlegt ökuskírteini til eins árs.
Sjá nánari upplýsingar um ökuskírteini.
Upplýsingar um notkun P merki erlendis.
Síðustu ár er orðið algengara að hreyfihamlað fólk velji að ferðast með skemmtiferðaskipum, en þau hafa orðið mun aðgengilegri fyrir hreyfihamlað fólk en var. Flest þeirra hafa verið með lyftur um borð, en annað aðgengi um borð hefur hefur gjarnan ekki verið til staðar. Þetta hefur verið að breytast síðustu árin. Þó er ákveðið vandamál hvað þennan ferðamáta snertir er að þó skipið sjálft sé vel aðgengilegt, er ekki svo með alla viðkomustaði þar sem þau stoppa. Stundum er fólk ferjað í land með bátum og þá fer t.d. hjólastóll ekki með, og síðan eru sjálfir viðkomustaðirnir stundum ill aðgengilegir. Því er mikilvægt að hafa samband við viðkomandi þjónustuaðila skemmtiferðaskips áður en ferðin er pöntuð og fá upplýsingar um aðgengi, ekki bara um borð heldur líka á viðkomustöðunum.
Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.
Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér