Búa fatlaðir við ferðafrelsi?

Grétar Pétur Geirsson, formaður Sjálfsbjargar sagði í Síðdegisútvarpinu að samkvæmt lögum eigi að greiða leið fyrir fatlaða í ferðamálum. Þeirri skyldu væri ekki sinnt af sveitarfélögum sem fyrir ári tóku við málaflokki fatlaðra frá ríkinu.

Eins og Síðdegisútvarpið fjallaði um sl. fimmtudag þá er mjög kostnaðarsamt fyrir fatlaða og langveika að ferðast og oft þarf að stóla góðgerðarsamtök og velvild samborgaranna. Fram kom í máli formanns Þroskahjálpar að stuðningur hins opinbera væri lítill en Þroskahjálp líti svo á að sá viðbótar kostnaður sem hlýst af fötlun sé kostnaður samfélagsins.

Á sama tíma er rúmlega 100 milljónum króna af almannafé veitt árlega í svokallaðan Orlofssjóð húsmæðra. Það er sjóður sem Alþingi stofnsetti fyrir 50 árum þegar samfélagsgerðin var allt önnur en er engu að síður enn við lýði. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði í þættinum sl. fimmtudag að sveitarfélögin væru til viðtals um að þessu fé yrði veitt til að gera fötluðum kleift að ferðast.