Breyting á lögum um félagslega aðstoð

Lagt hefur verið fram frumvarp á alþingi um að breytingar verði gerðar á lögum um félagslega aðstoð, nánar tiltekið breytingar á ákvæði sem varðar félagslega aðstoð í tengslum við bifreiðakostnað. Það eru sex þingmenn Framsóknarflokksins sem leggja fram frumvarpið. Flutningsmaður er Gunnar Bragi Sveinsson.

Í frumvarpinu kemur fram að í umræddu ákvæði segir að heimilt sé að greiða bótaþega uppbót vegna kaupa á bifreið, styrk til reksturs bifreiðar eða styrk til þess að afla bifreiðar. Skilyrði fyrir þessum styrkveitingum er að bifreið sé nauðsynleg vegna hreyfihömlunar bótaþega. Í reglugerð með lögunum kemur síðan fram að við veitingu uppbótar og styrkgreiðslu, er skilyrði fyrir úthlutun að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

Ekki getur talist eðlilegt að takmarka veitingu bifreiðastyrkja með þessum hætti enda ljóst að mikilvægt er fyrir bótaþega að geta notið aðstoðar foreldra eða náinna ættingja sinna og aukið lífsgæði sín, m.a. með bílferðum þó hann búi í sambýli svo dæmi sé tekið. Gerir frumvarpið því ráð fyrir að heimilt sé að greiða öðrum en bótaþega eða heimilismanni hans styrkinn ef nægilega er sýnt fram á nauðsyn styrksins og staðfesting þess efnis fengin frá heimilislækni og félagsmálastjóra viðkomandi sveitarfélags.