Aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar 2020

Sundlaug Garðabæjar

Löður nýtt smáforrit (app)

Sundlaugin í Ásgarði og Löður hljóta aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar.

Sundlaugin í íþróttamiðstöðinni Ásgarði í Garðabæ hlýtur aðengisverðlaun Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, árið 2020.  Aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar eru í ár veitt tveimur aðilum og auk Ásgarðslaugarinnar hlýtur smáforritið frá Löður viðurkenningu.   Afhending viðurkenningar um aðgengisverðlaunin fór fram í Ásgarði föstudaginn 29. maí sl. þegar þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar tóku á móti viðurkenningarskjali og blómvendi frá Berg Þorra Benjamínssyni, formanni Sjálfsbjargar.

Búnaður og aðgengi í klefum og sundlaug er fyrsta flokks

Sundlaugin í Ásgarði var tekin í notkun á ný vorið 2018 eftir miklar endurbætur bæði utandyra og innandyra. Í inniklefum karla og kvenna voru teknir í notkun nýir klefar fyrir fatlað fólk og ný lyfta fyrir hreyfihamlaða var sett upp á útisvæðinu til að komast í sundlaugina. Gott aðgengi er einnig í heita og kalda potta auk gufubaðs.  Í viðurkennningu Sjálfsbjargar segir að allur búnaður og aðgengi í klefum og sundlaug séu fyrsta flokks.

Hægt er að fara um laugarsvæðið í Ásgarði á þessari 360° mynd.

Appið er hannað af Stokk sem sérhæfir sig í smáforritum eins og þessu og hefur Löður appið heppnast einstaklega vel.
Löður appið er hægt að sækja bæði á Google play eða App store, appið er frítt og allir geta sótt sér aðgang. Hægt er að greiða með appinu á öllum sjálfvirku stöðvum Löðurs, þú velur þá stöð sem þú ert staddur á úr listanum sem birtist og appið leiðir þig áfram þangað til stöðin fer í gang og þú færð þinn þvott.  Greiðslumátinn er að tengja debit / kreditkort við appið og / eða viðskiptakort Löðurs.
Appið gerir viðskiptavinum okkar kleift að nýta sér sjálfsagða þjónustu eins og að þrífa bílinn en viðskiptavinurinn þarf aldrei að fara út úr bílnum heldur greiðir beint úr bílstjórasætinu.
Aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar er árlegur viðburður sem veitt eru í kringum afmæli Sjálfsbjargar sem var stofnað 4. júní 1959.
Sjálfsbjörg óskar vinningshöfum innilega til hamingju.
Nánari upplýsingar veitir Bergur Þorri Benjamínsson formaður í síma 8628892
Myndir: Jón Svavarsson Motivm.is