Margvísleg ráðgjafaþjónusta er í boði er varðar samfélag hreyfihamlaðra og fatlaðra og er hér aðeins farið yfir þetta svið. Þá geta allir þurft að takast á við einhverja fíkn á lífsleiðinni og er hér bent á ýmsa aðila er aðstoða við meðferð á því sviði.
Hjá Öryrkjabandalagi Íslands starfa m.a. félagsráðgjafi, ráðgjafi og lögfræðingar sem veita upplýsingar og aðstoð varðandi réttindi eða ef fatlaðir einstaklingar telja á sér brotið.
Sjá nánar um Nánari upplýsingar um ráðgjafaþjónustu ÖBÍ er að finna á vef bandalagsins
Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að félagsmálanefndir sveitarfélaga eiga samkv. lögum að bjóða upp á félagslega ráðgjöf. Markmiðið með slíkri ráðgjöf er m.a. að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál einstaklinga og veita þeim einstaklingum stuðning sem eiga við félagslegan, fjárhagslegan og/eða persónulegan vanda að stríða.
Sjá nánar um félagslega ráðgjöf sveitarfélaga
Félagsþjónustuskrifstofur á vegum sveitarfélaganna sjá um félagslegu ráðgjöfina en í Reykjavík sjá hverfisþjónustumiðstöðvar um ráðgjöfina.
Sjá nánar um félagsþjónustuskrifstofur og staðsetningu þeirra
Fíknigeðdeild Landspítalans er þrískipt. Þar er Móttökugeðdeild, Göngudeild fíknimeðferðar og Teigur.
Móttökugeðdeild Landspítalans er fyrir einstaklinga með alvarlegan geð- og fíknivanda. Þar innskrifast einstaklingurinn inn í teymi og hefur sömu meðferðaraðila meðan hann dvelst þar.
Göngudeildin er annars vegar greiningarstöð og hins vegar meðferðardeild. Áfengisráðgjafar sjá um daglegan stuðningshóp á göngudeildinni sem er öllum opinn. Deildin er á 1. hæð í geðdeildarbyggingu Landspítalans við Hringbraut.
Teigur er eftirmeðferðardeild fíknigeðdeildar sem sinnir sérstaklega fólki með vímuefnavanda. Gerð er krafa að fólk hafi stöðvað neyslu og sé búið að ná lágmarks stöðuleika. Í meðferðinni á Teigi er byggt á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar (HAM).
SÁÁ styðja þá sem glíma við fíkn og aðstandendur þeirra. SÁÁ er til húsa að Efstaleiti 7 í Reykjavík en meðferð fer fram á nokkrum stöðum.
Á sjúkrahúsinu Vogi er veitt meðferð fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Á Vogi er veitt afeitrun og byrjun á meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga. Jafnframt er göngudeild starfrækt á Vogi sem er sérstaklega ætluð sjúklingum sem eru í ævilangri viðhaldsmeðferð vegna ópíóðafíknar.
Eftir meðferð á Vogi eða Staðarfelli fer fram stuðningur á göngudeild sem nær til alkóhólista og vímuefnasjúklinga á öllum aldri og til aðstandenda þeirra. Einnig er spilafíklum veitt þjónusta á göngudeildunum og þar er unnið að forvörnum. Sjúklingar fá formlegan stuðning í þrjá til tólf mánuði. Aðstandendur get einnig leitað á gönguleidirnar.
Göngudeild SÁÁ veitir stuðning í formi viðtala fyrir aðstandendur þeirra sem þjást af fíkn, hvort sem hann hefur farið í meðferð eða ekki. Einnig býður Göngudeildin upp á fjölskyldumeðferð fyrir aðstandendur.
Á Vík á Kjalarnesi fer fram sérstök kvennameðferð eftir dvöl á Vogi. Þar er meðferðin algjörlega sniðin að þörfum kvenna sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.
Eftir dvöl á Vogi hafa karlmenn möguleika á að fara á göngudeildarmeðfer séu þeir eldri en 25 ára og búsettir í Reykjavík.
Karlmenn hafa möguleika á meðferð á Staðarfelli í Dölum og þeir sem eru eldri en 55 ára hafa möguleika á meðferð á Vík á Kjalarnesi.
Á Vogi er ungmennadeild sem er lokuð en unglingarnir deila matasal með öðrum sjúklingum Vogs. Jafnframt hafa unglingarnir aðgang að almennum rýmum utan deildarinnar.
Eftir meðferð á vogi þurfa sjúklingar að ljúka fjögurra vikna endurhæfingu á Staðarfelli eða Vík. Þegar þessu er lokið getur viðhaldsmeðferðin á Vogi haldið áfram.
SÁÁ býður ráðgjöf, þátttöku í stuðningshópum og helgarmeðferð við spilafíkn. Viðtöl við ráðgjafa er hægt að fá á göngudeils SÁÁ í Efstaleiti eða að Hofsbót á Akureyri.
Aðstandendur spilafíkla geta einnig fengið einkaviðtöl og nýtt sér sjálfshjálparsamtökin Gam-Anon.
MFM-miðstöðin býður upp á einstaklingsmiðað meðferðarprógram sem stuðlar að líkamlegum, tilfinningalegum/huglægum og andlegum bata fyrir þá sem fá skimun um matarfíkn og/eða átraskanir. GSA-samtökin (GreySheeters Anonymous) er félagsskapur fólks sem hefur fengið lausn við vanda sínum tengdum mat. Þar er byggt á "Gráu síðunni" og 12 spora kerfi AA-samtakanna til að ná svokölluðu fráhaldi frá matarvanda og viðhalda fráhaldinu. OA-samtökin (Overeaters Anonymous) byggja á samskonar 12 spora kerfi og AA-samtökin. Í OA-samtökunum deilir fólk reynslu sinni og styður hvert annað í að halda sig frá hömlulausu ofáti.
Fjölmörg 12 spora samtök eru starfrækt vegna ýmissa fíknisjúkdóma. Til dæmis má nefna AA-samtökin fyrir alkóhólista, SLAA (Sex and Love Addicts Anonymous - samtök fólks sem leitast við að ná bata frá ástarfíkn og kynlífsfíkn), OA-samtökin og GSA-samtökin fyrir matarfíkla, Al-anon fyrir aðstandendur alkóhólista og Coda-samtökin vegna meðvirkni.
Fjölmenningarsetur heldur úti yfirgripsmikilli upplýsingasíðu um allflesta þætti samfélagsins, má þar nefna menntun, heilsu, fjármál, húsnæði og stjórnsýslu. Síðan er aðgengileg á mörgum tungumálum og þar starfar fjöltyngt starfsfólk.
Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur býður upp á ráðgjöf alla virka daga fyrir innflytjendur.
Það er ráðgjöf á pólsku, ensku og íslensku og kallað er til túlka ef þörf krefur.Ráðgjafar hafa aðsetur í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fyrir nánari upplýsingar hafið samband á immigrants@reykjavik.is
Bæklingurinn "Býrð þú við ofbeldi?" sem gefinn var út af Velferðarráðuneytinu, inniheldur upplýsingar um hvað heimilisofbeldi er og hvar er hægt að leita sér aðstoðar. Hér er skilgreining Kvennaathvarfsins á heimilisofbeldi .
Aflið er samtök sem voru stofnuð á Akureyri árið 2002 og byggir starfsemin á forsendum þolenda kynferðislegs ofbeldis og/eða heimilisofbeldis. Þjónusta Aflsins er ókeypis. Hægt er að panta tíma hjá ráðgjafa í síma 461 5959 eða 857 5959 milli kl.8-16 virka daga eða senda tölvupóst á aflid@aflidak.is. Aflið er með Facebooksíðu.
Bjarkarhlíð er þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis 18 ára og eldri. Þar gefst þeim kostur á viðtölum og stuðningi frá fagaðilum, jafningjum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu. Ekki þarf tilvísun til að koma í viðtal. Bjarkarhlíð býður auk þess upp á stuðningshópa fyrir þolendur sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi. Bjarkarhlíð er staðsett við Bústaðaveg 108, Reykjavík. Hægt er að panta tíma í Noona smáforritinu, í síma 553-3000 eða á netfangið bjarkarhlid@bjarkarhlid.is.
Drekaslóð er þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis og aðstandendur þeirra. Þangað geta karlar og konur leitað sem hafa lent í hvers kyns ofbeldi svo sem einelti, heimilisofbeldi, kynferðislegu ofbeldi eða hafa þurft að þola vanrækslu í æsku. Einnig er Drekaslóð fyrir aðstandendur þolenda ofbeldis og fyrir þá sem vilja fræðslu um ofbeldi. Drekaslóð er á annarri hæð í Borgartúni 3, 105 Reykjavík. Símar 551 5511 - 860 3358 og netfangið er drekaslod@drekaslod.is.
Hugrekki er ráðgjafaþjónusta á netinu sem er sérstaklega ætluð fyrir þolendur ofbeldis og aðstandendur þeirra. Boðið er uppá ráðgjöf félagsráðgjafa með samskiptum í gegnum tölvupóst á netfangið hugrekki(hjá)hugrekki.is, skypeviðtöl og símaviðtöl í síma 779 1910. Einnig fara viðtöl fram á stofu á Akureyri.
Kvennaathvarfið er athvarf fyrir konur og börn þeirra sem geta ekki verið í heimahúsi vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis maka, sambýlismanns eða annarra heimilismanna. Konur sem hafa orðið fyrir nauðgun geta einnig leitað til athvarfsins. Símaráðgjöf er allan sólarhringinn og hægt er að panta tíma til að koma og fá stuðning og upplýsingar. Kvennaathvarfið er einnig með sjálfshjálparhópa þar sem hópurinn hittist og fær handleiðslu starfskonu Kvennaathvarfsins. Síminn í Kvennaathvarfinu er 561-1205 og netfangið er kvennaathvarf@kvennaathvarf.is.
Bæklingurinn Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra af stuðnings úrræðum var gefinn út árið 2015 um niðurstöður rannsóknar sem gerð var í fjórum Evrópuríkjum á ofbeldi gegn fötluðum konum. Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, í samstarfi við rannsóknastofnanir og háskóla í Austurríki, Þýskalandi og Bretlandi, stóðu að rannsókninni.
Bæklingurinn er aðgengilegur á netinu og er hægt að nálgast hann á auðskildu máli, á táknmáli og á hljóðfile. Ásamt niðurstöðum rannsóknarinnar eru einnig upplýsingar um hvert konur geta leitað verði þær fyrir ofbeldi.
Stígamót er fyrir konur og karla (18 ára og eldri) sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi. Stígamót sinnir einnig fjölskyldumeðlimum og öðrum aðstandendum þolanda. Hjá Stígamótum er boðið upp á stuðning, ráðgjöf, hópastarf og í Kristínarhúsi er aðstoð við konur sem hafa verið seldar mansali eða vilja komast út úr vændi. Konur utan af landi geta dvalist í Kristínarhúsi og unnið úr afleiðingum kynferðisofbeldis. . Sérstakt netspjall fyrir karlkyns þolendur er opið alla mánudaga kl. 13:00 – 17:00.
Stígamót eru að Laugavegi 170, 105 Reykjavík. Síminn er 562-6868/ 800-6868 og síminn í Kristínarhúsi er 546-3000. Netfangið er stigamot@stigamot.is
Hjá Rauða krossinum á Íslandi er boðið upp á ýmis konar þjónustu og má þar nefna heimsóknarvini, hjálparsímann, Konukot og skyndihjálparnámskeið, svo eitthvað sé nefnt.
Geðheilsa er málefni sem Rauði krossinn sinnir og rekur Rauði krossinn athvörf fyrir fólk með geðraskanir og kemur að rekstri annarra athvarfa. Jafnframt hefur Rauði krossinn sinnt sálrænum stuðningi þegar fólk lendir í áföllum.
Heimsóknavinir fara í heimsóknir til þeirra sem óska eftir því og er leitast við að veita félagsskap, nærveru og hlýju, en stundum geta aðstæður fólks leitt til þess að það missir samband við aðra og einangrast.
Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls úr öllum símum og hægt er að hringja þangað úr innistæðulausum farsíma. Markmið Hjálparsímans eru meðal annars að hlusta á og veita fólki á öllum aldri ráðgjöf og stuðning t.d. vegna þunglyndis, kvíða eða vanlíðunar.
Konukot er næturathvarf fyrir heimilislausar konur.
Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja
Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér