Rósin til Láru Björnsdóttur

Lára Björnsdóttir hefur hlotið Rósina 2011, hvatningarverðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi störf sem stuðla að þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu til jafns við aðra. Verðlaunin eru veitt til minningar um Ástu B. Þorsteinsdóttur, fyrrverandi formanns samtakanna Þroskahjálpar og er það fjölskylda Ástu í samvinnu við samtökin sem veitir þessa viðurkenningu. Í niðurstöðum valnefndar kemur m.a fram að starfsferill Láru spanni rúm fjörutíu ár og er mjög fjölbreyttur m.a. á Barna- og unglingageðdeild, Kópavogshæli, Ás styrktarfélagi og sem framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík. Einnig var hún félagsmálastjóri Reykjavíkur í tólf ár. Frá árinu 2007 hefur hún verið við stjórnunarstörf í félags- og tryggingamálaráðuneyti, núverandi Velferðarráðuneyti. Þar hefur hún m.a. lagt sitt af mörkum til undirbúnings á flutningi félagsþjónustu við fatlaða til sveitarfélaga, auk þess sem henni var falin formennska Velferðarvaktarinnar.