Sigursveinsvaka 5. október 2011

Í tilefni þess að þann 24. apríl síðastliðinn voru liðin 100 ár frá fæðingu tónskáldsins og baráttumannsins Sigursveins D. Kristinssonar, hefur stjórn Tónskólans ákveðið að efna til „Sigursveinsvöku“ í Norðurljósasal Hörpu miðvikudaginn 5. október kl. 20.  Aðgangur er ókeypis.

Flutt verður tónlist eftir Sigursvein og í stuttum samlestrum sagt frá uppvaxtarárum í Ólafsfirði s.s. félagsstörfum, stjórnmálaafskiptum og framleiðslu hans á listmunum. Þá verður sagt frá námsárum í Reykjavík, endurhæfingu og námsdvöl í Danmörku, tónsmíðanámi í Berlín, stofnun Lúðrasveitar verkalýðsins og Söngfélags verkalýðssamtakanna í Reykjavík, starfi hans á Siglufirði á 6. og 7. áratug síðust aldar, af framlagi hans til jafnréttismála fatlaðra í tengslum við stofnun Sjálfsbjargar og loks það stórvirki að setja á fót Tónskóla Sigursveins árið 1964.

Listafólk sem mun koma fram á Sigursveinsvöku: Lúðrasveit verkalýðsins undir stjórn Kára Einarssonar, Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar, Strengjasveit Tónskóla Sigursveins undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar, Ágúst Ólafsson baritón, Finnur Bjarnason tenór, Sigrún Valgerður Gestsdóttir sópran, Guðbjörg Hlín Guðmunsdóttir fiðluleikari, Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari, og píanóleikararnir Ástríður Alda Sigurðardóttir, Hrönn Þráinsdóttir og Örn Magnússon.