Yfirlýsing frá Sjálfsbjörg

Yfirlýsing frá Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra

Tryggjum mannréttindi fatlaðs fólks

Málefni ferðaþjónustu fatlaðra hafa verið Sjálfsbjörg hugleikin mjög lengi. Samtökin áttu aðild að stofnun ferðaþjónustunnar hér í Reykjavík árið 1977 og hófu samstarf við Reykjavíkurborg á árinu 1979 um rekstur ferðaþjónustunnar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og háttar nú þannig til og hefur gert lengi að starfsemi ferðaþjónustunnar hér í Reykjavík er hluti af starfsemi Strætó bs. byggðasamlags  er sinnir almenningssamgögnum í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir þá staðreynd sinnir Strætó bs. einungis ferðaþjónustu fatlaðra fyrir Reykjavíkurborg. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa kosið að semja við einkaaðila um að sinna ferðaþjónustu fatlaðra í sveitarfélögunum með misjöfnum árangri.

Nú eru uppi hugmyndir um að bjóða umrædda þjónustu út í Reykjavík. Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra leggst eindregið gegn þeim hugmyndum og færir fyrir því eftirfarandi meginrök. Ferðaþjónusta fatlaðra á að vera hluti af almenningssamgöngum og er því best fyrirkomið hjá Strætó bs. Nær væri að snúa af braut útboða í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og koma ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu að öllu leyti fyrir hjá Strætó bs.
Á heimasíðu Strætó bs. kemur m.a. eftirfarandi fram:
Meginhlutverk byggðasamlagsins er að veita almenna þjónustu á sviði almenningssamgangna. Undir þetta hlutverk fellur rekstur almenningsvagna (strætó), ferðaþjónusta fatlaðra og ferðaþjónusta eldri borgara.

Ef ferðaþjónusta fatlaðra yrði flutt burt frá Strætó bs. eru engar líkur til þess að þetta stærsta almenningssamgangnaþjónustufyrirtæki landsins sæi sérstaka þörf á því að þróa almenna þjónustu á sviði almenningssamgangna í þágu allra þegna samfélagsins. Ef Reykjavíkurborg býður út þjónustuna til einkaaðila væri borgin að stíga skref til baka að mati Sjálfsbjargar.

Velferðarráðherra hefur sett leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk með gildistöku 1. febrúar 2012. Megininntak reglnanna byggir á lögum um málefni fatlaðs fólks. Í reglunum segir m.a.: “skulu sveitarfélög taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.” Í 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna kemur fram að “aðildarríkin skuli gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem og þegar því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi.” Það er augljós krafa Sjálfsbjargar að nú verði Ferðaþjónusta fatlaðra færð inní nútímann ma. með þeim hætti sem lýst er í Samningi Sþ. um réttindi fatlaðs fólks. Eina leiðin til þess er að þjónustan verði hluti af almenningssamgöngum en ekki einhver sérlausn. Reykjavíkurborg ásamt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er eiga hlut í Strætó bs. ætti ekki að verða skotskuld úr því að búa þannig um hnútana. Er Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra reiðubúið að aðstoða Reykjavíkurborg og aðra er hagsmuna eiga að gæta í þeirri vinnu.

Skorar því Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra á borgarráð að staldra nú við og setja samning Sþ. um réttindi fatlaðs fólks á þann stall sem hann er á alltént á tyllidögum hjá velferðarráði borgarinnar.

Framtíðarsýn Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðs fólks:
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var hafður að leiðarljósi við gerð framtíðarsýnar borgarinnar. Í því felst viðurkenning á sjálfstæðu lífi á eigin forsendum, jöfn tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, réttur til aðstoðar við að lifa innhaldsríku lífi og viðurkenning á fjölbreytileika mannlífsins og mannréttindum allra.

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir m.a.:

Fatlaðir eigi jafnan aðgang að þjónustu og ófatlaðir. Þess sé gætt, þegar þjónusta er skipulögð, að hún taki mið af þörfum ólíkra hópa fatlaðra af báðum kynjum. Opinberar byggingar þurfa að vera aðgengilegar fyrir alla, óháð fötlun, sbr. lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Tryggja þarf fötluðum aðgengi að upplýsingum um réttindi sín.

Ef við leyfum okkur að yfirfæra fyrirhuguð áform framkvæmdahóps Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem studd hafa verið af velferðarráði borgarinnar um útboð ferðaþjónustunnar á aðgengi að byggingum má álykta að vegna þess að einhver bygging borgarinnar er ekki fyllilega aðgengileg þá yrði brugðið á það ráð að byggja aðra sem sérstaklega væri ætluð fötluðum og engum nema fötluðum.