Ég verð að læra að bíða

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson skrifar:

Í gær kom ég heim úr skólanum um sex leytið og hringdi eftir aðstoð klukkan 18:10. Ég var að fara á fund út í bæ klukkan hálf átta og var að vonast til að geta fengið mér smá snarl og látið tæma þvagpokann áður en ég færi. Þegar ég þurfti að fara þá var enginn kominn og starfsmaður komst ekki til mín fyrr en um 20:30 eða tveimur klukkutímum og tuttugu mínútum eftir að ég hringdi. Ég var þá löngu farinn og gat því ekki nýtt aðstoðina.

Ég verð að viðurkenna að þetta er með lengstu skiptunum sem ég hef þurft að bíða en hinsvegar er um og yfir klukkutíma bið ótrúlega algeng en það hefði líka verið of seint fyrir mig í þetta skiptið.

Ég hef einnig nýlega þurft að bíða hátt í tvo tíma vegna stíflaðs þvagleggs sem getur verið mjög sársaukafullt og hættulegt vegna ósjálfráðra rangviðbragða, eins hef ég þurft að bíða fastur uppí rúmi í allt að tvo tíma eftir aðstoð starandi upp í loftið.

Ég vil taka fram að ég tel þetta ekki vera starfsfólkinu að kenna heldur er vandamálið of mikið álag og of þétt dagskrá ásamt fáránlegu skipulagi.