Hjálpartæki

Smelltu hér til að skoða Hjálpartækjaleiguna HTL.

Hér finnur þú upplýsingar um helstu ferlihjálpartæki sem hreyfihamlað fólk notast við í daglegu lífi. Þá nefnum við þau fyrirtæki sem selja/leigja hjálpartæki. Að lokum eru nokkur atriði sem við viljum benda fólki á. Vert er að benda á að hægt er að sækja um styrk fyrir kaupum á hjálpartækjum til Hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), sjá nánari upplýsingar á vefsíðu okkar undir Réttindi.  Inn á síðu SÍ er hægt að finna upplýsingar um hjálpartæki.

Undir Daglegt líf (neðst á fellilistanum hér til vinstri) er síðan nefndur ýmis hjálparbúnaður sem hreyfihamlað fólk notast einnig við t.d. í mismunandi íverustöðum heimilisins eins og baðherbergjum.

Allir geta keypt hjálpartæki hjá þeim fyrirtækjum sem selja hjálpartæki, t.d. ef fólk vill eiga salernisupphækkanir í sumarbústaðnum eða heima hjá ættingjum. 

Helstu ferlihjálpartæki sem hreyfihamlað fólk notast við

Hér skoðum við aðeins helstu ferlihjálpartæki hreyfihamlaðra. Mörg þessara hjálpartækja eru einstaklingsmiðuð, þ.e. sniðin að þörfum þess einstaklings sem notar það dags daglega. Þannig eru t.d. hjólastólar aðlagaðir að notanda þeirra og er það yfirleitt á hendi iðjuþjálfa eða sjúkraþjálfara á vegum seljanda að annast aðlögunina. Þegar hjálpartæki eru leigð út er almennt ekki tækifæri til aðlaga búnaðinn sérstaklega, enda þá líka oftast um stuttan leigutíma að ræða.

Breyttar bifreiðar

Það gerist algengara að bifreiðum er breytt svo hreyfihamlaðir einstaklingar eigi möguleika á að keyra sjálfir. Með tilkomu sjálfskiptinga í bifreiðum opnuðust möguleikar margra hreyfihamlaðra til að aka sjálfir. Smá saman var farið að breyta bifreiðum til að auðvelda hreyfihömluðum að keyra og komst verulegur skriður á málið þegar breytingarnar urðu styrkhæfar. Þessar breytingar eru jafn mismunandi og eðli fötlunar hvers einstaklings er, þannig að hver bifreið er einstaklingssniðin að þörfum hvers notanda. 

Einfaldasti búnaðurinn er fyrir þá sem geta notað efri hluta líkamans, en þá er sett inn sérstakt handfang og tengt við bensín inngjöf og bremstu. Sumir eru með slíkan búnað og geta farið hann með milli bifreiða og ná að tengja búnaðinn sjálfir. Breytingar bifreiða eru þó oftast mun viðameiri og fyrir fólk er notast við hjólastóla geta breytingarnar orðið umtalsverðar. Þá er gjarnan eftirfarandi gert: sett rafstýrð lyfta, snúningssæti fyrir bílstjórann, gólf bílsins lækkað, öflugum festingum fyrir hjólastólana komið fyrir, og einstaka bifreiðar eru síðan útbúnar með stýripinna stýribúnað. Hérlendis hefur aðeins tvö fyrirtæki annast breytingar á sérútbúnum bifreiðum fyrir hreyfihamlaða íslendinga, Öryggismiðstöðin og Bílaskjól. Nefna má að ef fólk er ekki með bílpróf eða að breytingar bifreiðarinnar eru verulegar, þá þarf að koma fyrir sérútbúnaði í bifreiðinni í upphafi fyrir ökukennara, sem notast meðan viðkomandi er að læra að aka bifreiðinni.

Snúningsskífur er afar þægilegt hjálpartæki sem fólk setur undir sig í bílstjórasætinu og auðveldar því að snúa sér í sætinu þegar það fer út (gefið að bæilstjórasætið sé ekki snúningssæti) eða sest inn í bifreiðina. Einnig má nota snúningsskífuna í stóla heima fyrir.

Flutningsbretti er þunnt plastbretti til að auðvelda flutning í sitjandi stöðu, til dæmis frá hjólastól yfir í bílsæti, rúm eða á salerni. Annar endi brettisins er settur undir rassinn og hinn á staðinn þangað sem þú ætlar. Hendurnar eru svo notaðar til að lyfta sér og færa neðri hluta líkamans eftir brettinu. Brettin sem er verið að selja eru mismunandi, sum með köntum til hliðanna og flest með höldum/gripi á öðrum endanum. Þá eru einnig í boði flutningsmottur og eru þær ýmist notaðar með flutningsbrettunum eða sjálfstætt. Ef þú hyggst fá þér flutningsbretti ættir þú að heimsækja 2-3 söluaðila og fá að prófa og finna út hvaða bretti henta þér best.

Hjólastólar

Í grunninn skiptast hjólastólar í tvennt, í handknúna hjólastóla og rafknúna hjólastóla. Nýlega hafa síðan komið fram léttir og einfaldir mótorar sem gefa handknúnu hjólastólunum viðbótarkraft og létta átakið mikið hjá notendum. Um er að ræða mótora sem eru hengdir aftan á stólana og einnig mótorar sem eru hluti af báðum hjólum stóla.

Myndband um það hvernig velja á handknúna hjólastóla .

Baðstólar

Baðstólar er samheiti fyrir salernisstóla annars vegar og sturtustóla hinsvegar. Í báðum tilfellum eru  stólarnir til með eða án hjóla. Hér er yfirlit frá Sjúkratryggingum yfir þessa stóla og önnur hjálparbúnað er tengist baðherbergisaðstöðu hreyfihamlaðs fólks.

Fólk sest í salernisstólana (beint niður á stólinn eða færir sig úr hjólastól yfir í salernisstólinn). Stólarnir eru ýmist með eða án handfanga en yfirleitt með baki og flestir eru með bremsum á hjólum. Stóllinn er síðan færður yfir salernið eða undir setuna er rennt skál (bekken). Í báðum tilfellum sest fólk í baðstólana.

Sturtustólarnir, eru eins og nafnið vísar til, stólar sem notaðir eru í sturtuklefum (eða í baðaðstöðu) meðan fólk er í sturtu. Þeir henta almennt ekki sem salernisstólar. Til eru margar gerðir af sturtustólum og þarf fólk að skoða vel hvað er í boði og hvað hentar hverjum og einum og skiptir þá líka máli hvernig sturtuaðstaðan sjálf er útbúin. Þá þarf að huga samhliða að fjölda og staðsetningu stuðningsstanga í sturtunni og að þær séu rétt staðsettar m.v. stólinn sem valinn er.

Sjúkratryggingar Íslands hefur gefið út bækling á vefsíðu sinni er fjallar um bað- og salernishjálpartæki þar sem vel er fjallað um bað- og sturtustóla.

Griptangir

Hreyfihamlað fólk á eðli máls samkvæmt oft ekki auðvelt með að teygja sig eftir hlutum sem það missir frá sér eða eru í meira en arms fjarlægð frá því (sokkar sem hafa t.d. runnið undir rúm). Þá er gott að hafa griptöng við hendina og nota hana til að teygja sig eftir viðkomandi hlut. Ýmsar gerðir griptanga eru í boði, en eiga það nær allar sameiginlegt að handfang er á efri enda og þar er grip eða „trigger“ sem notaður er til að klemma saman gripiklemmurnar sem eru á neðri enda griptangarinnar og grípa í það sem sækja á. Margar griptangirnar má einnig lengja eða stytta. Þessar tangir eru stundum nefndar ruslastangir og eru þá notaðar til að týna upp rusl úti.

Göngugrindur - göngurammar

Göngugrindur eru stuðningsgrindur sem fullorðið hreyfihamlað fólk notar til að styðjast við er það gengur um. Í eðli sínu eru um tvær megingerðir um að ræða, með eða án hjóla (2 eða 4 hjól). Göngugrindurnar eru margvíslegar. Þær eru yfirleitt hæðanstillanlegar og sumar eru þannig að fólk getur hvílt handleggi ofan á handföngum. Hjólagrindurnar eru almennt með handbremsum (ef með hjólum) og margar eru útbúnar með setu þannig að viðkomandi getur notað göngugrindina sem stól. Þá er unnt að fá sumar með körfu fyrir muni að framan. Grindurnar eru af mismunandi styrkleika eftir hæð og þyngd notanda. Myndband um notkun göngugrinda .

Göngurammar eru léttar grindur (úr áli) sem fólk ýtir á undan sér, styður sig við og lyftir til að ganga áfram. Sumar eru með hjólum að framan svo aðeins þarf að lyfta þeim hluta sem er næstur líkamanum til að ganga fram. Þá eru sumir göngurammarnir alveg án hjóla og þarf þá að lyfta rammanum öllum upp til að flytja hann áfram. Leiðbeiningar um notkun gönguramma 

Göngustafir

Göngustafir eru sennilega eitt elsta ferli hjálpartækið sem ennþá er við líði. Eftir að margvísleg útivist í formi göngu- og fjallaferða varð algengari komu fram nýjar gerðir af göngustöfum er léttir för þeirra sem stunda þetta sport. En við erum ekki að fjalla um slíka göngustafi, sem vissulega eru hentugir utandyra, en ekki þegar komið er inn í hús. Hinir hefðbundnu göngustafir eru með handfangi/gripi efst sem eru gjarnan handformuð. Þeir eru yfirleitt hæðarstillanlegir og neðst er gúmmítappi sem snertir gólfið. Yfir veturinn bæta margir við klemmu neðst á stafinn sem smella má niður og er þá broddur kominn undir gúmmítappann og virkar hann þá sem hálkuvörn yfir veturinn. Þá eru einnig á boðstólnum þrífótastafir eða fjórfótastafir. Oftast notar fólk aðeins hefðbundinn göngustaf í annarri hendi og er hann þá andspænis "veika" fætinum sem verið er að verja. Hér má sjá myndband um notkun göngustafa .

Hækjur

Hækjur eru hjálparbúnaður sem er ætlaður til að gera viðkomandi einstakling mögulegt að ganga og tekur hækja þá þunga af veika fætinum (gefið að annar fóturinn sé með eitthvert mein sem takmarki gang t.d. eftir fótbrot eða aðgerð á fæti). Ein hækja er oft notuð þegar stíga má í veika fótinn, en tvær þegar ekki má eða erfitt er að stíga í veika fótinn eða kannski bara rétt tylla í hann.

Hækjur eru með mismunandi lögun og þola mismikinn þunga (notandans), en unnt að stilla hæð þeirra svo þær passi notandanum. Hér á árum áður voru hækjurnar settar undir handarkrikann en í dag skorðast þær við handlegg neðan olnboga. Segja má að um sé að ræða þrjár gerðir af hækjum í notkun hérlendis: 1) olnbogahækjur stillanlegar, 2) olnbogahækjur, stillanlegar og samanleggjanlegar og 3) giktarhækjur.

Á vefsíðu Doktors.is er farið yfir stillingar og notkun á hækjum.

Sjúkralyftur

Sjúkralyftur er rafknúinn hjálparbúnaður sem er notaður til að lyfta hreyfihömluðum einstakling frá einum stað á annan, t.d. úr rúmi í hjólastól, úr hjólastól í baðkar eða í sturtustól. Á dvalarheimilum og sjúkrahúsum (og einstaka heimilum) er lyftubúnaðurinn áfastur vegg eða lofti og getur lyftan þá t.d. fasrið með sjúklinginn eftir áfastri braut í lofti frá rúmstæði inn á baðherbergi. Laus lyftunúnaður er aftur á móti rafknúinn búnaður á hjólum sem lyftir einstaklingnum af einum stað og færir á annan stað. Það fer síðan eftir því í hvernig stöðu einstaklingurinn er í (liggjandi – sitjandi) hvernig  lyftubúnaðurinn sjálfur er (t.d. belti). Lyftubúnaðurinn léttir störf umönnunaraðila verulega og hlífir viðkomandi frá álagi við að lyfta hinum hreyfihamlaða. Aðeins einföldasti lyftubúnaðurinn er til útleigu hjá hjálpartækjaleigum en söluaðilar bjóða talsvert úrval af lyftum.

Sjúkrarúm

Sjúkrarúm er í sjálfu sér ekki ferlibúnaður, en ákveðið var að hafa þau með í þessum kafla þar sem þau eru hluti búnaðar sem hjálpartækjaleigur eru gjarnan með í boði og þá er verið að leigja þau til t.d. til ferðamanna er kjósa að hafa slík rúm á dvalarstað eða til fólks sem verður tímabundið hreyfihamlað og kýs sjúkrarúm umfram venjuleg rúm. Nútímaleg sjúkrarúm eru orðin afar fullkomin og unnt að stilla með rafbúnaði á marga vegu. Yfirleitt er rúmfletinum skipt í þrjá hluta, höfuð hluainn, miðhlutann, og fótahlutann. Þessa hluti er svo unnt að stilla á marga vegu – upp og niður, og þá er unnt að halla sumum rúmum til hliðanna og öll rúmin eru síðan hæðarstillanleg. Þá eru ýmsir möguleikar á að stilla hliðargaflana sem og höfuð- og fótagafla. Ef fólk er að kaupa eða velja sér sjúkrarúm, er að mörgu að hyggja og rétt að ráðfæra sig við iðjuþjálfa hvað það er sem horfa skal til m.v. stöðu viðkomandi.

Hér er grein um sjúkrarúm, Sjúkrarúm,aðhlynning og tækni.

Stuðningsstangir

Hreyfihamlað fólk á oft erfitt með að standa upp t.d. af rúmdýnu eða úr sæti. Mjög þægilegt getur þá verið að hafa stuðningsstöng sem spennt er lóðrétt milli gólfs og lofts. Oft eru þessar stangir staðsettar við rúm viðkomandi eða stólinn sem mest er setið í. Stöngunum er auðvelt að koma fyrir og þarf ekker að bora og festa í gólf eða loft (loftið verður þó að vera þétt og þola þrýsting – t.d. steypt – því ekki er unnt að spenna stöngina upp í kerfisloft eða hallandi loft). Með stöngina sér við hlið, grípur viðkomandi í hana og á þá auðveldara með að komast á fætur. Við stöngina má síðan festa höldur eða grip og færa til eftir hentugleikum svo auðveldara er að ná góðu taki.

Rafskutlur

Rafskutlur eru að verða sí algengari hjálpartæki hreyfihamlaðs fólks. Vegna veðurfars hérlendis eru þær þó nær eingöngu notaðar vor - sumar – og haust, þ.e. ekki yfir vetrartímann, enda ekki útbúnar fyrir hálku og snjó. Þá er nokkuð algengt að fólk leigi sér rafskutlu á ferðalögum sínum til heitari landa. Rafskutlur eru að grunni til afar einfaldar og eru gerðar fyrir einn einstakling (þó til fyrir 2 á hjálpartækjaleigum erlendis). Sjúkratryggingar Íslands styrkja hreyfihamlaða til kaupa á rafskutlum en setja hámarks þak á hvað styrkurinn getur verið hár. Rafskutlurnar eru m.a. flokkaðar eftir því hversu marga kílómetra skutlan kemst á rafgeyminum, en algengar vegalengdir eru 25-40 km. Því þarf að passa að hlaða rafgeymirinn reglulega. Endilega kynnið ykkur vel þær rafskutlur sem eru á markaðinum og hvaða skutlur henta þér að kaupa áður en sótt er um styrk til Sjúkratrygginga.

Rampar - slyskjur

Því miður verða ýmsir þröskuldar á vegi hreyfihamlaðs fólks og eru þeir sem notast við hjólastóla mest varir við hindranir sem birtast í formi t.d. hárra þröskulda, þrepa eða palla. Til að komast leiða sinna, er unnt að notast við lausa rampa eða slyskjur til að búa til rennu sem keyra má hjólastólana eftir uppiður. Það eru til margar gerðir af lausum römpum. Þeir eru til í einni plötu (sem dugar fyrir þröskulda eða eina tröppu), en oftast er um að ræða tvo fleka (rennur þar sem ráða má bilinu á milli þeirra). Flestar hjálpartækjaleigur og söluaðilar bjóða uppá nokkrar mismunandi gerðir af römpum. Sumir hjólastólanotendur hafa fjárfest í léttum römpum og hafa jafnvel í bílnum hjá sér, tilbúnir ef einhver hindrum birtist. Endilega kynnið ykkur úrvalið á markaðinum.

Fyrirtæki sem leigja út hjálpartæki

Hjálpartækjarleiga Sjálfsbjargar

Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra setti á stofn hjálpartækjaleigu árið 2017. Til leigu eru handknúnir hjólastólar, göngugrindur, sjúkrarúm, rampar, baðstólar, yfirbyggð kerra (hentar fyrir rafmagnsstóla og rafskutlur) og rafskutlur. Leigan er jafnt og þétt að bæta við sig búnaði. Unnt er að láta senda sér búnaðinn gegn sendingargjaldi. Hjálpartækjaleigan er staðsett í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12 - 1. hæð - inngangur nr. 4. 

Vefsíða Hjálpartækjaleigunnar er: hér – netfang: leiga@sjalfsbjorg.is Sími er 550 0360. Opnunartími er frá kl. 9 til 12 og frá kl. 12:30 til 15 alla virka daga.

Mobility.is/ hjólastólar.is

Mobility.is selja og leigja ýmis hjálpartæki m.a. ýmis konar smápartæki, bað- og salernishjálpartæki, rafskutlur, hjólastóla, sérsmíðuð hjól fyrir hreyfiskerta, hjólastólarampa og gönguhjálpartæki.

Mobility sendir heim að dyrum á höfuðborgarsvæðinu. Utan höfuðborgarsvæðisins er valin hagstæðasti flutningsmáti í hverju tilfelli.

Nánari upplýsingar má fá í síma 578 3600 eða að senda tölvupóst á info@mobility.is

Fyrirtæki sem selja hjálpartæki

BaraHealth

BaraHealth selur ýmsar tegundir stuðningspúða.

Eirberg 

Eirberg selur ýmis hjálpartæki m.a. ýmis konar smáhjálpartæki, bað- og salernishjálpartæki, hjólastóla, hjólastólarampa og gönguhjálpartæki.

Fastus

Fastus selur ýmis hjálpartæki m.a. gönguhjálpartæki, hjólastóla og sjúkrarúm.

Mobility.is/ hjólastólar.is

Mobility.is selja og leigja ýmis hjálpartæki m.a. ýmis konar smápartæki, bað- og salernishjálpartæki, rafskutlur, hjólastóla, sérsmíðuð hjól fyrir hreyfiskerta, hjólastólarampa og gönguhjálpartæki.

Mobility sendir heim að dyrum á höfuðborgarsvæðinu. Utan höfuðborgarsvæðisins er valin hagstæðasti flutningsmáti í hverju tilfelli.

Nánari upplýsingar má fá í síma 578 3600 eða að senda tölvupóst á info@mobility.is

Kollidoor ehf

Kollidoor ehf, á Akureyri,  smíðar bæklunarskó og er með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Kollidoor ehf býður einnig upp aðra þjónustu, göngugreiningu, skóviðgerðir o.fl.

Stoð - Stoðtækjasmíði

Stoð selur ýmis hjálpartæki m.a. hjólastól, rafskutlur, vinnustóla, göngugrindur, sjúkrarúm, bað/-og salernishjálpartæki og smáhjálpartæki, ásamt því að sérsmíða spelkur og gervilimi

Hér má sjá kynningarmyndband um Stoð

Stoðtækni ehf

Stoðtækni ehf smíðar bæklunarskó og er með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Stoðtækni ehf  býður einnig upp aðra þjónustu, göngugreiningu, skóviðgerðir o.fl.

Stuðlaberg

Stuðlaberg selur ýmiskonar hjálpartæki m.a. hjólastóla, hjálpartæki, rúm og húsgögn og lækningartæki. Eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands.

Örtækni

Örtækni selur ýmsan hug/-og vélbúnað fyrir fatlað fólk. Undir Búnaður fyrir fatlaða á vefsíðu þeirra má t.d. finna hugbúnað fyrir lesblinda, hljóðbókaspilara, lestæki fyrir sjónskerta og fleira.

Öryggismiðstöðin 

Öryggismiðstöðin  selur ýmis hjálpartæki m.a.  rafskutlur, hjólastóla, gönguhjálpartæki, baðtæki, fólkslyftara, brautir og rampa. Sjá velferðartæki

Össur býður upp á alhliða stoðtækjaþjónustu og sérfræðiráðgjöf auk sérsmíði á gervilimum, spelkum,l og skóm.

Gott að vita

  • Hjálparhundar Íslands er félagsskapur fólks sem sem hefur áhuga á hundum sem má þjálfa til að aðstoða hreyfihamlaða (fatlaða) einstaklinga. Félagið var stofnað 2019 og helstu markmið þess er að stuðla að bættu umhverfi hjálparhunda hér á landi svo þeir geti sinnt verkefnum sínum á þann hátt að það þjóni eigendum þeirra og um leið að hugað sé að velferð þeirra. Félagið er með vefsíðu og netfang þess er hjalparhundar@gmail.com.
  • Heimastyrkur.is: hér er gott yfirlit yfir hjálpartæki svona heilt yfir frá vefsíðu Heimstyrks
  • Sjúkratryggingar Íslands eru staðsettar að Vínlandsleið 16, 150 Reykjavík. Afgreiðslutími er kl. 10:00-15:00 frá mánudegi til fimmtudags. Á föstudögum er opið frá kl. 08 til 13. Símatími iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara í einingu tæknilegra hjálpartækja er frá kl. 10:00-12:00 alla virka daga. Símatími verkstæðis er kl. 10:00-12:00 alla virka daga. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið htm@sjukra.is 
  • Hjálpartækjamiðstöð Íslands er með aðstöðu á Kristnesspítala í Eyjafirði þar sem hægt er að prófa ýmis hjálpartæki ásamt því að starfsmenn í heilbrigðis- og félagsþjónustu og notendur hjálpartækja geta pantað tíma og fengið ráðgjöf um hjálpartæki. Símatími iðjuþjálfa er á þriðjudögum kl. 11:30-12:00 í síma 463 0399. Tekið er við skilaboðum á símsvara á öðrum tímum. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið hjalpartaeki@fsa.is 
  • Hækjur er almennt ekki unnt að leigja, en þær er hægt að kaupa í afgreiðslu slysa/-og bráðadeildar, í stoðtækjaverslunum og mörgum lyfjaverslunum.
  • Hljóðbókasafn Íslands er fyrir þá sem eiga erfitt með lestur af pappír. Allir umsækjendur þurfa því að skila inn umsóknareyðublaði ásamt undirrituðu vottorði, um að greining liggi fyrir, frá fagaðila þar sem kemur skýrt fram ástæða þess að umsækjandi geti ekki nýtt sér prentað letur
  • Margir hafa leitað að söluaðila fyrir upphækkun á rúmfætur. Slíkt er ekki selt í verslunum hér á landi en hægt er að sækja um slíkt hjá Hjálpartækjamiðstöðinni. Sótt er um það eins og önnur hjálpartæki. Umsóknareyðublað og nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands.

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér