Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðra 2012-2014

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar, sbr. ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr.59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2012–2014.

Framkvæmdaáætlunin taki mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Lögð verði áhersla á jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli fötlunar og viðurkennt að fötlun sé hugtak sem þróast og breytist og að fötlun verði til í samspili einstaklinga sem eru með skerðingar, umhverfis og viðhorfa sem hindri fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.

EITT SAMFÉLAG FYRIR ALLA

I. Stefna í málaflokki fatlaðs fólks 2012–2020.

Íslenskt samfélag byggist á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannlegu eðli. Tryggt verði að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, því sé tryggð vernd og frelsi til að njóta þeirra réttinda og að virðing sé borin fyrir mannlegri reisn þess. Fötluðu fólki verði tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Í því skyni verði barist gegn fátækt og félagslegri útskúfun. Fatlað fólk hafi sama rétt og aðrir íbúar landsins til að halda mannlegri reisn og njóta sjálfræðis, jafnréttis og samstöðu. Með því njóti fatlað fólk góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að jöfnuði, svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála. Stefna í málefnum fatlaðs fólks taki mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fatlað fólk komi að stefnumótun og ákvarðanatöku í eigin málum. Tryggt verði að samtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þeirra. Velferðarráðuneytið beri ábyrgð á öflun upplýsinga um þjónustu við fatlað fólk frá sveitarfélögum og því að samhæfðir árangursmælikvarðar á grundvelli laga, stefnu í málefnum fatlaðs fólks og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði skilgreindir svo unnt sé að vakta þjónustuna og meta árangur með tilliti til jafnræðis og mannréttinda.

2

Þeir sem búa við fötlun njóti virðingar jafnt og aðrir og eigi kost á stuðningi til sjálfstæðis og lífsgæða sem stuðla að því að þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og styrkleika. Fatlað fólk njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara á við aðra þjóðfélagsþegna og búi við skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, jafnt börn sem fullorðnir.

II. Framkvæmdaáætlun í málaflokki fatlaðs fólks 2012–2014.

Framkvæmdaáætlun sem byggist á stefnu í málaflokki fatlaðs fólka nái til þriggja ára, 2012–2014, með hliðsjón af ákvæði til bráðabirgða XII í lögum um málefni fatlaðs fólks en í þeim segir að heildarendurskoðun laganna með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, skuli lokið í árslok 2014. Þá skal einnig hafa farið fram endurmat á stöðu málaflokksins eftir yfirfærslu hans frá ríki til sveitarfélaga. Velferðarráðuneytið hafi heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og einnig umsjón með tilteknum aðgerðum, en önnur ráðuneyti, þjónustusvæði, sveitarfélög og eftir atvikum aðrir aðilar beri ábyrgð á öðrum einstökum aðgerðum og leggi mat á þær í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir verði innan hverrar aðgerðar. Víðtækt samstarf verði haft við notendur, hagsmunaaðila og atvinnulíf um framkvæmd stefnunnar til að þekking og reynsla nýtist sem best. Framkvæmdaáætlunin skiptist í átta málasvið og innan hvers þeirra verði þrjú til átta verkefni með skilgreindu markmiði:

A. Aðgengi.

Alþingi ályktar að gott aðgengi sé eitt af lykilhugtökum þegar rætt er um jafnrétti og jafna stöðu allra í samfélaginu, sama hvort átt er við mannvirki, aðgang að upplýsingum eða möguleika til tjáskipta.

B. Atvinna.

Alþingi ályktar að starf á vinnumarkaði stuðli að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklings, styðji við persónulegan þroska og vinni gegn fátækt.

C. Félagsleg vernd/sjálfstætt líf.

Alþingi ályktar að fötluðu fólki skuli tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Barist verði gegn fátækt og félagslegri útskúfun fatlaðs fólks.

D. Heilbrigði.

Alþingi ályktar að fatlað fólk, börn og fullorðnir, skuli eiga rétt á bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu sem er fyrirbyggjandi og sérhæfð þegar við á. Fatlað fólk skuli hafa sama aðgengi og aðrir íbúar að heilbrigðisþjónustu.

E. Ímynd og fræðsla.

Alþingi ályktar að auka þurfi þekkingu og almenna vitund um málefni tengd fötlun og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Þetta sé best gert með því að fatlað fólk verði sýnilegt í samfélaginu, svo sem í menntastofnunum, fjölmiðlum og á vinnustöðum.

3

F. Jafnrétti.

Alþingi ályktar að þar sem margvíslegar hindranir í umhverfinu og samfélagsgerðinni standi í vegi fyrir því að fatlað fólk öðlist jafnrétti á Íslandi og margt fatlað fólk upplifi fordóma og þekkingarleysi vegna fötlunar sinnar, og geti auk þess glímt við fleiri en eina tegund mismununar, svo sem vegna aldurs, kynferðis, uppruna eða kynhneigðar, verði brugðist við af fullri alvöru, meðal annars með því að fara að alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirritað og aðlaga bæði íslenska löggjöf og framkvæmd í þessu skyni.

G. Menntun.

Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli njóta jafnréttis til náms í raun og eiga kost á að velja um fjölbreyttar námsleiðir eftir áhugasviði og getu.

H. Þátttaka.

Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli eiga þess kost að taka fullan þátt í félagslegu og efnahagslegu starfi samfélagsins. Það skuli eiga þess kost að nýta borgaralegan rétt sinn, eiga val um hvar og hvernig það lifir og hafa fullan aðgang að menningu, tómstundum og afþreyingu.