Lög Sjálfsbjargar

Lög Sjálfsbjargar

Samþykkt á Landsfundi samtakanna 30. apríl 2022.

1. grein
Nafn, heimili og aðild
Nafn samtakanna er Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra, hér eftir nefnt Sjálfsbjörg.
Samtökin eru frjáls félagasamtök, nánar tiltekið félagasamband myndað af aðildarfélögum víða um land og skráð sem félagasamtök í fyrirtækjaskrá.

Heimili og varnarþing Sjálfsbjargar er í Reykjavík.
Samtökin eru sjálfstæður lögaðili. Aðilar að samtökunum bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum og öðrum skuldbindingum samtakanna nema með félagsgjaldi sínu.

Stjórn valin af landsfundi ber ábyrgð á starfsemi Sjálfsbjargar.

Skrifstofa Sjálfsbjargar fer með daglegan rekstur samtakanna á ábyrgð stjórnar. Framkvæmdastjóri ráðinn af stjórn stýrir skrifstofu samtakanna undir eftirliti og á ábyrgð stjórnar.
Sjálfsbjörg getur átt aðild að samtökum, innlendum eða erlendum samkvæmt tillögu stjórnar og þarf slík tillaga að hljóta samþykki landsfundar til að öðlast gildi.


2. grein

Markmið og Hlutverk
Hlutverk Sjálfsbjargar er að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðs fólks á Íslandi og eftir atvikum annarra fatlaðra og gæta réttinda og hagsmuna þess. Sérstaklega skal unnið að því að tryggja hreyfihömluðum félagsmönnum sem öðrum aðgengi að mannvirkjum, umhverfi, menntun, atvinnu og upplýsingum. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós í vinnu Sjálfsbjargar.

Helstu verkefni sem tengjast hlutverki Sjálfsbjargar eru:

a. Að fræða, valdefla og styðja hreyfihamlað fólk um allt er varðar stöðu þess í samfélaginu, meðal annars í samstarfi við aðildarfélög Sjálfsbjargar.
b. Að hafa áhrif á löggjafarvaldið, ríkis- og sveitarstjórnir, hagsmunasamtök og einstaklinga um þau mál sem varða hagsmuni hreyfihamlaðs fólks.
c. Að vekja athygli almennings á málefnum hreyfihamlaðs fólks með útgáfu- og kynningarstarfsemi.
d. Að hafa samstarf við hliðstæð félög, innlend og erlend.
e. Að reka í sérstöku félagi sérhæfða heilbrigðisstarfsemi á sviði endurhæfingar í skilningi laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, sem veitir þverfaglega einstaklingsmiðaða endurhæfingu fyrir hreyfihamlaða einstaklinga, sem glíma við tauga- og heilaskaða, í samræmi við samþykktir um reksturinn sem stjórn Sjálfsbjargar setur að tillögu stjórnar heilbrigðisþjónustufélagsins.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm aðalmönnum og tveimur til vara þar sem tryggja skal nauðsynlega og fjölbreytta þekkingu innan stjórnar á stöðu hreyfihamlaðra, á sviði heilbrigðisþjónustu og/eða endurhæfingar og fjárhagslegum rekstri (fjármálum). Tveir stjórnarmanna og einn varamaður skulu kosnir af landsfundi í samræmi við ákvæði c-liðar 13. gr. Aðrir stjórnarmenn skulu tilnefndir af stjórn Sjálfsbjargar á fyrsta stjórnarfundi eftir landsfund. Formaður stjórnar Sjálfsbjargar skal þá án tafar hlutast til um boðun stjórnarfundar félagsins þar sem stjórnin skiptir m.a. með sér verkum og kýs a.m.k. formann og varaformann, Óheimilt er að fleiri en tveir stjórnarmenn í Sjálfsbjörg taki jafnframt sæti í stjórn félagsins.

Fjárreiðum og reikningshaldi félagsins skal haldið aðskildu frá öðru bókhaldi og eignum Sjálfsbjargar. Tekjum og eignum félagsins má einvörðungu verja í þágu starfsemi þess.


3. grein

Félagar í aðildarfélögum Sjálfsbjargar

Félagar í aðildarfélögum Sjálfsbjargar eru hreyfihamlaðir einstaklingar og aðrir fatlaðir eða ófatlaðir einstaklingar. Með kosningarétt á landsfundi Sjálfsbjargar fara þeir félagsmenn sem voru kjörnir fulltrúar á félagsfundum aðildarfélaga og eru orðnir 16 ára á degi landsfundar. Stjórnarmenn þurfa að vera orðnir 18 ára á degi landsfundar.


4. grein

Aðild að Sjálfsbjörg landssambandi hreyfihamlaðra

Aðild að Sjálfsbjörg hafa félög sem byggja á félagsaðild hreyfihamlaðs fólks og játast undir þessi lög. Í félaginu þurfa að vera að lágmarki 10 félagar. Ekki getur verið nema eitt aðildarfélag í hverju bæjar- eða sveitarfélagi, en starfssvæði félags getur náð yfir fleira en eitt sveitarfélag.


5. grein

Inntaka aðildarfélaga

Með inntökubeiðni hvers félags til Sjálfsbjargar skal fylgja afrit af lögum þess, ásamt upplýsingum um stjórn og skrá yfir félagsmenn. Landsfundur Sjálfsbjargar þarf að samþykkja inngönguna að tillögu stjórnar. Nýstofnað aðildarfélag er undanþegið árgjaldi til Sjálfsbjargar fyrsta árið.


6. grein

Skýrslur og gjald til Sjálfsbjargar

Félögin skulu fyrir mars lok ár hvert senda stjórn Sjálfsbjargar skýrslu um starfsemi þeirra fyrir nýliðið ár, rekstrarreikning þess árs, og fjárhagsstöðu í lok ársins, ásamt lögum félagsins hafi þeim verið breytt og uppfærðu félagatali eins og það stóð 1. janúar sama ár.

Félögin skulu halda aðalfund árlega og kjósa sér stjórn (lágmark þrjá stjórnarmenn) og skal tilkynning um stjórnarkjörið berast stjórn Sjálfsbjargar innan mánaðar frá aðalfundi félagsins.

Árgjald aðildarfélaganna til Sjálfsbjargar er ákveðin upphæð á hvern félaga, og skal upphæðin ákvarðast á hverjum landsfundi Sjálfsbjargar fyrir næsta ár. Árgjaldið til Sjálfsbjargar skal greiðast fyrir lok marsmánaðar og miðað skal við tölu félagsmanna 1. janúar það ár.


7. grein

Nánar um aðildarfélög

a. Í nafni aðildarfélags þarf að koma fram heitið Sjálfsbjörg og starfssvæði þess.
b. Aðildarfélögunum er heimilt að starfrækja deildir innan síns starfssvæðis.
c. Hvert aðildarfélag skal starfa að málefnum hreyfihamlaðs fólks á sínu starfssvæði. Að öðru leyti hafa félögin frjálsar hendur um sín innri mál og starf, en þurfa að starfa innan þessara laga Sjálfsbjargar ásamt samþykktum landsfunda þess og stjórnar. Þá þurfa þau að taka þátt í sameiginlegum verkefnum Sjálfsbjargar.
d. Ef aðildarfélag hættir störfum er ekki heimilt að ráðstafa eignum þess án samráðs við stjórn Sjálfsbjargar.

8. grein
Kjörnefnd – framboð
a. Á vegum Sjálfsbjargar skal ávallt starfa 5 manna kjörnefnd og skal hún kjörin á landsfundi. Hlutverk kjörnefndar er að auglýsa á vettvangi samtakanna og taka á móti framboðum og ábendingum um einstaklinga í embætti. Kjörnefnd ber að tryggja að minnsta kosti sé einn frambjóðandi í hvert embætti er kjósa skal um á landsfundi sbr. 13. grein.
b. Framboð til embætta sem kjósa á í á landsfundi ber að tilkynna til kjörnefndarmanns í síðasta lagi 4 vikum fyrir landsfund og skal það vera skriflegt og undirritað af frambjóðanda. Kjörnefnd skal ljúka störfum og kynna frambjóðendur á vefsíðu félagsins eigi síðar en 2 vikum fyrir landsfund. Stjórn Sjálfsbjargar skal kalla kjörnefnd saman til starfa í síðasta lagi 1. febrúar ár hvert.
c. Kynning frambjóðenda skal a.m.k. innihalda nafn, aldur, heimili, netfang, símanúmer og mynd. Nöfn, netföng og símanúmer kjörnefndarmanna skulu tilgreind í fundarboði til landsfundar sem birt er á vefsíðu Sjálfsbjargar ásamt lista yfir nöfn þeirra sem gegna kjörnum embættum, hvenær hver var kjörinn fyrst í embættið og hvaða embætti eru til kjörs.
d. Ef einungis eitt framboð er í embætti á landsfundi er viðkomandi sjálfkjörinn. Ef fleiri en eitt framboð er um embætti skal kosið milli þeirra á landsfundinum og hlýtur sá kjör sem fær flest atkvæði. Fjöldi atkvæða ræður hvort menn verða aðalmenn eða varamenn, nema ef ef varamenn skulu kosnir sérstaklega.

9. grein
Landsfundur – tími, staður og boðun

Landsfundur Sjálfsbjargar fer með æðsta vald í málefnum samtakanna og skal halda hann árlega annað hvort í apríl eða maí mánuði, eftir ákvörðun stjórnar og velur stjórn fundarstað hverju sinni. Til landsfundar skal boða með minnst 10 vikna fyrirvara með netpósti til formanna félaga og birta á vefsíðu Sjálfsbjargar. Jafnframt skal opna svæði á vefsíðunni þar sem sett eru inn jöfnum höndum gögn landsfundar.

10. grein
Landsfundur – fulltrúar
a. Landsfund Sjálfsbjargar sitja fulltrúar aðildarfélaganna, sem kosnir eru á lögmætum félagsfundi. Hvert félag hefur rétt til að kjósa einn landsfundarfulltrúa fyrir hverja 40 félaga eða brot af 40. Þó hafa félög, sem í eru 40 félagar eða færri, rétt til að kjósa 2 fulltrúa á landsfundinn. Kosning fulltrúa fari fram eftir félagatali eins og það stóð 1. janúar ár hvert.
b. Kosning fulltrúa og varafulltrúa á landsfund Sjálfsbjargar skal fara fram á félagsfundi aðildarfélags, skriflega og vera bundin við uppástungur. Fundurinn skal vera sannanlega boðaður með a.m.k. þriggja sólarhringa fyrirvara og skal kosninganna getið í fundarboði. Hver fulltrúi skal á landsfundi Sjálfsbjargar framvísa kjörbréfi undirrituðu af formanni og ritara aðildarfélags.
Niðurstöðu kosningar fulltrúa aðildarfélags á landsfund Sjálfsbjargar skal tilkynna stjórn Sjálfsbjargar eigi síðar en 4 vikum fyrir landsfund Sjálfsbjargar.
c. Aldrei skal þó eitt aðildarfélag hafa fleiri fulltrúa á landsfundi en þriðjung heildarfjölda aðalfundarfulltrúa.

11. grein
Landsfundur – framsetning efnis

Stefnt skal að því að minnst 2 vikum fyrir landsfund Sjálfsbjargar (eða fyrr ef lög segja svo) skal eftirfarandi efni tengt landsfundinum vera komið inn á vefsíðu Sjálfsbjargar og uppfært eftir því sem nær dregur fundi.
a. Drög að dagskrá landsfundar.
b. Drög að skýrslu stjórnar.
c. Drög að ársreikningi Sjálfsbjargar
d. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár og næsta ár.
e. Tillaga að árgjaldi.
f. Drög að starfsáætlun Sjálfsbjargar til 2 ára.
g. Tillögur til lagabreytinga.
h. Drög að ályktunum.
i. Tillögur frá stjórn, nefndum, eða einstökum félögum.
j. Kynningu á frambjóðendum sem eru í kjöri á landsfundinum.

12. grein
Landsfundur – dagskrá
Stjórn Sjálfsbjargar gerir tillögu að dagskrá landsfundar og skal hún lögð fram og samþykkt í upphafi landsfundar. Eftirfarandi dagskrárliðir skulu a.m.k. vera á dagskrá allra landsfunda:
a. Setning landsfundar.
b. Inntaka nýrra aðildarfélaga.
c. Skýrsla stjórnar fyrir síðasta almanaksár kynnt og rædd.
d. Endurskoðaður ársreikningur Sjálfsbjargar fyrir síðasta ár kynntur, ræddur og afgreiddur.
e. Skýrsla og ársreikningur heilbrigðisþjónustufélags Sjálfsbjargar, sbr. e-lið 2. gr., fyrir síðasta ár kynnt.
f. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár og næsta ár kynnt, rædd og afgreidd.
g. Ákvörðun um árgjald.
h. Ályktanir, stefnumál og baráttumál kynnt, rædd og afgreidd.
i. Lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar.
j. Kosningar.
k. Önnur mál.
l. Slit landsfundar.

13. grein
Landsfundur – kosningar

Árlega skulu kosningar á landsfundi vera eins og hér segir í eftirfarandi embætti:
a. Formann stjórnar Sjálfsbjargar, gjaldkera, einn meðstjórnanda, og einn varamann skal kjósa til tveggja ára sama árið.
b. Varaformann, ritara og einn varamann skal kjósa til tveggja ára hitt árið. Í fyrsta skipti sem fimm manna stjórn Sjálfsbjargar er kosin skulu þessir stjórnarmenn kosnir til eins árs.
c. Stjórnarmaður til tveggja ára og einn varamaður til eins árs í stjórn félagsins sem rekur endurhæfingarstarfsemi Sjálfsbjargar, sbr. e-lið 2. gr. Í fyrsta skipti skulu tveir stjórnarmenn kosnir, annar til tveggja ára og hinn til eins árs.
d. Í kjörnefnd skulu tveir kjörnir annað árið og þrír hitt árið.
e. Ætíð skal formaður félagsins vera hreyfihamlaður auk þess skal meirihluti stjórnarmanna. Þá skal að minnsta kosti annar varamanna í stjórn félagsins vera hreyfihamlaður.
f. Stjórn skal leggja til hvaða aðrar nefndir skulu starfa í Sjálfsbjörg hverju sinni, fjölda nefndarmanna, hvort stjórn skipar nefndarmenn eða hvort kjósa skal í þær til eins árs eða tveggja ára á landsfundi og hvort formann nefndar skal kjósa sérstaklega. Sama á við um fulltrúa Sjálfsbjargar í stjórnum og nefndum sem Sjálfsbjörg tilnefnir fulltrúa í. Þetta skal kynnt á vefsíðu Sjálfsbjargar 4 vikum fyrir landsfund.
g. Fulltrúar sem kosnir eru á landsfundi Sjálfsbjargar sem aðalmenn í stjórn og nefndir fyrir hönd eða á vegum Sjálfsbjargar, skulu ekki sitja í sömu stjórn eða nefnd lengur en 6 ár samfellt. Sá sem kosinn er formaður Sjálfsbjargar getur þó setið í 6 ár þrátt fyrir að hann hafi setið í stjórn Sjálfsbjargar í öðru embætti en formanns.

14. grein
Landsfundur – lögmæti og fyrirkomulag
a. Landsfundur skal hefjast á fundarsetningu og kjöri fundarstjóra og fundarritara sem ritar fundargerð. Þeir skulu fara yfir og staðfesta fundargerð með undirritun sinni.
b. Landsfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.
c. Kosning er lögmæt ef að lágmarki 2/3 landsfundarfulltrúa eru á fundi.
d. Fulltrúar á landsfundi með kosningarétt geta aðeins verið félagsmenn samkvæmt félagatali sbr. 3. grein.
e. Starfsmenn Sjálfsbjargar hafa málfrelsi og tillögurétt á landsfundi.
f. Landsfundur getur samþykkt að veita einstaklingum heimild til að sitja landsfund sem áheyrnarfulltrúar, eftir atvikum með málfrelsi og tillögurétti.
g. Allar kosningar á landsfundi Sjálfsbjargar skulu vera samkvæmt framkomnum tillögum og skriflegar.
h. Á fundinum gilda almenn fundarsköp og ræður meirihluti greiddra atkvæða niðurstöðu nema um lagabreytingar þá þarf 2/3 greiddra atkvæða.
i. Sjálfsbjörg verður lögð niður með samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða á landsfundi. Verði Sjálfsbjörg lögð niður skulu eignir samtakanna renna til réttinda- og hagsmunamála hreyfihamlaðs fólks á Íslandi í samræmi við tilgang samtakanna og ákvörðun landsfundar.
j. Stjórn getur ákveðið að fulltrúar á landsfundi geti tekið þátt í landsfundi rafrænt, þ.m.t. greitt atkvæði, án þess að vera á staðnum, enda séu notaðar aðferðir sem tryggja þátttöku fulltrúa og að þeir geti farið með réttindi sín á fundinum lögum samkvæmt.

15. grein
Landsfundur – tillögur
Álit, ályktanir og tillögur til lagabreytinga, er stjórn ætlar að leggja fyrir landsfund Sjálfsbjargar, skal birta á vefsíðu Sjálfsbjargar eigi síðar en 4 vikum fyrir landsfund.

Mál þau og tillögur, er aðildarfélögin óska að verði tekin fyrir á landsfundi, skal senda stjórn eigi síðar en 4 vikum fyrir landsfund og skulu þær þá birtar á vefsíðu Sjálfsbjargar. Tillögur er varða fjárhags- og skipulagsbreytingar, skal þó senda stjórn 8 vikum fyrir landsfund. Stjórn skal kynna tillögur um fjárhags- og skipulagsbreytingar sem leggja á fyrir landsfund ásamt umsögn sinni 4 vikum fyrir landsfund á vefsíðu Sjálfsbjargar.

16. grein
Stjórn Sjálfsbjargar
a. Stjórn stýrir starfsemi Sjálfsbjargar og annast málefni samtakanna og hefur eftirlit með rekstri þeirra á milli landsfunda og í umboði hans en ekki einstakra aðildarfélaga. Hún framkvæmir ákvarðanir sem landsfundur samþykkir hverju sinni og skal hafa frumkvæði að mótun stefnu Sjálfsbjargar. Stjórn kemur fram út á við fyrir hönd samtakanna og ritar firma þess. Stjórn getur veitt meiri hluta stjórnarmanna heimild til ritunar firma samtakanna. Stjórn hefur umsjón með eignum Sjálfsbjargar og gætir hagsmuna félagsins á allan hátt.
b. Stjórn skal skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum. Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi sem allir skulu kjörnir sérstaklega. Stjórn skal setja sér starfsreglur.
c. Stjórn boðar til landsfundar Sjálfsbjargar, ákveður tímasetningu hans, staðsetningu og undirbýr hann.
d. Stjórn heldur reglulega fundi að jafnaði mánaðarlega (utan júlí og ágúst mánaða) og er heimilt að fundarmenn sitji fundinn í gegnum fjarfundabúnað. Varamenn fá öll fundargögn send og er heimilt að sitja stjórnarfundi án atkvæðaréttar, en taka sæti stjórnarmanns ef forföll verða.
e. Stjórnarfundur er löglegur ef meirihluti stjórnar situr fund og allir hafa verið sannanlega boðaðir.
f. Meirihluti atkvæða stjórnarmanna ræður úrslitum komi til kosninga á stjórnarfundum. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.
g. Stjórn skal boða til a.m.k. tveggja formannafunda á kjörtímabilinu. Fundinn sitja formenn aðildarfélaga eða fulltrúar þeirra ásamt stjórn Sjálfsbjargar. Efni fundarins eru málefni samtakanna ár hvert. Formannafundur hefur ekki stjórnskipunarvald en getur samþykkt ályktanir.
h. Stjórn er jafnframt heimilt að boða til almenns félagsfundar eða málþinga á milli landsfunda ef hún telur ástæðu til.

Stjórn er skylt að boða til almenns félagsfundar að kröfu minnst þriðjungs formanna aðildarfélaga Sjálfsbjargar í þeim tilgangi að taka ákveðið mál til meðferðar. Kröfu um félagsfund skal senda stjórn samtakanna skriflega og greina fundarefni. Stjórn skal boða til félagsfundarins án tafar sem skal haldinn innan fjögurra vikna frá boðun. Boða skal til fundarins með netpósti til formanna aðildarfélaganna og birtingu á vefsíðu Sjálfsbjargar, sbr. 9. gr.
i. Stjórn er heimilt að skipa nefndir til að sinna einstökum afmörkuðum verkefnum fyrir Sjálfsbjörg á milli landsfunda og setur þeim starfslýsingu.
j. Stjórn tilnefnir fulltrúa Sjálfsbjargar til setu á landsfundi ÖBÍ ásamt jafn mörgum til vara. Ákvörðun stjórnar í þessu efni er bindandi.
k. Stjórn tilnefnir árlega fyrir landsfund þriggja manna Starfskjaranefnd og skal landsfundur staðfesta tilnefninguna. Nefndin ákveður og uppfærir kjör formanns og stjórnarmanna Sjálfsbjargar og heilbrigðisþjónustufélagsins skv. e-lið 2. gr. í kjölfar landsfunda.
l. Fundargerð skal rita á fundum og skulu þær birtar á vefsíðu félagsins svo fljótt sem verða má.
m. Reynt skal að tryggja sem jafnasta kynjaskiptingu í stjórn, nefndum og á skrifstofu Sjálfsbjargar. Jafnframt skal stefnt að því að ekki sé minna en helmingur starfsfólks Sjálfsbjargar hreyfihamlað. Eins skal stefnt að því að hlutfall fulltrúa í nefndum og stjórnum sé sem jafnast á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins.

17. grein
Starfsfólk Sjálfsbjargar

a. Stjórn ræður framkvæmdastjóra Sjálfsbjargar og ákveður laun hans og starfskjör.
b. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á og stýrir daglegum rekstri og fjármálum Sjálfsbjargar. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Hann ræður aðra starfsmenn. Framkvæmdastjóri getur komið fram fyrir hönd félagsins í málum sem eru innan verksviðs hans.
c. Framkvæmdastjóri getur ekki setið í stjórn Sjálfsbjargar.
d. Framkvæmdastjóri skal gera grein fyrir rekstri Sjálfsbjargar og stöðu á stjórnarfundum, landsfundi og hvenær sem stjórn æskir þess.
e. Stjórnarmenn geta ekki verið starfsmenn samtakanna. Formaður stjórnar Sjálfsbjargar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig. Þóknun fyrir slík verkefni skal ákveðin af starfskjaranefnd.
f. Ávallt skal vera til staðar skýr og skrifleg verkaskipting allra.

18. grein
Fjármál Sjálfsbjargar

Fjárhagsgrundvöllur Sjálfsbjargar skal byggður á félagsgjöldum almennra félaga Sjálfsbjargar, framlögum styrktarfélaga, meðal annars hollvina, framlögum opinberra aðila, styrkjum, og almennri fjáröflun, eignum og rekstri.

Sjálfsbjörg greiðir allan kostnað er tengist rekstri félagsins og skal stjórn setja almennar reglur um greiðsluþátttöku varðandi ferðakostnað og uppihald stjórnarmanna og félagsmanna vegna þátttöku á fundum innan- og utanlands og skal leggja þær til samþykktar á landsfundi.

19. grein
Ársreikningur, endurskoðun og reikningsár
Reikningsleg endurskoðun bókhalds og ársreikninga Sjálfsbjargar skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda. Stjórn ásamt framkvæmdastjóra staðfestir ársreikning Sjálfsbjargar með áritun sinni. Ársreikningurinn skal síðan lagður fyrir landsfund til fullnaðarafgreiðslu. Reikningsár Sjálfsbjargar er almanaksárið.

20. grein
Gildistími laga
Lög þessi eru samþykkt á landsfundi Sjálfsbjargar 2022 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eldri lög Sjálfsbjargar.

Þannig samþykkt á landsfundi Sjálfsbjargar þann 30. apríl 2022