Háskólar

Háskólar

Á þessari vefslóð er búið að taka saman upplýsingar um réttindi og úrræði sem boðið er upp á við íslenska háskóla.

Hér er yfirlit yfir háskóla á Íslandi.

Háskólinn á Akureyri

Sólborg, Norðurslóð 2 | 600 Akureyri | 460 8000 |unak@unak.is| Vefsíða Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Akureyri leggur áherslu á að tryggja nemendum og starfsfólki jafnan og greiðan aðgang að námi og starfi. Stefna háskólans á Akureyri er að byggja upp og tryggja að náms- og starfsumhverfi sé styðjandi og í anda jafnréttissjónarmiða. Markmiðið er að gera háskólaumhverfið aðgengilegt og vinna að því að styrkja jákvæð viðhorf og vinnubrögð til að draga úr aðstöðumun.
Í sérstökum undantekningartilvikum áskilur háskólinn sér rétt til að synja nemanda um úrræði liggi fyrir að innihald, uppbygging eða framsetning þess náms sem nemandinn hefur valið sé þess eðlis að fyrirsjáanlega sé honum ókleift að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í náminu. HA getur einnig synjað nemanda um úrræði ef skólinn telur ógerlegt að veita þau úrræði sem talin eru nauðsynleg til að nemandinn geti stundað námið, svo sem að útvega aðstöðu eða aðstoðarfólk. Sérúrræði HA eru nemendum að kostnaðarlausu.

Dæmi um þjónustu sem fatlað fólk á rétt á í háskólanum er að almennur aðbúnaður í húsnæði háskólans sé í samræmi við lög og þarfir nemenda. Að fatlaðir nemendur fái tækniaðstoð vegna almennrar tölvunotkunar innan kerfis háskólans, aðgang að búnaði og tækniaðstoð vegna skönnunar námsefnis inn í tölvur.  Einnig er veitt aðstoð við að nota þjónustu bókasafns háskólans svo sem við heimildaleit, ljósritun, þjónustu gagnasmiðju og notkun sérhæfðra forrita eins og lesvélar. Nemandi á rétt á aðstoðarfólki eftir því sem við á, glósuaðstoð og hljóðritaða fyrirlestra.
Sértæk einstaklingsbundin aðstoð vegna próftöku er í boði og má þar nefna próftöku á tölvu, próftöku í fámennisstofu/einkarými, hvíld í prófi án skerðingar á próftíma, sérhæfðan tækjabúnað í prófstofum, ritara í prófi og innlesin próf.

Nemendur sem hafa 75% örorkumat fá 50% afslátt af skráningargjöldum við Háskólann á Akureyri gegn staðfestingu á örorkumatinu.

Háskólinn á Bifröst

311 Borgarnes | 433 3000 | bifrost@bifrost.is | Vefsíða Háskólans á Bifröst

Hjá Háskólanum á Bifröst er leitast við að jafna aðstöðu og tækifæri til náms með sérúrræðum fyrir nemendur með sérþarfir, námsúrræðum og prófúrræðum. Nemendur geta fengið stuðningsviðtöl hjá námsráðgjafa og þar er boðið upp á námskeið um vinnulag og viðhorf. Hægt er að fá námsefnið skannað inn á tölvu og talgervil en glærur úr öllum fyrirlestrum eru aðgengilegar á rafrænu formi. Það er veittur aukinn sveigjanleiki hvað varðar námsframvindu.

Í prófum er hægt að fá lengri próftíma, en við hvern klukkutíma er bætt við 15 mínútum. Flest próf eru tekin í gegnum tölvur. Nemendur eiga kost á að fá meira næði, sérstofu ef nemandi er með lengri próftíma og mögulega einveru ef nauðsyn krefur. Prófblöðin geta verið stækkuð eða lituð, hægt er að fá munnleg próf og hvíld í prófi án skerðingar á próftíma.

Hólaskóli - Háskólinn á Hólum

Hólum | 551 Sauðárkróki | 455 6300 | holaskoli@holar.is | Vefsíða Hólaskóla

Námsráðgjafar Hólaskóla veita ráðgjöf um vinnubrögð í háskólanámi þar sem farið er yfir markmiðs- og áætlanagerð, námstækni, lífstíl og venjur. Einnig hafa þeir úrræði vegna námserfiðleika og vegna próftöku.
Varðandi persónulega ráðgjöf og stuðning þá veitir námsráðgafi slíkt ef um er að ræða tímabundna erfiðleika, streitu og kvíða og er í sambandi við sérfræðinga í sértækum málum.
Þegar kemur að ráðgjöf vegna náms og starfsvals gerir námsráðgjafi mat og greiningu á náms- og starfshæfni, hjá honum er hægt að taka áhugasviðsgreiningarprófið Strong og hann aðstoðar við gerð ferilsrár og starfsumsókna.

Háskóli Íslands

Sæmundargötu 2 | 101 Reykjavík | 525 4000 | hi@hi.is | Vefsíða Háskóla Íslands

Í gegnum náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands er nemendum veittur margs konar stuðningur og þjónusta meðan á námi stendur. Má þar nefna ráðgjöf um námsval, vinnubrögð og úrræði vegna fötlunar og sérþarfa. Þau úrræði sem í boði eru fyrir fatlaða nemendur eru: val um aðgengilegt húsnæði, að fá aðstoðarmann, glósuvin og hljóðupptöku af fyrirlestrum. Hægt er að fá kennslubækur skannaðar inn og sérstaka aðstoð á bókasöfnum. Fatlaðir nemendur hafa aðgang að vinnuaðstöðu á aðgangssetri.

Í prófum geta þeir sem þess þurfa fengið púlt, stillanlegan stól í prófum og lengdan próftíma.  Námsmaðurinn getur haft ritara í prófum, tekið próf í tölvu og fengið hvíld án þess að það skerði próftímann.

Háskóla Íslands er heimilt að veita nemendum með örorku afslátt af skrásetningargjaldi.

Nemendum Háskóla Íslands býðst sálfræðiþjónusta fyrir sig og börn sín.

Á Stúdentagörðum eru íbúðir sem eru sniðnar með þarfir fatlaðs fólks í huga.

Háskólinn í Reykjavík

Menntavegi 1 | 101 Reykjavík | 599 6200 | hr@hr.is | Vefsíða Háskólans í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík kemur til móts við þarfir fatlaðra nemenda og er nemendum bent á að leita til námsráðgjafa.

Landbúnaðarháskóli Íslands

Hvanneyri | 311 Borgarnes |433 5000 | askell@lbhi.is | Vefsíða Landbúnaðarháskólans

Í Landbúnaðarháskóla Íslands er í boði ráðgjöf og úrræði vegna fötlunar og sértækra námsörðugleika ásamt ýmsum úrræðum í námi og próftöku. Námsráðgjafi veitir ráðgjöf, heldur námskeið og hjá honum er hægt að taka áhugasviðspróf.

Listaháskóli Íslands

Þverholti 11 | 105 Reykjavík |552 4000 | lhi@lhi.is | Vefsíða Listaháskóla Íslands

Í Listaháskóla Íslands eru fimm deildir og 17 námsbrautir. Deildirnar eru Hönnunar- og arkitektúradeild, myndlistardeild, leiklistardeild, tónlistardeild og listkennsludeild.


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Til baka

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér