Lög Sjálfsbjargar

Lög Sjálfsbjargar

Samþykkt á Landsfundi Sjálfsbjargar þann 26. apríl 2025

Pdf útgáfa af lögunum

Word-útgáfa af lögunum með efnisyfirliti

1. kafli. Nafn, heimili og hlutverk

1. gr. Nafn, heimili og aðildarfélög

1.1. Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra, hér eftir nefnt Sjálfsbjörg, er frjálst og óháð félagasamband myndað af félögum hreyfihamlaðs fólks.

1.2. Starfssvæði Sjálfsbjargar er Ísland.

1.3. Heimili og varnarþing Sjálfsbjargar er í Reykjavík. Heimilisfang Sjálfsbjargar er á skrifstofu félagsins.

1.4. Sjálfsbjörg getur átt aðild að samtökum, innlendum eða erlendum samkvæmt tillögu stjórnar og þarf hún samþykki landsfundar til að öðlast gildi.

2. gr. Hlutverk og leiðarljós

2.1. Hlutverk Sjálfsbjargar er að vinna að fullkominni þátttöku, endurhæfingu og jafnrétti hreyfihamlaðs fólks á Íslandi, og eftir atvikum annarra fatlaðra, og gæta réttinda og hagsmuna þess.

2.2. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós í vinnu Sjálfsbjargar.

3. gr. Markmið og starfsemi

Markmið Sjálfsbjargar og helstu verkefni í þágu hlutverks Sjálfsbjargar eru:

  1. Tryggja hreyfihömluðu fólki sem öðrum aðgengi að mannvirkjum, umhverfi, menntun, atvinnu, þjónustu og upplýsingum.
  2. Fræða, valdefla og styðja hreyfihamlað fólk um allt er varðar stöðu þess í samfélaginu, meðal annars í samstarfi við aðildarfélög Sjálfsbjargar.
  3. Vinna að því að efla og jafna heilbrigðis- og félagsþjónustu við hreyfihamlað fólk.
  4. Vekja athygli almennings, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á málefnum hreyfihamlaðs fólks með fræðslu, útgáfu- og kynningarstarfsemi um hreyfihömlun, aðgengismál og önnur málefni hreyfihamlaðra.
  5. Tala fyrir og vinna að framgangi hagsmuna- og réttindamála hreyfihamlaðs fólks meðal annars gagnvart Alþingi, stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins, félögum, fyrirtækjum og öðrum.
  6. Eiga samvinnu við stjórnvöld og aðra aðila, innlenda eða erlenda, í samræmi við hlutverk Sjálfsbjargar.
  7. Fjáröflun frá opinberum aðilum, lögaðilum og einstaklingum í þágu starfsemi Sjálfsbjargar meðal annars til skilgreindra verkefna og málefnastarfs.
  8. Að reka í sérstöku félagi og aðgreindu frá rekstri Sjálfsbjargar, heilbrigðisstofnunina Kjark endurhæfingu, í samræmi við 9. kafla laga þessara.

2. kafli. Skipulag og aðild

4. gr. Lýðræðislegt skipulag

4.1. Sjálfsbjörg er sjálfstæður lögaðili og skráð sem félagasamtök í fyrirtækjaskrá.

4.2. Stjórn kosin á landsfundi fer með stjórn, stefnumótun og málefni Sjálfsbjargar milli landsfunda.

4.3. Framkvæmdastjóri ráðinn af stjórn annast daglegan rekstur Sjálfsbjargar, stýrir skrifstofu og ræður starfsfólk Sjálfsbjargar í samræmi við stefnumörkun stjórnar.

4.4. Formannafundur er samráðsvettvangur formanna aðildarfélaganna og stjórnar Sjálfsbjargar.

4.5. Landsfundur er vettvangur aðildarfélaga Sjálfsbjargar til að fara með ákvörðunarvald sitt í málefnum Sjálfsbjargar og fer með æðsta vald landssambandsins.

5. gr. Fjárhagsgrundvöllur

5.1. Sjálfsbjörg er ekki rekin í hagnaðarskyni og aðild að Sjálfsbjörg fylgja engin fjárhagsleg réttindi.

5.2. Rekstur Sjálfsbjargar skal tryggður með árgjöldum aðildarfélaga, framlögum og styrkjum frá opinberum aðilum og öðrum styrktaraðilum, fjáröflun Sjálfsbjargar, húsaleigutekjum af húsnæði sem Sjálfsbjörg á og rekur, og eftir atvikum öðrum tekjum af rekstri og greiðslum fyrir þjónustu sem Sjálfsbjörg veitir opinberum aðilum og öðrum samkvæmt samningum.

5.3. Aðildarfélög Sjálfsbjargar bera ekki ábyrgð á skuldum og öðrum skuldbindingum Sjálfsbjargar nema með árgjaldi sínu.

5.4. Tekjum Sjálfsbjargar skal ráðstafað í samræmi við hlutverk Sjálfsbjargar. Sjálfsbjörg greiðir kostnað er tengist rekstri Sjálfsbjargar og kostnað vegna þátttöku fulltrúa aðildarfélaga á landsfundi samkvæmt nánari reglum sem stjórn setur í samræmi við 43. gr.

5.5. Viðskipti með eignir Sjálfsbjargar skulu ávallt vera á grundvelli markaðsvirðis á hverjum tíma. Afsal eða kaup fasteignar eða annarrar eignar sem þýðingu hefur fyrir rekstur Sjálfsbjargar þarf samþykki landsfundar.

6. gr. Aðildarfélög

6.1. Félög hreyfihamlaðs fólks og annarra með aðra fötlun eða ekki, sem starfa að málefnum hreyfihamlaðs fólks á sínu starfssvæði í samræmi við hlutverk Sjálfsbjargar, geta fengið aðild að Sjálfsbjörg.

6.2. Ekki getur verið nema eitt aðildarfélag í hverju sveitarfélagi en starfssvæði félags getur náð yfir fleiri en eitt sveitarfélag.

  1. gr. Skilyrði aðildar

Skilyrði aðildar að Sjálfsbjörg eru:

  1. Tilgangur og starfsemi félags skal vera í þágu réttinda og hagsmunamála hreyfihamlaðs fólks á starfssvæði þess í samræmi við hlutverk Sjálfsbjargar.
  2. Félagið skal ekki rekið í hagnaðarskyni og aðild að því skulu ekki fylgja fjárhagsleg réttindi.
  3. Í lögum félagsins skal koma skýrt fram að framlögum til félagsins og eignum þess verði eingöngu ráðstafað í þágu fyrrnefnds tilgangs, sbr. 1. tl., og líka ef það hættir störfum.
  4. Félagið skal vera lýðræðislega uppbyggt og félagar skulu vera að lágmarki tíu.
  5. Félagið skal hafa starfað í þrjú heil reikningsár.
  6. Félagið skal vera lagalega og fjárhagslega sjálfstætt gagnvart öðrum félögum.

8. gr. Umsókn um aðild

8.1. Umsókn um aðild skal berast skrifstofu Sjálfsbjargar hið minnsta þremur mánuðum fyrir landsfund.

8.2. Með inntökubeiðni skal fylgja:

  1. Afrit af lögum félagsins.
  2. Afrit af endurskoðuðum ársreikningum þriggja síðustu ára.
  3. Skrá yfir nöfn stjórnarmanna og þeirra sem eru í trúnaðarstörfum í félaginu.
  4. Félagatal, sem hefur að geyma nöfn félagsmanna, kennitölur, heimilisföng þeirra og netföng.

9. gr. Meðferð aðildarumsóknar

9.1. Aðildarumsókn skal borin undir stjórn Sjálfsbjargar. Ef umsóknin fullnægir öllum skilyrðum laga Sjálfsbjargar skal stjórnin gera tillögu til landsfundar um samþykki hennar. Synjun umsóknar samkvæmt ákvæði þessu verður ekki lögð fyrir landsfund.

9.2. Inntaka nýrra aðildarfélaga samkvæmt samþykkt landsfundar tekur gildi við slit landsfundar.

10. gr. Réttindi aðildarfélaga og félagsfólks þeirra

Helstu réttindi aðildarfélaga og félagsfólks þeirra eru:

  1. Þátttaka í öllu starfi Sjálfsbjargar.
  2. Kjörgengi félagsfólks aðildarfélaga í trúnaðarstörf hjá Sjálfsbjörg.
  3. Þátttaka á landsfundi með tillögurétti aðildarfélaga og fulltrúa þeirra á landsfundi og atkvæðisrétti landsfundarfulltrúa.
  4. Aðgangur að þjónustu og fræðslu Sjálfsbjargar samkvæmt gildandi reglum á hverjum tíma.
  5. Réttur til að sækja um styrki Sjálfsbjargar samkvæmt gildandi reglum á hverjum tíma.

11. gr. Greiðsla árgjalds og aðrar skyldur aðildarfélaga.

Aðildarfélögum ber að:

  1. Greiða árgjald til Sjálfsbjargar sem er ákveðin upphæð á hvern félagsmann sem landsfundur ákveður fyrir næsta ár. Árgjaldið skal greiðast fyrir lok mars ár hvert og miða við tölu félagsmanna 1. janúar það ár.
  2. Uppfylla aðildarskilyrði 7. gr. svo lengi sem aðildin varir.
  3. Láta koma fram í nafni félagsins heitið Sjálfsbjörg og starfssvæði þess. Sjálfsbjörg og starfssvæði þess skal vera fremst í nafni félagsins, og þar á eftir félag hreyfihamlaðra, ef félagið kýs svo.
  4. Starfa að réttinda- og hagsmunamálefnum hreyfihamlaðs fólks á sínu starfssvæði og innan laga Sjálfsbjargar, samþykkta landsfundar og stjórnar. Taka þátt í sameiginlegum verkefnum Sjálfsbjargar. Að öðru leyti hafa félögin frjálsar hendur um sín innri mál og starf.
  5. Halda aðalfund árlega og kjósa stjórn (lágmark þrjá stjórnarmenn).
  6. Senda skrifstofu Sjálfsbjargar í síðasta lagi innan mánaðar frá aðalfundi:
    1. Lista yfir stjórnarmenn og þau sem skipa trúnaðarstöður fyrir félagið.
    2. Ársskýrslu og ársreikning samþykktan á aðalfundi.
    3. Lög félagsins hafi þeim verið breytt.
  7. Senda skrifstofu Sjálfsbjargar í síðasta lagi fyrir lok janúar ár hvert uppfært félagatal eins og það stóð 1. janúar sama ár.
  8. Upplýsa skrifstofu Sjálfsbjargar ef félaginu er slitið um ráðstöfun eigna félagsins til réttinda- og hagsmunamála hreyfihamlaðs fólks á Íslandi í samræmi við tilgang félagsins.

3. kafli. Úrsögn og brottvikning

  1. gr. Úrsögn

12.1. Aðildarfélag getur sagt sig úr Sjálfsbjörg. Skrifleg úrsögn skal berast skrifstofu Sjálfsbjargar sem undirrituð er af meirihluta stjórnar félagsins og tekur hún þá þegar gildi.

12.2. Hafi vanskil á gögnum samkvæmt 11. gr. staðið í þrjú ár samfellt telst félagið hafa sagt sig úr Sjálfsbjörg.

12.3. Aðildarfélag sem segir sig úr Sjálfsbjörg á ekki tilkall til hlutdeildar í eignum Sjálfsbjargar.

13. gr. Brottvikning

13.1. Landsfundur getur vikið aðildarfélagi úr Sjálfsbjörg ef það:

  1. Vinnur gegn hagsmunum Sjálfsbjargar, hlutverki landssambandsins og tilgangi.
  2. Gegnir ekki skyldum sínum samkvæmt lögum þessum.
  3. Brýtur gegn samþykktum landsfundar eða stjórnar.

13.2. Landsfundur tekur ákvörðun um brottvikningu að tillögu stjórnar og þarf til þess samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða landsfundarfulltrúa.

13.3. Stjórn skal tilkynna stjórn aðildarfélags um fyrirhugaða brottvikningu í síðasta lagi fjórum vikum fyrir landsfundinn þar sem tillaga þar um verður lögð fram. Í tilkynningunni ber að greina frá ástæðum þess og eftir atvikum nánari skýringum.

13.4. Aðildarfélag sem gerð hefur verið tillaga um til landsfundar að verði vikið úr Sjálfsbjörg getur komið andmælum sínum á framfæri á landsfundi þegar fjallað er um brottvikningartillöguna.

13.5. Aðildarfélag sem vikið er úr Sjálfsbjörg á ekki tilkall til hlutdeildar í eignum Sjálfsbjargar.

4. kafli. Landsfundur

14. gr. Landsfundur

14.1. Landsfundur fer með æðsta vald í málefnum Sjálfsbjargar.

14.2. Aðildarfélögin fara með ákvörðunarvald sitt í málefnum Sjálfsbjargar á landsfundi og tilnefna til þess landsfundarfulltrúa með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt.

14.3. Landsfundur skal haldinn árlega í apríl eða maí mánuði. Boði stjórn ekki til árlegs landsfundar á hvert aðildarfélag rétt á að krefjast þess að landsfundur verði haldinn.

14.4. Stjórn Sjálfsbjargar getur ákveðið að landsfundarfulltrúar geti tekið þátt í landsfundi rafrænt, þar með talið greitt atkvæði án þess að vera á staðnum, enda séu notaðar aðferðir sem tryggja þátttöku fulltrúa og að þeir geti farið með réttindi sín á fundinum lögum þessum samkvæmt.

  1. gr. Framhaldslandsfundur

15.1. Landsfundur getur ákveðið að halda framhaldslandsfund um mál sem ekki tekst að ljúka á landsfundi. Hann skal halda svo fljótt sem verða má þó eigi síðar en fjórum vikum eftir frestun landsfundar.

15.2. Á framhaldslandsfundi er aðeins heimilt að fjalla um þau mál sem voru tilefni þess að ákveðið var að fresta fundi og boða til framhaldslandsfundar.

15.3. Umboð tilnefndra landsfundarfulltrúa samkvæmt 18. gr. tekur einnig til framhaldslandsfunda.

  1. gr. Aukalandsfundur

16.1. Stjórn Sjálfsbjargar getur boðað til aukalandsfundar ef hún telur ástæðu til.

16.2. Stjórn er skylt að boða til aukalandsfundar ef formannafundur eða minnst þriðjungur stjórna aðildarfélaga Sjálfsbjargar krefst þess í þeim tilgangi að taka ákveðið mál til meðferðar. Kröfu um aukalandsfund skal senda stjórn Sjálfsbjargar skriflega og fundarefni tilgreint.

16.3. Stjórn skal boða til fundarins með eins skömmum fyrirvara og aðstæður frekast leyfa en þó aldrei með styttri fyrirvara en einni viku. Reglur um árlega landsfundi gilda eftir því sem við á.

16.4. Umboð tilnefndra landsfundarfulltrúa samkvæmt 18. gr. tekur einnig til aukalandsfunda.

17. gr. Fundarboð og lögmæti landsfundar

17.1. Stjórn boðar til árlegs landsfundar með minnst tveggja mánaða fyrirvara með tölvupósti til formanna aðildarfélaga, eða öðrum sannanlegum hætti, og birtingu fundarboðs á vefsíðu Sjálfsbjargar. Jafnframt skal opna svæði á vefsíðunni þar sem sett eru inn jöfnum höndum gögn landsfundar.

17.2. Fundarstað og fundartíma, sem stjórn ákveður að höfðu samráði við formannafund, skal tilgreina í fundarboði. Tekið skal fram í fundarboði sé fundurinn rafrænn að hluta eða öllu leyti, samanber grein 14.4.

17.3. Dagskrá og fundargögn landsfundar skulu liggja fyrir í síðasta lagi tveimur vikum fyrir árlegan landsfund og birt jafnóðum á vefsíðu Sjálfsbjargar.

17.4. Landsfundur telst löglegur sé boðað til hans með lögmætum hætti.

18. gr. Landsfundarfulltrúar

18.1. Á landsfundi eiga rétt til setu fulltrúar tilnefndir af hverju aðildarfélagi. Landsfundarfulltrúar skulu vera félagsfólk í aðildarfélaginu sem þau eru tilnefnd af.

18.2. Í síðasta lagi sex vikum fyrir árlegan landsfund skulu aðildarfélögin skila til skrifstofu Sjálfsbjargar lista yfir landsfundarfulltrúa og varamenn þeirra.

18.3. Fjöldi fulltrúa hvers aðildarfélags ræðst af eftirfarandi:

  1. Hvert aðildarfélag fær einn fulltrúa fyrir hverja 40 fullgilda félaga, samanber 5. tl., eða byrjaða 40 félaga.
  2. Hvert aðildarfélag fær þó að lágmarki tvo fulltrúa og að hámarki þriðjung heildarfjölda fundarfulltrúa.
  3. Félög sem ekki hafa skilað Sjálfsbjörg félagatali, ársskýrslu, staðfestum ársreikningi eða eru í vanskilum með aðildargjöld, sbr. 6. og 7. tl. 11. gr., fá einn fulltrúa á landsfund.
  4. Hafi vanskil á gögnum varað í þrjú ár samfellt fær félagið engan fulltrúa á landsfund.
  5. Fjöldi fullgildra félaga reiknast eftir gildandi lögum viðkomandi félags. Þó skulu ekki teljast með félagsaðilar sem njóta ekki fullra réttinda sem félagar, svo sem styrktaraðilar.

19. gr. Seturéttur á landsfundi og áheyrnarfulltrúar

19.1. Stjórnarmenn Sjálfsbjargar, stjórnendur sjóða í eigu landssambandsins, nefndarmenn og félagsfólk í málefnahópum Sjálfsbjargar, sem ekki eru tilnefnd landsfundarfulltrúar, hafa seturétt, málfrelsi og tillögurétt á landsfundi.

19.2. Framkvæmdastjórar Sjálfsbjargar og Kjarks hafa seturétt, málfrelsi og tillögurétt.

19.3. Endurskoðandi Sjálfsbjargar hefur seturétt og málfrelsi á landsfundi Sjálfsbjargar þar sem fjallað er um ársreikninga Sjálfsbjargar.

19.4. Frambjóðendur til trúnaðarstarfa á landsfundi sem ekki eru landsfundarfulltrúar hafa seturétt, málfrelsi og tillögurétt.

19.5. Landsfundur getur samþykkt að veita öðrum heimild til að sitja landsfund sem áheyrnarfulltrúar að tillögu stjórnar Sjálfsbjargar, aðildarfélags eða landsfundarfulltrúa. Áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt.

20. gr. Setning landsfundar, fundarstjóri, fundarritari og fundargerð

20.1. Landsfundi er stjórnað af fundarstjóra samkvæmt almennum fundarsköpum.

20.2. Formaður stjórnar eða annar, sem stjórnin tilnefnir setur fundinn, og stjórnar kjöri fundarstjóra.

20.3. Fundarstjóri skal láta kjósa fundarritara, sem ritar fundargerð, og tvo landsfundarfulltrúa til að fara yfir og staðfesta fundargerð ásamt fundarritara og fundarstjóra að fundi loknum með undirritun sinni. Í fundargerð skal skrá ákvarðanir landsfundar ásamt úrslitum atkvæðagreiðslna.

20.4. Skrifstofa Sjálfsbjargar skal birta fundargerðina á vefsíðu Sjálfsbjargar í síðasta lagi innan tveggja vikna frá landsfundi.

21. gr. Dagskrá landsfundar

Á landsfundi skal taka eftirfarandi mál til meðferðar og afgreiðslu:

A. Almenn fundarstörf:

  1. Kosning fundarstjóra, fundarritara og tveggja landsfundarfulltrúa til að fara yfir fundargerð.
  2. Skýrsla stjórnar fyrir síðasta almanaksár.
  3. Endurskoðaður ársreikningur Sjálfsbjargar.
  4. Skýrsla stjórnar og endurskoðaður ársreikningur Kjarks endurhæfingar.
  5. Skýrslur aðildarfélaga.
  6. Skýrslur og samantektir sjóða, nefnda og málefnahópa
  7. Starfs- og fjárhagsætlun fyrir yfirstandandi ár og næsta ár.
  8. Ákvörðun um árgjald.
  9. Þóknun fyrir stjórnarsetu í Sjálfsbjörg.
  10. Aðildarumsóknir.
  11. Lagabreytingar

B. Kosningar í stjórn samkvæmt grein 28.4. til tveggja ára:

  1. Kosning formanns.
  2. Kosning varaformanns.
  3. Kosning gjaldkera.
  4. Kosning ritara.
  5. Kosning meðstjórnanda.
  6. Kosning varamanns.

C. Kosningar í stjórn Kjarks samkvæmt grein 42.2 til tveggja ára:

  1. Kosning stjórnarmanns í stjórn Kjarks til tveggja ára.
  2. Kosning varamanns í stjórn Kjarks til tveggja ára.

D. Kosningar í kjörnefnd samkvæmt grein 23.1.:

20. Kosning tveggja kjörnefndarmanna til tveggja ára.

21. Kosning eins kjörnefndarmanns til tveggja ára.

22. Kosning varamanns í kjörnefnd til eins árs.

E. Aðrar kosningar:

23. Kosning í stjórnir annarra félaga, stofnana og sjóða eftir atvikum.

24. Kosning nefnda og málefnahópa eftir atvikum.

F. Ályktanir og önnur mál:

25. Ályktanir, stefnumál og baráttumál.

26. Önnur mál.

22. gr. Kjörgengi

22.1. Allt félagsfólk í aðildarfélögum Sjálfsbjargar hefur kjörgengi í trúnaðarstörf sem kosið er í á landsfundi en stjórnarmenn Sjálfsbjargar og Kjarks þurfa að vera lögráða. Formaður stjórnar Sjálfsbjargar, meirihluti stjórnar og að lágmarki annar varamanna í stjórn skulu vera hreyfihömluð.

22.2. Ef einungis eitt framboð er í trúnaðarstarf á landsfundi er viðkomandi sjálfkjörinn. Ef fleiri en eitt framboð er um starf skal kosið milli þeirra á landsfundinum og hlýtur sá kjör sem fær flest atkvæði. Fjöldi atkvæða ræður hvort fólk verður aðalmenn eða varamenn, nema ef varamenn skulu kosnir sérstaklega. Hljóti tveir eða fleiri frambjóðendur jafnmörg atkvæði og röð þeirra skiptir máli ræður hlutkesti, nema tillaga komi fram um annað.

22.3. Félagsfólk sem er kosið á landsfundi sem aðalmenn í stjórn, nefndir og málefnahópa Sjálfsbjargar skulu ekki sitja í sömu stjórn, nefnd eða málefnahópi lengur en sex ár samfellt. Hafi einstaklingur tekið sæti á miðju kjör- eða starfstímabili getur hann lokið því auk þriggja heilla tímabila eða alls að hámarki sjö ár. Að lágmarki eitt ár þarf að líða frá því að hámarks samfelldu trúnaðarstarfi lauk áður en heimilt er að bjóða sig fram að nýju og taka sæti í sömu stjórn, nefnd eða málefnahópi. Öll hlutverk innan stjórnar, þar með taldir varamenn, teljast sem seta í sama starfi þegar samfelldur tími er reiknaður samkvæmt þessu ákvæði. Seta sem formaður Sjálfsbjargar er óháð fyrri stjórnarsetu.

23. gr. Framboð og kjörnefnd

23.1. Kjörnefnd er þriggja manna nefnd sem kosin er til tveggja ára á landsfundi. Kosnir skulu tveir nefndarmenn annað árið og einn hitt árið. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skulu tveir nefndarmenn kosnir til tveggja ára. Á oddatöluári skal kjósa einn nefndarmann til tveggja ára. Varamaður skal kosinn árlega til eins árs. Nefndin skal kjósa sér formann.

23.2. Hlutverk kjörnefndar er að tryggja næg framboð í þau trúnaðarstörf sem kosið er um á landsfundi. Tryggja skal öllu félagsfólki aðildarfélaga Sjálfsbjargar tækifæri til að bjóða sig fram og taka þátt í tilnefningum til framboðs. Kjörnefnd skal hafa að leiðarljósi fjölbreytni framboða, stuðla að jafnri kynjaskiptingu og að hlutfall fólks í stjórnum, nefndum og málefnahópum sé sem jafnast milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins.

23.3. Kjörnefnd skal í samvinnu við skrifstofu Sjálfsbjargar auglýsa eftir framboðum og taka við ábendingum um félagsfólk í aðildarfélögum Sjálfsbjargar í trúnaðarstörf sem kosið er í á landsfundi.

23.4. Skrifstofa Sjálfsbjargar skal senda auglýsingu kjörnefndar til aðildarfélaga Sjálfsbjargar og félagsfólks þeirra með tölvupósti ekki seinna en tveimur mánuðum fyrir landsfund. Á sama tíma skal auglýsingin birt á vefsíðu Sjálfsbjargar. Í auglýsingu kjörnefndar skal tilgreina nöfn, netföng kjörnefndarmanna og framboðsfrest.

23.5. Framboð skulu berast kjörnefnd eigi síðar en fjórum vikum fyrir landsfund. Þau sem bjóða sig fram geta sent stutt kynningarefni um sig til kjörnefndar. Allir frambjóðendur eiga sama rétt á að kynna framboð sitt og líka á landsfundi.

23.6. Kjörnefnd skal senda skrifstofu Sjálfsbjargar lista með nöfnum frambjóðenda og hvaða aðildarfélagi þau tilheyra eigi síðar en tveimur vikum fyrir landsfund. Með listanum skal fylgja kynningarefni frambjóðenda. Skrifstofa Sjálfsbjargar skal þá þegar senda aðildarfélögunum, landsfundarfulltrúum og varamönnum þeirra lista kjörnefndar með nöfnum frambjóðenda og birta hann sömuleiðis á vefsíðu Sjálfsbjargar.

23.7. Stjórn Sjálfsbjargar ber ábyrgð á störfum kjörnefndar. Stjórn getur í samvinnu við kjörnefnd sett nánari reglur um störf kjörnefndar og framboð.

23.8. Berist framboð of seint eru þau háð samþykki landsfundar með meirihluta greiddra atkvæða.

23.9. Ef einstaklingur í trúnaðarstarfi fyrir Sjálfsbjörg lætur af störfum áður en kjörtímabili lýkur tekur varamaður við og kosið er í starfið á næsta landsfundi.

24. gr. Tillögur á dagskrá fundar og fundargögn

24.1. Tillögur sem leggja á fyrir landsfund, svo sem að ályktunum og lagabreytingum, skulu vera skriflegar og sendar skrifstofu Sjálfsbjargar í síðasta lagi fjórum vikum fyrir landsfund. Skrifstofa Sjálfsbjargar skal senda landsfundarfulltrúum og aðildarfélögum tillögurnar í síðasta lagi tveimur vikum fyrir landsfund og birta þær á vefsíðu Sjálfsbjargar.

24.2. Tillögur sem berast eftir að fundur er hafinn er hægt að koma á dagskrá landsfundar með samþykki að lágmarki 2/3 hluta greiddra atkvæða.

24.3. Skrifstofa Sjálfsbjargar skal senda með tölvupósti fundargögn, meðal annars ársskýrslur og ársreikninga Sjálfsbjargar og Kjarks, til landsfundarfulltrúa og aðildarfélaga í síðasta lagi tveimur vikum fyrir landsfund og birta þær á vefsíðu Sjálfsbjargar.

25. gr. Atkvæðagreiðslur

25.1. Hver landsfundarfulltrúi fer með eitt atkvæði og er óheimilt að veita öðrum umboð til að fara með atkvæði sitt.

25.2. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á landsfundi nema þegar um er að ræða brottvikningu aðildarfélags, nýja tillögu á dagskrá landsfundar, lagabreytingar og slit, samanber greinar 13.2., 24.2., 26.2. og 45.2.

25.3. Atkvæðagreiðslur skulu vera skriflegar ef þess er óskað. Rafrænar atkvæðagreiðslur samkvæmt ákvörðun stjórnar, samanber grein 14.4., teljast skriflegar í skilningi þessa ákvæðis ef þær eru leynilegar.

26. gr. Lagabreytingar

26.1. Tillögur að lagabreytingum skulu lagðar fyrir landsfund samkvæmt 24. gr.

26.2. Lagabreytingar þarfnast samþykkis að lágmarki 2/3 hluta greiddra atkvæða á landsfundi.

5. kafli. Formannafundur

27. gr. Formannafundur

27.1. Stjórn skal boða formenn allra aðildarfélaganna til hið minnsta tveggja formannafunda með stjórn á kjörtímabilinu til samráðs og upplýsingamiðlunar milli stjórnar og aðildarfélaganna um málefni Sjálfsbjargar og sameiginleg málefni Sjálfsbjargar og aðildarfélaganna. Stjórn er heimilt að boða fleiri en formenn á formannafund.

27.2. Minnst þriðjungur stjórna aðildarfélaga Sjálfsbjargar getur krafist þess að stjórn Sjálfsbjargar boði til formannafundar til að taka ákveðið mál til umræðu.

27.3 Formannafundir skulu boðaðir með sannanlegum hætti, til dæmis tölvupósti, með minnst tíu daga fyrirvara. Formenn mega senda á fundinn stjórnarmann í sinn stað eða taka fleiri fulltrúa með sér úr stjórn aðildarfélagsins. Formenn geta sömuleiðis óskað eftir að taka með sér fleiri fulltrúa aðra en stjórnarmenn frá aðildarfélaginu.

27.4. Staðfesta skal þátttöku formanns og/eða fulltrúa hans sem fyrst fyrir fundinn.

27.5. Formannafundur getur samþykkt tilmæli til stjórnar Sjálfsbjargar og opinberar ályktanir meðal annars til stjórnvalda.

27.6. Stjórn Sjálfsbjargar getur ákveðið að fundarmenn geti tekið þátt í formannafundi rafrænt.

27.7. Formannafundur getur krafist aukalandsfundar, sbr. 16. gr., til að taka ákveðið mál til meðferðar.

6. kafli. Stjórn, framkvæmdastjóri og skrifstofa

28. gr. Hlutverk stjórnar og kosning

28.1. Stjórn Sjálfsbjargar fer með æðsta vald og málefni landssambandsins milli landsfunda í samræmi við hlutverk Sjálfsbjargar, ákvarðanir landsfundar, lög þessi og ákvæði laga.

28.2. Formaður, varaformaður og gjaldkeri rita í sameiningu firma Sjálfsbjargar.

28.3. Stjórnin samanstendur af formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda, sem kosin eru til tveggja ára á landsfundi. Einnig skulu kosnir tveir varamenn til tveggja ára sem hafa seturétt á stjórnarfundum.

28.4. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skal kjósa formann, gjaldkera, einn meðstjórnanda og einn varamann til tveggja ára. Á oddatöluári skal kjósa varaformann, ritara og einn varamann til tveggja ára.

29. gr. Varamenn í stjórn

29.1. Varamenn í stjórn skulu boðaðir á stjórnarfundi og fá öll fundargögn send. Þeim er heimilt að sitja stjórnarfundi án atkvæðisréttar en taka sæti stjórnarmanns ef forföll verða.

29.2. Ef formaður lætur af störfum á kjörtímabilinu tekur varaformaður við sem formaður til næsta landsfundar.

29.3. Ef varaformaður lætur af störfum á kjörtímabilinu velur stjórn úr sínum hópi varaformann tímabundið til næsta landsfundar.

29.4. Ef stjórnarmaður lætur af störfum á kjörtímabilinu tekur sá varamaður við sem hefur verið lengur kjörinn varamaður.

30. gr. Helstu skyldur og störf stjórnar

30.1. Stjórn stýrir og skipuleggur starfsemi Sjálfsbjargar og gætir hagsmuna landssambandsins á allan hátt í samræmi við hlutverk Sjálfsbjargar í umboði landsfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.

30.2. Stjórn hefur yfirumsjón og eftirlit með eignum, fjáröflun og rekstri Sjálfsbjargar. Stjórn skal sjá til þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi félagsins og ber ábyrgð á gerð ársreiknings samanber 8. kafla.

30.3. Stjórn mótar stefnu og megináherslur Sjálfsbjargar. Hún skal semja starfs- og fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi starfsár og næsta ár og leggja árlega fyrir landsfund til samþykktar.

30.4. Stjórn tilnefnir fyrir hönd Sjálfsbjargar fulltrúa í stjórnir og nefndir nema ákveðið sé í reglum að landsfundur kjósi fulltrúa.

30.5. Stjórn skal setja sér starfsreglur í upphafi kjörtímabils um hlutverk stjórnar og framkvæmd verkefna hennar, meðal annars eftir því sem við á reglur um störf stjórnarformanns og framkvæmdastjóra og verkaskiptingu þeirra.

31. gr. Formaður stjórnar

31.1. Formaður stjórnar kemur fram fyrir hönd stjórnar vegna stefnumála Sjálfsbjargar í samráði við stjórn og starfsreglur hennar.

31.2. Formaður stjórnar kemur fram fyrir hönd stjórnar gagnvart framkvæmdastjóra milli stjórnarfunda.

31.3. Stjórn ákveður starfshlutfall formanns og gerir starfssamning við hann um stjórnarformennskustörf, til að mynda um skipulagningu starfa Sjálfsbjargar, samskipti við aðildarfélögin, stefnumótun, málefnavinnu og forsvar út á við svo sem gagnvart stjórnvöldum og öðrum.

31.4. Stjórn er heimilt að fela stjórnarformanni einstök verkefni sem teljast eðlilegur hluti starfa formanns gegn þóknun. Stjórn getur ákveðið þóknun til handa varaformanni og öðrum stjórnarmönnum sem taka tímabundið að sér störf formanns eða varaformanns.

32. gr. Stjórnarfundir

32.1. Stjórnarfundir skulu haldnir reglulega að lágmarki átta sinnum á ári.

32.2. Framkvæmdastjóri situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum.

32.3. Stjórn getur ákveðið í starfsreglum stjórnar, að stjórnarfundir eða þátttaka í þeim geti verið með rafrænum hætti, meðal annars að atkvæðagreiðsla um einstök mál fari fram með tölvupósti.

32.4. Formaður boðar til stjórnarfunda með sannanlegum hætti með minnst viku fyrirvara nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Með fundarboði skal senda út dagskrá fundarins og fundargögn. Fund skal halda ef einhver stjórnarmanna eða framkvæmdastjóri krefst þess og innan fimm daga frá því að ósk þess efnis var sett fram.

32.5. Stjórnarfundur er lögmætur hafi verið löglega til hans boðað og að lágmarki meirihluti stjórnar mætir. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið sé þess kostur.

32.6. Meirihluti atkvæða stjórnarmanna ræður úrslitum á stjórnarfundi. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði eru jöfn.

32.7. Stjórn skal halda fundargerðir þar sem skráðar skulu niðurstöður og ákvarðanir hvers máls sem tekið er fyrir.

33. gr. Ráðning og hlutverk framkvæmdastjóra

33.1 Stjórn Sjálfsbjargar ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann ráðningarsamning. Framkvæmdastjóri má ekki sitja í stjórn Sjálfsbjargar.

33.2 Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri og skal fara að stefnu og fyrirmælum stjórnar. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar.

33.3 Framkvæmdastjóri skal gera grein fyrir rekstri og stöðu Sjálfsbjargar á stjórnarfundum hvenær sem stjórn æskir þess.

33.4. Framkvæmdastjóri getur komið fram út á við fyrir hönd Sjálfsbjargar og skuldbundið Sjálfsbjörg í málum sem heyra undir daglegan rekstur en ekki í stefnumálum Sjálfsbjargar.

34. gr. Skrifstofa Sjálfsbjargar og starfsfólk

34.1. Framkvæmdastjóri stjórnar skrifstofu Sjálfsbjargar í samráði við formann.

34.2. Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk til skrifstofunnar og hefur alla daglega umsýslu.

34.3. Leitast skal við að ekki sé minna en helmingur starfsfólks Sjálfsbjargar hreyfihamlað og kynjahlutfall sé sem jafnast.

35. gr. Hagsmunaárekstrar og vanhæfi

35.1. Stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra er hvorki heimilt að taka þátt í meðferð né ákvörðun í máli sem varðar samning milli hans og Sjálfsbjargar eða í nokkru öðru máli þar sem hagsmunir hans kunna að stangast á við hagsmuni Sjálfsbjargar. Sama gildir um starfsfólk Sjálfsbjargar.

35.2. Skylt er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra í skilningi greinar 35.1. og víkja sæti af sjálfsdáðum ef þær aðstæður eru til staðar. Meirihluti stjórnar getur ákveðið að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri víki sæti ef uppi eru aðstæður samkvæmt grein 35.1. og viðkomandi víkur ekki af sjálfsdáðum.

35.3. Óheimilt er að veita stjórnendum og starfsfólki lán eða setja tryggingu fyrir þau.

7. kafli. Nefndir og málefnahópar

36. gr. Nefndir og málefnahópar

36.1. Landsfundur getur kosið og stjórn myndað nefndir og málefnahópa til að sinna afmörkuðum málefnum fyrir Sjálfsbjörg.

36.2. Stjórn ber ábyrgð á störfum nefnda og málefnahópa. Stjórn setur þeim starfslýsingu og starfsreglur um störf þeirra og framkvæmd verkefna, þar á meðal hlutverk formanns, ritun fundargerða og skýrslugjöf.

36.3. Stjórn getur ákveðið þóknun fyrir störf í nefndum og málefnahópum.

8. kafli. Reikningar og endurskoðun

37. gr. Ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra á bókhaldi og ársreikningi

37.1. Stjórn og framkvæmdastjóri skulu sjá til þess að bókhald Sjálfsbjargar sé fært og ársreikningur saminn í samræmi við lög um bókhald.

37.2. Stjórn ásamt framkvæmdastjóra staðfestir ársreikning Sjálfsbjargar með áritun sinni.

38. gr. Reikningsár

Reikningsár Sjálfsbjargar er almanaksárið.

39. gr. Löggiltur endurskoðandi

Stjórn Sjálfsbjargar skal ráða löggiltan endurskoðanda eða endurskoðendafyrirtæki til að yfirfara ársreikning Sjálfsbjargar.

40. gr. Samþykkt ársreiknings og birting hans

40.1. Ársreikningur Sjálfsbjargar skal lagður fram á landsfundi til samþykktar.

40.2. Samþykktur ársreikningur Sjálfsbjargar skal birtur á vefsíðu Sjálfsbjargar svo fljótt sem verða má og í síðasta lagi innan tveggja vikna frá landsfundi.

9. kafli. Kjarkur endurhæfing

41. gr. Hlutverk og skipulag Kjarks endurhæfingar

41.1. Sjálfsbjörg skal reka Kjark endurhæfingu, heilbrigðisstofnun í skilningi laga um heilbrigðisþjónustu, í sérstöku félagi aðgreindu frá rekstri Sjálfsbjargar og fjárhag. Tekjum og eignum félagsins má einvörðungu verja í þágu starfsemi þess.

41.2. Kjarkur endurhæfing, hér eftir nefndur Kjarkur, skal veita sérhæfða og þverfaglega einstaklingsmiðaða endurhæfingu í skilningi laga um heilbrigðisþjónustu fyrir hreyfihamlað fólk, sem glímir við tauga- og/eða heilaskaða.

41.3. Stjórn valin af Sjálfsbjörg ber ábyrgð á starfsemi Kjarks í umboði Sjálfsbjargar. Stjórn Sjálfsbjargar ákveður í samráði við stjórn Kjarks þóknun fyrir störf stjórnarmanna.

41.4. Stjórn Sjálfsbjargar setur Kjarki samþykktir að tillögu stjórnar Kjarks og staðfestir þær. Stjórn Sjálfsbjargar getur farið fram á að gerðar verði tilgreindar breytingar á samþykktum Kjarks og óskað eftir tillögu þar um frá stjórn Kjarks.

41.5. Ársskýrsla og ársreikningur Kjarks skulu kynnt á landsfundi Sjálfsbjargar.

41.6. Samþykktur ársreikningur Kjarks skal birtur á vefsíðu Sjálfsbjargar svo fljótt sem verða má og í síðasta lagi innan tveggja vikna frá landsfundi.

42. gr. Kosning og tilnefning stjórnarmanna Kjarks

42.1. Stjórn Kjarks samanstendur af fimm aðalmönnum og tveimur til vara. Tryggja skal nauðsynlega og fjölbreytta þekkingu innan stjórnar á stöðu hreyfihamlaðra, á sviði heilbrigðisþjónustu og/eða endurhæfingar og fjárhagslegum rekstri (fjármálum).

42.2. Tveir stjórnarmanna Kjarks og einn varamaður skulu kosnir á landsfundi. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára, einn á ári hverju. Á ári sem kemur upp á oddatölu skal varamaður kosinn til tveggja ára.

42.3. Þrír stjórnarmenn og einn varamaður skulu tilnefndir af stjórn Sjálfsbjargar sem ber að tryggja nauðsynlega fagþekkingu innan stjórnar. Tilnefndir skulu tveir stjórnarmenn annað árið og einn hitt árið. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skulu tveir stjórnarmenn tilnefndir til tveggja ára og einn varamaður til tveggja ára. Á oddatöluári skal tilnefna einn stjórnarmann til tveggja ára. Tilnefningar stjórnar Sjálfsbjargar í stjórn Kjarks samkvæmt ákvæði þessu skulu fara fram á fyrsta stjórnarfundi eftir landsfund.

42.4. Stjórn Kjarks skiptir með sér verkum árlega í upphafi starfstímabils nýrra stjórnarmanna og kýs úr sínum hópi formann og varaformann.

42.5. Óheimilt er að fleiri en tveir stjórnarmenn í Sjálfsbjörg taki jafnframt sæti í stjórn Kjarks og að formaður Sjálfsbjargar gegni einnig formennsku í stjórn Kjarks.

10. kafli. Önnur ákvæði

43 gr. Reglur um nánari framkvæmd laganna

43.1. Stjórn er heimilt að setja reglur um nánari framkvæmd einstakra lagagreina. Reglurnar skulu birtar aðildarfélögum og á vefsíðu Sjálfsbjargar.

43.2. Reglur samkvæmt þessari grein skulu ávallt rúmast innan ramma viðkomandi greina og þessara laga.

44. gr. Tilkynningar um breytingar til fyrirtækjaskrár

Skrifstofa Sjálfsbjargar skal tilkynna til fyrirtækjaskrár breytingar á lögum Sjálfsbjargar, val á nýjum stjórnarmanni eða varamanni í stjórn eða breytingar á heimild til að skuldbinda félagið, ásamt öðru því sem skráð hefur verið í fyrirtækjaskrá.

45. gr. Slit

45.1. Verði Sjálfsbjörg lögð niður skulu eignir landssambandsins renna til réttinda- og hagsmunamála hreyfihamlaðs fólks á Íslandi í samræmi við hlutverk Sjálfsbjargar og nánari ákvörðun landsfundar.

45.2. Tillaga um slit Sjálfsbjargar skal lögð fram á landsfundi í samræmi við 24. gr. og þarf samþykki að lágmarki 2/3 hluta greiddra atkvæða á landsfundi. Tillaga um slit Sjálfsbjargar skal einnig hafa að geyma tillögu um hvernig ráðstafa skuli eignum Sjálfsbjargar innan ramma greinar 45.1.

45.3. Hafi landsfundur samhliða ákvörðun um slit samþykkt endanleg reikningsskil, efnahags- og rekstrarreikning, samkvæmt lögum um bókhald, sem lögð eru fram af stjórn Sjálfsbjargar, þar sem fram kemur að engar skuldir séu í félaginu og að á Sjálfsbjörg hvíli engar skuldbindingar, er ekki þörf á formlegri slitameðferð. Skal þá stjórn Sjálfsbjargar annast slitameðferð, gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til slitanna og ráðstöfun eigna, nema landsfundur taki ákvörðun um að fela það til þess kosinni slitastjórn eða skiptastjóra.

45.4. Ef tekin er ákvörðun um slit Sjálfsbjargar og einhverjar skuldir eru til staðar ber landsfundi að kjósa skiptastjóra og um slitameðferðina fer þá eftir 2. mgr. 23. gr. laga um félög til almannaheilla.

45.5. Hafi verið ákveðið að slíta Sjálfsbjörg eru fjárhagslegar ráðstafanir eigna Sjálfsbjargar eingöngu heimilar í þeim mæli sem nauðsynlegt er vegna slitameðferðar.

45.6. Þegar slitameðferð Sjálfsbjargar er lokið skulu slitin tilkynnt fyrirtækjaskrá og Sjálfsbjörg afskráð.

46. gr. Gildistaka

Lög þessi taka þegar gildi.

Samþykkt á landsfundi Sjálfsbjargar 26. apríl 2025.