Starfsemin

Sagan

Söguvefur Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, er að stofni til unninn í tilefni af 50 ára afmæli Sjálfsbjargar. Anna Ólafsdóttir Björnsson sagnfræðingur tók að sér að skrifa sögu Sjálfsbjargar fyrir vefútgáfu upp úr þeim prentuðu heimildum sem fyrir liggja og taka heimildaviðtöl við tvo brautryðjendur, Ólöfu Ríkarðsdóttur í Reykjavík og Pálínu Snorradóttur í Hveragerði sem einnig er fróð um fyrstu ár Sjálfsbjargar á Ísafirði. Báðar búa yfir mikilli þekkingu á sögu Sjálfsbjargar og hafa lagt tímariti landssambandsins drjúgt lið. Auk þess verður viðtal sem Anna tók fyrir 50 ára afmælisrit Sjálfsbjargar, við Ólöfu, birt sem hluti af vef þessum, eftir útkomu ritsins. Valdimar Tryggvason, bróðir Vilborgar heitinnar Tryggvadóttur færði Sjálfsbjörg að gjöf myndir er hún hafði tekið og skráð af mikilli elju.

Myndasafn Sjálfsbjargar var einnig einstaklega gagnlegt. Afrakstur þeirrar vinnu voru á sjötta tug vefsíðna, í sex meginköflum. Vefurinn er settur upp með það í huga að auðvelt sé að bæta fróðleik og upplýsingum við hann, bæði eldri heimildum og nýrri viðburðum.

Frá því höfundur afhenti söguvefinn til Sjálfsbjargar á 50 ára afmæli sambandsins, 4. júní 2009, fluttist ritstjórn og höfundarréttur efnis til Sjálfsbjargar og allar viðbætur og nýir kaflar, þótt þeir séu verk annarra höfunda, verða hluti af síkvikum söguvef sem vonandi verður í stöðugri uppfærslu og endurnýjun. ,,Fortíðin er ekki lengur það sem hún eitt sinn var,“ sagði norskur sagnfræðingur fyrir nokkrum árum og vill höfundur gera þau orð að sínum. Vefútgáfur af sögulegu efni eru áhugaverður valkostur og býður að nokkru leyti upp á annars konar söguritun en saga sem rituð er til útgáfu á pappír. Höfundur vonar þó að upprunalegur texti fái að standa lítið breyttur, en allar eðlilegar viðbætur, það er stutt innskot og leiðréttingar, eiga að sjálfsögðu rétt á sér.

Öllum er heimilt að nota efni af vefnum til fróðleiks og sem heimild um sögu fatlaðra á Íslandi.


Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2009