Starfsemin

Rampað Upp með Hertz!

Átakið Römpum upp og Hertz bílaleiga vígðu saman á föstudaginn nýjan ramp og aðgengilegan bílaleigubíl sem hreyfihömluðum gefst færi á að stýra. Átakið, Römpum upp Ísland, hafa síðustu daga unnið að því að auka hjólastólaaðgengi í kringum starfsstöðvar Hertz með því að byggja rampa. Í kjölfar þess ákvað Hertz að ráðast í bætur á aðgengismálum bílaflotans með því að fá til sinn sérútbúinn bíl.

Þessi fyrsta bifreið flotans er búin sérstökum búnaði sem gerir hreyfihömluðum kleift að keyra bílinn sjálf. Bíllinn sem varð fyrir valinu er af gerðinni Hyundai Tucson. Vígsla bílsins og rampsins fór fram við mikil veisluhöld og fékk góðar undirtektir meðal gesta.

Haft er eftir forstjóra Hertz, Sigurði Berndsen :

“Með þessu skrefi erum við að stuðla að því að allir hafi jafnt aðgengi, óháð hreyfigetu. Þetta gefur erlendum sem innlendum ferðamönnum með hreyfihömlun tækifæri til að ferðast sjálfstætt um okkar fallega land. Við stefnum á að fjölga bílum með þessum útbúnaði. Sérstakar þakkir fá Römpum upp Ísland fyrir þeirra ómetanlega starf og eldmóð”.

Átakið Römpum upp Ísland hefur nú reist 1.200 rampa og var sá fyrsti tekinn í notkun í maí 2021. Upphaflega var stefnt að því að reisa þúsund rampa, en var sú ákvörðun svo tekin að ganga einu skrefi lengra og reisa eitt þúsund og fimmhundruð rampa.

Bergur Þorri Benjamínsson fyrrum formaður Sjálfsbjargar lsh. og núverandi formaður aðgengishóps ÖBÍ klippti á borðann við vígslu nýjasta rampsins hjá Hertz.
Hanna Margrét Kristleifsdóttir stjórnarmaður Sjálfsbjargar lsh. prófaði fyrsta bílinn sem hreyfihömluðum gefst nú kostur á að leigja hjá Hertz.