Starfsemin

Mun Sólheimar hætta starfsemi um áramótin

Fulltrúaráð Sólheima í Grímsnesi hefur samþykkt að heimila framkvæmdastjórn heimilisins að segja upp þjónustu við fatlaða ásamt ráðningarsamningum, leigusamningum og öðrum skuldbindingum. Á blaðamannafundi sagði Pétur Sveinbjörnsson stjórnarformaður Sólheima að reynt hefði verið að finna allar hugsanlegar leiðir til þess að tryggja stöðu Sólheima og íbúa Sólheima en ekki tekist.

Ástæðan fyrir samþykkt fulltrúaráðsins eru helstar að framkvæmdastjórn Sólheima telur þær fjárveitingar sem heimilinu er ætlað á fjárlögum næsta árs dugi alls ekki fyrir rekstrinum. Vegna þess að Sólheimar hafi ekki fengið mat á þjónustuþörf fatlaðra í átta ár, þrátt fyrir að lög kveði á um að það slíkt mat skuli framkvæmt árlega og að stjórn Sólheima líti svo á að það starfsumhverfi sem Sólheimum verði boðið upp á, verði lögin um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga samþykkt óbreytt, henti alls ekki stöðu Sólheima.

Til að standa vörð um öryggi og þjónustu við þá 43 fötluðu einstaklinga sem búa á Sólheimum heimilar fulltrúaráðið framkvæmdastjórninni að bjóða sveitarfélögum á Suðurlandi að taka á leigu íbúðarhús og aðrar eignir, sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða, til eins árs, enda verði samningagerð lokið eigi síðar en 31. desember n.k., en félagsmálaráðuneytið hefur tilkynnt Sólheimum að fjárveitingar á fjárlögum til Sólheima verði felldar niður frá og með 1. janúar 2011.