Starfsemin

Mannréttindi hreyfihamlaðs fólks fótum troðin, hversu lengi enn?

Í samfélaginu hafa langa lengi verið teknar ákvarðanir, meðvitaðar og ómeðvitaðar, um að hreyfihamlað fólk skuli búa við skert mannréttindi um aldur og ævi. Þessar ákvarðanir hafa t.d. leitt til þess að sá hópur íslenskra borgara getur ekki valið sér íbúð og búsetu hvar sem er vegna skorts á aðgengi fyrir alla og takmarkaðrar félagslegrar þjónustu. Af sömu ástæðum getur hreyfihamlað fólk ekki valið sér menntun né hefur frjálst val á vinnumarkaðnum og sama gildir um ferðafrelsið. Þetta eru allt mannréttindi sem óhreyfihamlað fólk tekur sem gefnu. Manngildi hreyfihamlaðs fólks er gjaldfellt og litið er á það sem kostnað og sérstaka greiðasemi ef samfélagið tekur tillit til og mætir þörfum þessara borgara. Mannréttindi hreyfihamlaðs fólks eru neðarlega á lista þegar rætt er um þarfir og skyldur samfélagsins; aðskilnaðarstefnan lifir enn. Mikilvægara þykir að gera reiðvegi fyrir hesta, golfvelli og sinna annarri frístundastarfsemi svo dæmi séu tekin, en að tryggja hreyfihömluðum borgurum grundvallarmannréttindi. Jafnvel þó að þau mannréttindi eigi sér stoð í laga- og reglugerðarumhverfi. Hér koma til ríkjandi viðhorf í samfélaginu. Litið er á skerðingu og hreyfihömlun er af henni leiðir sem harmleik er verðskuldi vorkunnsemi og ölmusu fyrst og fremst. Þau viðhorf endurspegla oft aðgerðir samfélagsins í þágu hreyfihamlaðs fólks; að það beri einkum að tryggja hreyfihömluðu fólki húsaskjól í „sérstaklega aðgengilegu húsnæði fyrir hreyfihamlaða“ og framfærslu, en ráðstafanir sem gera hreyfihömluðum borgurum kleift að taka þátt í samfélaginu á jafnréttisgrunni eru settar til hliðar eða mjög neðarlega á forgangslistann. Hitt þykir sjálfsagt að hreyfihamlaðir borgarar greiði sömu skatta og aðrir þó að samfélagið mismuni þeim.

Vaxandi hópur hreyfihamlaðs fólks á Íslandi, ekki síst ungt fólks, sættir sig alls ekki við stöðuna og vill uppreisn gegn aðskilnaðarstefnunni. Þróun lagaumhverfis einstakra landa og á alþjóðavísu er að mörgu leyti hreyfihömluðu fólki í hag. Nokkur lönd hafa löggjöf sem bannar mismunun á grundvelli fötlunar. Nýjasta baráttutækið er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland hefur undirritað samninginn eins og fjölmörg önnur ríki, en á eftir að lögfesta hann. Undirbúningur að lögfestingu mun vera í gangi hjá félags- og tryggingamálaráðuneyti og öðrum stjórnvöldum. Með lögfestingu samningsins á Alþingi mun fást nýtt vopn í mannréttindabaráttu hreyfihamlaðs fólks. Munu hreyfihamlaðir borgarar rísa upp gegn ríkjandi ástandi, samtök þeirra, og nota tækifærin sem í samningnum felast?

Hver er merking orðsins hreyfihamlaður? Hér er tillaga að skilgreiningu: Hreyfihömlun er líkamleg skerðing á færni eða getu og þar sem hreyfihömlun er snar þáttur í slíkri skerðingu hjá einstaklingi, sem veldur fötlun. Heyrnar- og sjónskerðing, geðræn-, greindar- eða þroskaskerðing teljast einar og sér ekki til hreyfihömlunar, en einstaklingur getur haft þessar skerðingar með hreyfihömlun.

Ragnar Gunnar Þórhallsson
formaður Sjálfsbjargar lsf