Starfsemin

Gerum Ísland aðgengilegt öllum

Á Alþjóðadegi fatlaðra, 3.desember sl. opnaði Aðgengi ehf. vef um 7 flokka merkjakerfi um aðgengismál fatlaðra með leitarvél. Á vefnum er hægt að finna upplýsingar um aðgengismerkta staði, jafnt mannvirki, innan- og utandyra og að náttúruperlum.

Merkjakerfið gengur út á að búið er að greina fatlanir/skerðingar í 7 flokka og hver flokkur á sitt merki. Til að starfsemi geti fengið merki þarf staðurinn að uppfylla lágmarkskröfur sem aðildarfélög fatlaðra á Íslandi hafa samþykkt. Til að forðast allan misskilning þá er ekki verið að meta aðgengi eftir gildandi byggingarreglugerð heldur aðeins hvort hægt sé að komast um og nýta aðstöðuna. Til dæmis uppfylli staðurinn lágmarkskröfur fyrir hjólastólaaðgengi fær hann merki fyrir þann flokk. Staðirnir geta fengið frá 1 merki upp í 7 allt eftir því í hvaða fötlunarflokkum aðgengiskröfunum er náð. Aðgangsmerkjakerfið er vottað gæðakerfi.

Í viðtali við Klifur í haust sagði Harpa Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Aðgengis og stofnandi vefsins. “Við erum ekki að finna upp hjólið heldur tökum þátt í norrænu verkefni sem á uppruna sinn í Danmörku og markmiðið er að öll Norðurlöndin verði með sömu merki og í framtíðinni öll Evrópa. Við erum brautryðjendur og viljum sýna gott fordæmi.” En sjón er sögu ríkari, og slóðin að vefnum er http://www.gottadgengi.is/.