Í dag, á alþjóðadegi fatlaðs fólks, kynnir Ferðamálastofa nýjan þátt í þáttaröðinni Í stuttu máli undir yfirskriftinni Ferðalag án hindrana. Í þættinum er fjallað um það hvernig ferðaþjónustan getur skapað jákvæða upplifun fyrir alla, óháð hindrunum, og hvernig litlar, markvissar aðgerðir geta gert upplifanir bæði aðgengilegri og betri fyrir hreyfihamlað og fatlað fólk.
Í þættinum er kynnt verkefnið Gott aðgengi í ferðaþjónustu, sem styður fyrirtæki við að taka faglega á móti viðskiptavinum með ólíkar þarfir.
Þátturinn er unninn í samstarfi við Hæfnisetrið, SAF og markaðsstofur landshlutanna. Í þættinum eru fulltrúar frá Sjálfsbjörg og Sky Lagoon, sem deila dýrmætri reynslu af því hvernig aðgengi skapar verðmæti fyrir bæði gesti og fyrirtæki.
Ísland hefur nýlega undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og viljum við með þessum þætti hvetja ferðaþjónustuaðila til að taka aðgengismálin föstum tökum. Aukin áhersla á aðgengi er ekki aðeins samfélagslegt réttindamál, heldur einnig stórt markaðstækifæri sem styrkir íslenska ferðaþjónustu allt árið um kring.
Hægt er að lesa meira um verkefnið á vef Ferðamálastofu.