Starfsemin

Ályktun landsfundar Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra um kjaramál

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. kallar eftir leiðréttingu á kjörum öryrkja strax, leiðrétta þarf kjaragliðnun (kjaraskerðingar) stjórnvalda frá því fyrir hrun og til dagsins í dag.

Ekki er löglegt að örorkulífeyrir sé meira en 100.000 kr. lægri en lægstu launataxtar og krefjumst við leiðréttingar á þessu strax. Þetta átti að vera tryggt með 69. gr. laga almannatrygginga, nú 62 gr. laga.

62. gr. Árleg breyting fjárhæða.
Greiðslur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 42. gr. og fjárhæð skv. 28. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. krefst leiðréttingar á þessum skerðingum stjórnvalda strax. Þetta eru peningar sem öryrkjar hafa verið hlunnfarnir um þrátt fyrir fyrirmæli 62. gr laga, sem sjá má hér ofar.

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. kallar eftir áætlun stjórnvalda um hvernig stjórnvöld ætla að vinna samkvæmt 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um viðunandi lífskjör og félagsleg vernd. Þar segir:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, meðal annars viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar”.

Við sjáum ekki að stjórnvöld hafi tryggt öryrkjum sífellt batnandi lífskilyrði heldur hafi stjórnvöld skert lífeyri öryrkja skipulega undanfarandi ár og þannig skapað umtalaða kjaragliðnun.

Við stjórnvöld segjum við: „Skilið skerðingunum og hættið að spila með fólk”.

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. hafnar tillögum um starfsgetumat, eins og samtökin hafa gert undir eigin nafni og í samstarfi við ÖBÍ.

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. skorar á Alþingi Íslendinga að fara að eigin lögum með tilvísan til 62. gr almannatryggingalaga, afturvirkt eins og á við um kjör alþingismanna sjálfra.

Við höfnum starfsgetumati og krefjumst leiðréttingar á skerðingum stjórnvalda á

örorkubótum svo þær hækki til jafns við almenn laun á vinnumarkaði.