Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar landssambands skrifar.
Skref hafa verið stigin til að bæta aðgengi þeirra sem búa við einhverskonar hreyfihömlun. Algild hönnun árið 2012 var stærsta skrefið og ber að þakka þáverandi ráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir það skref. Það skref hefur þó ekki orðið til þess að breyta hugsunarhætti þeirra sem hyggja á framkvæmdir eða eru í framkvæmdum. Þar leynast púkar sem sjálfsagt raula lagið „Gott“ eftir Eyjólf Kristjánsson og texta eftir Sverri Stormsker fyrir munni sér „Mér finnst engu einasta máli skipta hvort í blokkum sé öryrkjalyfta bara ef ég fæ rettur og kók!“. Hafi þeir bestu þakkir fyrir þessar ógleymanlegu línur sem gott er að grípa til. En þetta er vandamálið. Aðgengi lendir meira og minna í síðasta sæti.
Í of mörgum tilfellum a.m.k. flestir staðir sem nú rísa eða hafa risið fyrir ferðamannaiðnaðinn á undanförnum árum eru ekki sérstaklega hannaðir með það í huga að allir geti upplifað þá. Þegar gengið er á þá aðila koma allar heimsins afsakanir fram. Böð fyrir ferðamenn rísa upp eins og gorkúlur, þar er mjög takmarkað aðgengi. Aðgengi að ferðum með almenningssamgöngum (utan þéttbýlis) eða rútum er ekkert. Svona get ég haldið lengi áfram. En hvað vantar. Það hefur lengi verið bent á að það vanti aðhald við byggingaraðila og verkkaupa. Á Íslandi er ekki til löggjöf um aðgengi líkt og ADA (The Americans with Disabilities Act) er í Bandaríkjunum. Sú löggjöf var samþykkt 1990 í tíð Bush eldri Bandaríkjaforseta. Og eins og allir þekkja er hægt að fara í dómsmál vestra ef brotið er á þessari löggjöf eins og hverri annarri. Vestra taka menn hlutunum alvarlegar en hér.Hér reddast hlutirnir. „..ég mun leggja áherslu á þetta [aðgengi ofaní laugar sem nú er verið að byggja] við starfsfólk og sjá til að þeim verði kennd réttu handbrögðin“. Takk samt en ég vil alls ekki fá aðstoð frá ókunnugum við að baða mig. En svo eru það gömlu syndirnar.
Skemmtistaðinn Sjallann þekkja allir sem komið hafa til Akureyrar, flestir vita líka að hann brann á sínum tíma (1981) og eftir það var hann var endurbyggður, teiknuð lyfta en hún hefur aldrei sett upp. En ýmislegt hefur breyst síðan 1981. En hvers vegna er það þá þannig að árið 2018 fær maður í hendurnar notendaúttekt í tengslum við ársverkefni Sjálfsbjargar 2018 af safni byggt 2009-2010 þar sem það er teiknuð lyfta en einungis lyftustokkurinn hefur verið settur upp! Getur verið að einhverjir séu ekki starfi sínu vaxnir ? Vantar ekki líka mikið upp á viðhorfin ? Hvað myndu menn gera ef forseti vor væri í hjólastól? Myndu menn bera hann á höndum sér í lyftulausu húsnæði ?
Já þeir eru margir lyftustokkarnir…