Sjálfsbjargarfélagið í Bolungarvík var stofnað árið 1959. Fyrstu árin einbeitti félagið sér að félagsstarfi fyrir félagsmenn. Fyrsti formaður félagsins var Kristján Júlíusson.
Árið 1962 voru fullgildir félagar orðnir fimmtán og styrktarfélagar voru átján. Einn hafði þá verið gerður að ævifélaga.
1968 voru haldin vikuleg vinnukvöld í Bolungarvik en húsnæðisskortur háir starfseminni.
Sjálfsbjörg á Bolungarvík tók upp sama sið og félagið á Siglufiðri og bakaði sólarpönnukökur, en pönnukökusalan fór fram 23.-25. janúar þegar sólin birtist Bolvíkingum. Félagið hefur gefið peninga sem safnast í sólarkaffinu og á útimarkaði, jólabasar og öðrum fjáröflunardögum til tækjakaupa á sjúkraþjálfunarstöð Bolungarvíkur. Flest öll tækin sem hafa verið keypt þangað frá árinu 1982 hafa Sjálfsbjargarfélagar aflað fjár til. Árið 1993 var einnig ákveðið að gefa kirkjunni tónmöskva fyrir heyrnaskerta. Þegar byggðar voru þjónustuíbúðir í Bolungarvík, snemma á tíunda áratugnum hafði Sjálfsbjörg í Bolungarvík ráðstöfunarrétt yfir þremur þeirra.
Starfsemi Sjálfsbjargar í Bolungarvík er enn á félagslegum nótum eins og sjá má á því að félagið hélt umfangsmikla spurningakeppni árið 2005.
Formaður Sjálfsbjargar í Bolungarvík á 50 ára afmælisári Sjálfsbjargar lsf. (2009) var Anna Torfadóttir. Á 60 ára afmælisári félagsins 2019 var formaður Kristján Karl Júlíusson.