Sjálfstætt líf

Sjálfstætt líf

Sjálfstætt líf (Independent living movement) er hugmyndafræði og hreyfing fatlaðs fólks sem á rætur sínar að rekja til mannréttindabaráttu fatlaðs fólks á 8. áratug 20. aldar. Um er að ræða endurskilgreiningu á hugtakinu sjálfstæði.  Í stað þess að geta gert allt upp á eigin spýtur án aðstoðar sé sjálfstæði fólgið í að hafa stjórn, val og möguleika til sjálfstæðs lífs með notendastýrðri persónulegri aðstoð.  

Hvað er NPA?

NPA er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfsætt líf. Markmiðið er að fatlað fólk geti lifað sínu lífi og haft sömu möguleika og ófatlað fólk. Valdið flyst frá þjónustukerfinu til borgarans sem verður um leið vinnuveitandi og verkstjórnandi síns aðstoðarfólks sem hann ræður til sín sjálfur. Aðstoðarfólk vinnur samkvæmt starfslýsingu sem fatlað fólk semur og er hönnuð eftir einstaklingsbundnum þörfum og lífsstíl.  Þannig hefur fatlað fólk val um hver aðstoðar það, hvar aðstoðin fer fram, hvernig hún er skipulögð og hvenær.

NPA samningur felur í sér að fatlað fólk semur við sitt sveitarfélag um að sjá um og skipuleggja sína eigin aðstoð. Einstaklingurinn og sveitarfélagið gera þá svokallaðan NPA samning sín á milli og byggir á sjálfsmati á þjónustuþörf einstaklingsins. Út frá því er áætlað mánaðarlegt fjárframlag sveitarfélagsins til einstaklingsins. Fjármagnið sem einstaklingurinn fær skiptist í þrjá hluta:

  • 85%  í  laun og launatengd gjöld til aðstoðarfólks.
  • 10% umsýslukostnaður sem fer til umsýsluaðila.
  • 5% vegna útlagðs kostnaðar við aðstoðarfólk.

Beingreiðslur

Beingreiðslusamningar um notendastýrða persónulega aðstoð byggja ekki á lagaskyldu en hafa verið við lýði um nokkurt skeið. Í ákveðnum tilfellum er heimilt að gera beingreiðslusamning við fatlaðan notanda þjónustunnar eða við forsjáraðila ólögráða barna. Í beingreiðslusamningi felst að viðkomandi fær greidda ákveðna fjárhæð sem hann ráðstafar sjálfur til kaupa á þeirri þjónustu sem hann ella hefði fengið frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Fjárhæð beingreiðslusamninga er byggð á mati á stuðningsþörf skv. reglum Reykjavíkurborgar um félagslega heimaþjónustu og  stuðningsþjónustu.

Munur á NPA samningi og beingreiðslusamningi er annað regluverk í kringum beingreiðslusamninga og fjárhæðin sem einstaklingurinn fær úthlutað frá sínu sveitarfélagi skiptist ekki í þrjá hluta eins og NPA samningar gera. Þeir sem eru með beingreiðslusamning hafa því ekki ákveðna upphæð sem ætluð er sérstaklega til að mæta kostnaði við aðstoðarfólk t.d. ferðakostnað (5%) né umsýslukostnað (10%).

Fyrirtæki og stofnanir sem vinna að NPA á Íslandi

NPA miðstöðin

NPA Setur Suðurlands

Upplýsingar fyrir þá sem sjá sjálfir um NPA

Einstaklingum með NPA-samninga stendur einnig til boða að sjá sjálfir um samninginn hafi þeir til þess leyfi til umsýslu. Nauðsynlegt er að sækja um slíkt leyfi hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Á heimasíðu Ísland.is er að finna allar upplýsingar um stofnunina og ferlið við leyfisveitingu umsýsluaðila.

Reikningsskil

Fyrir einstaklinga sem sjá sjálfir um umsýsluna er nauðsynlegt að skila upplýsingum til skattsins einu sinni á ári og upplýsingum til sveitafélags í hverjum mánuði um ráðstöfun fjármagnsins sem er úthlutað. Hægt er að skila rekstrarskýrslum úr bókhaldskerfum eða gera rekstrarskýrslu í reikniforritum á borð við Excel.

Gerð ,,Mikilvægra upplýsinga"

Fyrir notendur og aðstoðarfólk getur verið gott að búa til möppu sem inniheldur mikilvægar upplýsingar sem aðstoðarfólk getur alltaf haft aðgang að. Með því móti gefst notendum einnig kostur á að velja hvaða upplýsingar eru nauðsynlegar að hans mati. Til dæmis væri hægt að hafa:

  • Upplýsingar um viðbrögð í neyð: Hvenær og við hvaða kringumstæður á að kalla til sjúkrabíl eða lækni.
  • Upplýsingar um nöfn og símanúmer allra starfsmanna sem starfa í NPA þjónustu einstaklingsins.
  • Upplýsingar sem notandi óskar eftir að séu til staðar þegar farið er til lækna eða annarra sérfræðinga.
  • Hjálpartæki og notkun þeirra.
  • Lyf og norkun þeirra.
  • Upplýsingar um hefðbundin dag eða afrit af vinnuskipulagi/stundaskrá.
  • Upplýsingar um nöfn og samskiptaleiðir helstu sérfræðinga á borð við stoðtækjafræðing, lækna og sjúkraþjálfara
  • Upplýsingar um viðgerðaþjónustu hjálpartækja.
  • Símanúmer og upplýsingar um ráðgjafa hjá sveitafélagi og nánustu aðstandendum.
  • Upplýsingar um fötlun/sjúkdóm og helstu áhugamál.
  • Myndir af nánustu vinum og fjölskyldu.

Fyrir ferðalög erlendis

Frir ferðalög erlendis getur verið nauðsynlegt að sveigja til venjulegt vaktafyrirkomulagi þannig að notandinn geti notið ferðalagsins. Gott ráð er að gera sérstakan ráðningsamning við aðstoðarfólk þann tíma sem ferðalagið varir með upplýsingum um eftirfarandi:

  • Upplýsingar um ferðadaga og ferðatilhögun
  • Upplýsingar um breytingar á vaktafyrirkomulagi og hvíldartíma starfsfólks
  • Upplýsingar um viðbrögð við neyðaraðstæðum og veikindum aðstoðarfólks á ferðalögum.
  • Hvað er greitt fyrir af notanda og hver er upphæð dagpeninga.



Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér